Fara í efni
Menning

Ferskur og hressandi gustur með ungum Dana

Verslunarmaðurinn Bernhard August Steincke sem hafði gríðarleg áhrif á menningarlíf Akureyrar um og upp úr 19. öld. Mynd: Minjasafnið á Akureyri.

TÓNDÆMI – 3

Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net rifjar upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins alla miðvikudaga.
_ _ _

Árið 1851 kom verslunarmaður, Bernhard August Steincke (1825-1891), til Akureyrar frá Danmörku. Hann dvaldi þá á Akureyri um þriggja ára skeið sem verslunarfulltrúi við Gudmannsverslun. „Með þessum unga manni barst ferskur og hressandi gustur inn í fábreytt bæjarlífið. Unglingarnir á Akureyri þekktu þá ekkert til skemmtunar, en þeim mun betur til strits, fátæktar og umkomuleysis, en Steincke vildi reyna að búa þeim bjartari og betri tilveru,“ sagði í blaðinu Norðra á þessum tíma.

Steincke hóf að veita ungu fólk tilsögn í dansi, ýmsri skemmtan og kurteisi. Einkum var það veturinn 1852-1853, því þá mátti heita að hann hefði „opið hús“ á hverju sunnudagskvöldi kl. 8-10 frá jólaföstu og fram yfir páska. Lagði Steincke þá til ljós og fleira það er þurfti, „fyrir hvað allt hann þáði ekki einn skilding ...“, sagði í Norðra.

Auk þessa kenndi Steincke ýmsum söng og gítarleik.

Árið 1862 fékk Akureyri kaupstaðarréttindi og sama ár var reist þar kirkja, en þegar kirkjuvígslan fór fram tókst svo illa til með sönginn, að hneyksli varð af.

Akureyrarkirkja í Fjörunni í upprunalegri mynd – þar sem Minjasafnskirkjan stendur nú. Byrjað var að byggja kirkjuna árið 1862 og hún var vígð 28. júní 1863. Turninn var austan á kirkjunni fyrstu 17 árin en var þá tekinn niður og annar byggður vestan megin.

Akureyrarkirkja í Fjörunni eftir að nýr turn var byggður vestan megin. Mynd frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Söngur og leiklist

Lárus Zophoníasson, amtsbókavörður og um tíma formaður stjórnar Lúðrasveitar Akureyrar, segir frá Steincke í bókinni Skært lúðrar hljóma – saga íslenskra lúðrasveita. Hann rifjar upp að þegar kirkjan var vígð var Bernhard Steincke aftur búsettur á Akureyri og var faktor við Gudmannsverslun. Hafði hann og tekið upp fyrri iðju sína og farið að veita tilsögn í söng og dansmennt og einnig komið á fót leiksýningum, þeim fyrstu í bænum. En kirkjusöngshneykslið varð til þess að Steincke ákvað að efla söngkennslu sína og stofna almennan söngskóla, „hvar öllum unglingum og eldri mönnum sem hæfileika hafa til söngs og vilja læra hann, er veittur aðgangur þar til,“ skrifar Lárus.

Steincke hafði góða söngrödd og var nokkuð menntaður í tónlist, hafði hann numið í Danmörku hjá Henrik Rung, að því er fram kemur í grein Lárusar.

Norðanfari segir svo um tilhögun kennslunnar: „Söngkennslan á að vera innifalin í því að spila og syngja lög eftir nótum, svo að þeir er læra, geti lýtalaust sungið og spilað sálma og önnur lög í kirkjum og heimahúsum.“

Mikill söknuður

Steincke kenndi eitt kvöld í viku að vetrinum og hélt þeim hætti árum saman, án endurgjalds. „Bæjarbúar kunnu vel að meta þessa ósérplægni hans, og þótt kennslan færi fram til skiptis í stærstu húsakynnum, bæjarins, skólahúsinu og kirkjunni, þá var þar alltaf fullt hús. Trúlega hefur enginn danskur faktor verið kvaddur með meiri söknuði af öllum almenningi en Bernhard August Steincke, er hann hvarf af landi brott árið 1875,“ segir í grein Lárusar.

Þess má geta til gamans að Haraldur heitinn Sigurðsson, Lalli Sig, sem ritaði sögu Leikfélags Akureyrar, hafði Steincke í hávegum. Haraldur taldi Steincke í raun föður leiklistar á Akureyri og sagði í samtali við höfund þessarar greinar að réttast væri að reisa styttu af Dananum í bæjarfélaginu, til að halda minningu hans á lofti.