Fara í efni
Íþróttir

Íshokkíkempur á svellinu á Krókeyri

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XX

Íslandsmóti karla í íshokkí lauk í vikunni með því að Skautafélag Reykjavíkur sigraði lið Skautafélags Akureyrar. Því er tilvalið að gamla íþróttamyndin þessa vikuna sé af íshokkíkempum; þarna er keppni í gangi á gamla svellinu á Krókeyri þar sem SA var lengi með aðstöðu. Iðnaðarsafnið er nú til húsa í byggingunni vinstra megin á myndinni og spölkorni norðar var Skautahöllin glæsilega vígð árið 2000.

Svell var lengi útbúið á Krókeyri með því að sprauta vatni úr slöngu en vélfryst skautasvell var tekið þar í notkun í janúar árið 1988. Árið áður var haldið upp á 50 ára Skautafélags Akureyrar.

Skúli Ágústsson er einn íshokkíkappanna á myndinni. Gaman væri að fá upplýsingar um nöfn allra hinna. Veit einhver hvenær myndin var tekin og jafnvel við hvaða tækifæri? Skorað er á alla sem hafa einhverja vitneskju um það, eða luma á skemmtilegum íshokkísögum af Krókeyrinni, að senda póst á skapti@akureyri.net