Fara í efni
Pistlar

Fjallavíðir

TRÉ VIKUNNAR XVII

Til skamms tíma uxu aðeins þær fjórar víðitegundir villtar á landinu sem talið að hafi verið hér allt frá landnámi. Hingað til höfum við fjallað um smjörlauf, Salix herbacea, gulvíði, S. phylisifolia og loðvíði, S. lanata. Nú er komið að þeirri fjórðu: Fjallavíði, S. arctica. Að auki er hér að finna einn pistil um íslenskan víði, svona almennt.

Þessar fjórar tegundir hafa vafalítið lifað hér af kuldaskeið ísaldarinnar sem eyddu nánast öllum gróðri. Þær hafa hjarað á þeim fáu íslausu stöðum sem fundust á jökulskerjum eða bröttum hlíðum strandfjalla. Aðrir telja að víðitegundirnar hafi borist hingað eftir að ísöld lauk. Hvort heldur sem er þá er ljóst að þegar ísa leysti voru þær fljótar að leggja undir sig þá nýju vist sem þá bauðst.

Fjallavíðir í rannsóknarreit í Káraskeri í Vatnajökli. Skerið kom upp úr jökli um árið 1940 og hefur stækkað síðan. Þá var skerið auðvitað líflaust. Svona sker gefa okkur gott tækifæri til að rannsaka landnám gróðurs. Mynd: Starri Heiðmarsson.

Lýsing

Fjallavíðir er lágvaxinn og harðgerður runni. Oft er hann alveg jarðlægur en rís stundum upp í um 20 cm og verður sjaldan hærri en um 50 cm. Greinarnar geta þó verið töluvert lengri en það en liggja þá flatar, eða því sem næst.

Stundum getur verið erfitt að greina í sundur fjallavíði og jarðlægar týpur af loðvíði. Þá er ágætt að hafa eftirfarandi í huga:

1) Aldin kvenplantnanna hjá fjallavíði eru gráloðin (sennilega vísaði grávíðiheitið, sem rætt verður um á eftir, í það) og þekkist auðveldlega frá loðvíði á þeim. Hann hefur snoðin aldin en er á allan annan hátt loðnari en fjallavíðirinn.

Kvenblóm. Einnig má sjá að axlarblöð skortir. Mynd: Sig.A.

2) Karlblómin á fjallavíði eru fyrst með rauðleita fræfla sem síðar verða gulir. Kvenblómin eru einnig rauðleit á vorin. Einna auðveldast er að þekkja fjallavíði á vorin þegar blómin skarta sínum rauða lit. Hann skortir alveg hjá loðvíði.

Bæði karl- og kvenblóm eru rauðleit á vorin. Stundum verða fræflarnir gulir þegar á líður, eins og sjá má á fyrstu mynd. Myndir: Þráinn Gíslason.

3) Blaðlögun og hæring fjallavíðis getur verið dálítið mismunandi. Til að þekkja hann frá loðvíði má þá skoða hvort hann er með axlarblöð. Loðvíðirinn er með áberandi axlarblöð en oftast skortir þau algerlega hjá fjallavíði, eða eru mjög lítil.

Þeir sem vilja lesa nánari lýsingu á fjallavíði er bent á lýsingu Harðar Kristinssonar á floraislands.is. Sjá hér.

Fjallavíðir getur myndað nokkuð þéttar breiður . . .

... eða gisnar breiður. Einkum ef sauðfé kemst í hann. Athyglisvert er að sjá hversu góð áhrif víðirinn hefur á svarðnauta sína á efri myndinni. Minna ber á því þegar landið er beitt, eins og sjá má á neðri myndinni. Myndir: Sig.A.

Erfðir

Erfðabreytileiki víðitegunda getur verið býsna misjafn eftir tegundum. Langalgengast innan víðiættkvíslarinnar er að grunnlitningatalan sé x = 19. Tvílitna tegundir (eins og við þekkjum best, enda erum við tvílitna) hafa því litningafjölda upp á 2n = 38. Fjallavíðirinn er ekki tvílitna, heldur fjöllitna. Jóhann Pálsson (1997) segir frá því að sennilegast sé að misjafnir stofnar fjallavíðis hafi mismunandi fjölda litninga. Hann segir að sést hafi tölur frá 2n = 76 (fjórlitna) til 2n = 190. Svona margir litningar merkir að plönturnar eru með tífalda litningatölu (tílitna).

Ekki þekkir sá sem þetta ritar nýlegar rannsóknir á þessu, en þessi mismunandi litningafjöldi á án efa sinn þátt í því hversu fjölbreyttur þessi víðir getur verið. Ef þessir hópar geta ekki æxlast saman þannig að til verði frjóir einstaklingar má velta því fyrir sér hvort flokka beri fjallavíðinn í fleiri tegundir.

Kvenplanta af fjallavíði. Blómin ekki að fullu þroskuð. Mynd: Sig.A.

Karlplanta í lok blómgunartímans. Eftir þetta losar plantan sig við karlblómin, enda ekkert við þau að gera þegar þau hafa lokið hlutverki sínu. Mynd: Sig.A.

