Fara í efni
Íþróttir

Gamla íþróttamyndin – skautahlauparar 1961

Akureyrskir keppendur á Íslandsmótinu í hraðhlaupi á skautum 1961, í fullorðinsflokki. Frá vinstri: Sigfús Erlingsson, Skúli Ágústsson, Jón Dalmann Ármannsson, Ingólfur Ármannsson, Birgir Ágústsson, Sveinn Kristdórsson, Örn Indriðason og Hjalti Þorsteinsson. Ljósmynd: Gunnlaugur P. Kristinsson/Minjasafnið á Akureyri

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – VI

Sjötta gamla íþróttamyndin birtist á Akureyri.net í dag, lesendum til skemmtunar og í þeirri von að fá frekari upplýsingar eða sögur af þessum köppum.

Skautaíþróttir standa á gömlum merg í höfuðstað Norðurlands og heimamenn hugsa sumir með dýrðarljóma til þess tíma þegar Pollinn lagði reglulega, bæjarbúar þustu þangað með skautana sína í farteskinu og renndu sér listilega í hringi ellegar spreyttu sig í íshokkíi eða slógu Íslandsmet í skautahlaupi.

Skautafélag Akureyrar hið fyrra var stofnað í upphafi 20. aldar, jafnvel aldamótaárið 1900 en um það liggja ekki fyrir óyggjandi gögn. Svo virðist sem það hafi aðallega verið skemmtiklúbbur fyrir fína fólkið í kaupstaðnum „er vildi hlæja og gantast með sínum líkum úti undir berum himni,“ eins og segir í Sögu Skautafélags Akureyrar eftir Jón Hjaltason og kom út á 60 ára afmæli þess félags 1997.

Gagnaðist líka „ófínni Akureyringum“

Í bókinni segir Jón einnig að „ófínni Akureyringar“ hafi engu að síður notið góðs af starfsemi skautafélagsins. „Þegar Pollinn lagði frá Oddeyrartanga, í austur og vestur, og inn á Leiru og ísinn fylltist af fólki lét skautafélagið koma fyrir bekkjum á ísnum og samdi jafnvel við hornaleikaraflokk Magnúsar Einarssonar um að spila úti á ísnum. Háir sem lágir skemmtu sér þá jafnt við bumbuhljóm og gjallandi lúðrahjóm.“

Þetta fyrra félag lagðist niður snemma árið 1913 og nýtt félag var ekki stofnað fyrr en 1937.

Fyrsta skautamót hins nýja félags var haldið sunnudaginn 30. mars 1941, í Stórhólma sem kallaður var; austan við svæðið þar sem nú er Akureyrarflugvöllur, norðan við gamla veginn yfir í Vaðlaheiði – á milli vestustu og miðbrúarinnar yfir Eyjafjarðará.

Á mótinu kepptu menn í hraðhlaupi, sýndur var skautadans og þá fór fram fyrsti opinberi íshokkíleikurinn á Íslandi. A-lið Skautafélags Akureyrar sigraði þá B-lið félagsins 4:2.

Björn og Edda eiga Íslandsmetin enn

Á þessum árum var hraðhlaup á skautum enn mjög vinsælt. Björn Baldursson var þá sá besti, margfaldur meistari, en krónprinsarnir Skúli og Örn Indriðason tók síðan við kyndlinum og urðu Íslandsmeistarar.

Þess er vert að geta að Björn Baldursson á enn Íslandsmet í öllum vegalengdum; 500 metrum, 1500 m, 3000 m og 5000 m. Fljótasta kona Íslandssögunnar í skautahlaupi er líka Akureyringur, Edda Indriðadóttir, sem státar af sama árangri og Björn; hún á öll Íslandsmet í greininni; í 500 m, 1000 m, 1500 m og 3000 m hlaupi. Þess ber að geta ekki hefur verið keppt í skautahlaupi hér á landi í mörg ár.