Lið MA í Gettu betur komið í undanúrslit

Lið Menntaskólans á Akureyri er komið í undanúrslit í spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur. Lið skólans keppti í kvöld á móti liði Menntaskólans við Sund og hafði betur. Keppnin var sýnd í beinni útsendingu á RÚV. Heil rúta af stuðningsfólki keyrði suður í dag til að hvetja liðið áfram í sjónvarpsal og er á leið til baka til Akureyrar.
Sigur MA í kvöld þýðir að skólinn er einn af fjórum skólum sem komnir eru í undanúrslit og keppir um að komast alla leið í úrslit. Eftir viku mætir lið MA liði Fjölbrautarskólans við Ármúla en Menntaskólinn við Hamrahlíð og Menntaskólinn í Reykjavík eru einnig komnir í undanúrslit.
Lið Menntaskólans á Akureyri samanstendur af þeim Árna Stefáni Friðrikssyni, Kjartani Vali Birgissyni og Sólveigu Erlu Baldvinsdóttur. Á heimasíðu Menntaskólans á Akureyri má sjá nánari samantekt á viðureign kvöldsins.