Íslenskur nafnaruglingur

Þetta er sú víðitegund sem grasafræðingum og flokkunarfræðingum hefur gengið hvað verst með að setja á rétta hillu. Í eldri flórubókum er þessi tegund alltaf nefnd grávíðir. Það er ekkert sérstaklega heppilegt því það heiti var af almenningi alveg jafn algengt sem heiti á loðvíði, enda er hann grárri en grávíðirinn. Þetta varð til þess að þessum ólíku tegundum var oft ruglað saman. Enn má sjá grávíðiheitið notað í sumum ritum þegar fjallað er um þennan víði og er það auðvitað kjörin leið til að viðhalda þessum ruglingi.

Fjallavíðir þarf ekki mikið til að lifa af. Mynd: Sig.A.

Það var grasafræðingurinn Jóhann Pálsson (1931-2023) sem fyrstur manna tók upp á því að nefna þennan víði fjallavíði. Er það vel til fundið, enda vex hann gjarnan til fjalla. Það gerði Jóhann í kjölfar þess að hann sýndi fram á að víðirinn er af tegund sem á latínu kallast Salix arctica eins og fram kemur í fróðlegri grein hans í Skógræktarritinu árið 1997. Um latínuheitið voru menn lengi vel hreint ekki sammála. En þegar þetta var komið á hreint var tækifæri til að draga úr líkum á ruglingnum sem áratugum saman geisaði um nöfnin grávíðir og loðvíðir. Ef lesendur vilja rannsaka þetta sjálfir má slá inn leitarorðið „grávíðir“ í leitarvélar og skoða myndir sem þá birtast. Alger hending er þá hvort þið finnið myndir af loðvíði eða fjallavíði.

Gamall fjallavíðir í haustlitum á Hólasandi. Sjá má að fokið hefur frá rótinni. Frá rótarhálsi vaxa greinarnar niður og fylgja svo jörðu. Mynd: Sig.A.

Latínuruglingur

Á íslensku höfum við fyrst og fremst staðið í rugli þegar deilt er um hvort kalla skuli víðinn fjalla- eða grávíði. Það er þó ekki eina tungumálið sem grasafræðingar hafa getað notað til að rífast og rökræða þegar nafn tegundarinnar ber á góma. Það getur auðvitað enginn talist alvöru grasafræðingur ef hann (hér vísar fornafnið í karlkynsorðið „grasafræðingur“, en hefur ekkert að gera með líffræðilegt kyn) hefur ekki staðið í það minnsta í einni almennilegri ritdeilu um latínuheiti á einhverri tegund. Þar getur fjallavíðir komið að góðum notum. Í eldri bókum var algengast að nota latínuheitin S. glauca, S. cordifolia, S. calliarpaea eða jafnvel S. cordifolia subsp. callicarpaea. Þeir sem vilja sökkva sér dýpra í þessa nafnasúpu er bent á áðurnefnda, stórfróðlega grein efir Jóhann Pálsson um víðirækt á Íslandi frá árinu 1997. Meira má lesa um latínuheitin hér.

Nú á dögum segja fræðimenn að S. callicarpaea og S. cordifolia séu ekki lengur tæk nöfn heldur sé um afbrigði af S. glauca að ræða. Réttast, miðað við núverandi þekkingu, mun vera að skrá það sem S. glauca var. cordifolia. Sjá nánar hér. Á þessu sést að í raun er ekki langt á milli þessara latínuheita.

Jóhann Pálsson (1997) sýndi fram á að þessi latínuheiti eiga ekki við um íslensk eintök og greindi tegundina sem S. arctica eins og áður segir. Samkvæmt hans rannsóknum vex S. glauca ekki villtur á Íslandi. Þar með hefur endanlega verið komið í veg fyrir margar skemmtilegar ritdeilur og efnileg rifrildi, nema nýjar upplýsingar finnist eða komi í ljós. Þeir sem hafa næmt auga fyrir illdeilum geta aldeilis nýtt sér það.

Eru þá nefnd helstu latínuheiti sem notuð hafa verið um þessa tegund á nýliðnum öldum. Í riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal, sem hann skrifaði árið 1783, kom fram allt annað latínuheiti. Hann kallaði þennan víði grávíði á íslensku eins og algengt var en notaði latínuheitið S. cinerea. Má því bæta því nafni við yfir þau latínuheiti sem notuð hafa verið um fjallavíði sem vex á Íslandi. Þetta latínuheiti er enn í notkun en á allt annarri víðitegund. Kallast hún gráselja á íslensku. Meira verður fjallað um athuganir Björns í Sauðlauksdal á fjallavíði hér aðeins neðar.

Fjallavíðir neðan við rofabarð í Bárðardal. Takið eftir langri rót sem fokið hefur frá á undanförnum árum eða áratugum. Mynd: Sig.A.

Smellið hér til að lesa allan pistilinn.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti hluta hvers pistils sama dag og hann kemur á vef félagsins í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hús dagsins: Laxdalshús, Hafnarstræti 11. (230 ára í ár)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 07:00

Keiluspil

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. janúar 2025 | kl. 11:30

Bixímatur

Jóhann Árelíuz skrifar
12. janúar 2025 | kl. 10:00

Geðheilbrigðisþjónusta – Skipulag, samvinna og stjórnun

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. janúar 2025 | kl. 09:00

„Aumingja þessi, öllum er sama um hann!“

Orri Páll Ormarsson skrifar
10. janúar 2025 | kl. 12:00

Desember 1915

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
09. janúar 2025 | kl. 21:00