Fara í efni
Menning

Hituðu átta sinnum upp fyrir stjörnurnar í Kinks

Bravó strákarnir áður en þeir hituðu upp fyrir Kinks. Frá vinstri: Þorleifur Jóhannsson, Helgi Vilberg, Kristján Guðmundsson og Sævar Benediktsson.

TÓNDÆMI – 8

Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _

Fjórir barnungir Akureyringar í hljómsveitinni Bravó vöktu mikla athygli þegar þeir léku á átta tónleikum í Austurbæjarbíói í september árið 1965. Hljómsveitin hitaði þá upp fyrir bresku stjörnurnar í Kinks, ásamt Reykjavíkursveitinni Tempó; haldnir voru tvennir tónleikar fjögur kvöld í röð. Kinks var á þeim tíma ein vinsælasta rokksveit heims; líklega voru einungis Bítlarnir og Rolling Stones frægari. 

Bravó var stofnuð rúmu ári áður: Helgi Vilberg Hermannsson gítarleikari var þá 13 ára en félagar hans þrír ári yngri; Kristján Guðmundsson, sem lék einnig á gítar og söng, bassaleikarinn Sævar Benediktsson og trommarinn Erlingur Ingvarsson. Sá síðastnefndi hætti raunar fljótlega og þegar Bravó lék í Austurbæjarbíói var Þorleifur Jóhannsson sestur aftan við trommusettið, sem hann hafði þá keypt af Erlingi. Síðar hætti Helgi í hljómsveitinni og Gunnar Ringsted kom í hans stað.

Heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu fyrir Kinks tónleikana. Þar var akureyrska strákahljómsveitin kölluð Bravó bítlarnir en það nafn notuðu þeir aldrei sjálfur – bara Bravó.

Hljómsveitin lék fyrst á skemmtun í Menntaskólanum á Akureyri fyrsta vetrardag 1964 og kom víða fram eftir það. Árið eftir voru strákarnir fengnir til að spila á skemmtun í skíðahótelinu í Hlíðarfjalli um páskana, þar sem Andrés Indriðason, útvarpsmaður, heyrði þá leika og syngja. Í kjölfarið birti hann stutt viðtal við þá með mynd í Lesbók Morgunblaðsins.

Ánægður að Stones kom ekki

Sævar Benediktsson heldur því fram að strax eftir skemmtunina í skíðahótelinu hafi Andrés fært það í tal við strákana að þeir hituðu upp fyrir heimsfræga hljómsveit á tónleikum í Reykjavík. „Hann upplýsti okkur um að til stæði að Rolling Stones kæmi til Íslands og vildi að við spiluðum þar. Ég var reyndar mjög ánægður þegar Rolling Stones kom ekki því ég var miklu hrifnari af Kinks. Bítlarnir voru númer eitt hjá mér en Kinks númer tvö,“ sagði Sævar fyrir nokkrum árum í samtali við höfund þessarar greinar.

Bravódrengirnir í einni sæng á Hótel Sögu þar sem þeir bjuggu, og lifðu eins og kóngar, þegar þeir dvöldu í borginni vegna Kinks tónleikanna. Myndin birtist með viðtali við Kristján Guðmundsson í Degi haustið 1985.

Efni fyrir útvarpsþátt sem Andrés stýrði var tekið upp í Sjallanum, m.a. þrjú lög með Bravó auk þess sem Andrés spjallaði við strákana. Þeir komu jafnan fram á skemmtunum í þverröndóttum peysum. „Ég man að ég mætti í peysunni í Sjallann. Mér fannst mikilvægt að vera í Bravó peysunni í útvarpsviðtalinu!“ rifjaði Þorleifur heitinn trommari upp og hafði gaman af þegar ofanritaður spjallaði við hann árið 2020.

Ógleymanlegt ævintýri

Bravó lék aldrei á heilum dansleik heldur komu strákarnir fram á ýmis konar skemmtunum auk þess að leika nokkur lög þegar danshljómsveitir fóru í pásu, til dæmis oft í Sjallanum, oftast frá klukkan 23.30 til miðnættis. „Við kunnum nokkur lög, til dæmis með Bítlunum, Kinks og Shadows. Við komum fram út um allt, ég man til dæmis að við spiluðum tvisvar sinnum í Alþýðuhúsinu, Allanum, í pásum hjá Hljómum. Í bæði skiptin spilaði ég á trommusett Péturs Östlund, sem mér þótti auðvitað stórmerkilegt,“ sagði Þorleifur.

Þeir Sævar sögðu spilamennskuna á tónleikum Kinks ógleymanlegt ævintýri. Nefndu þó báðir að hefðu þeir verið nokkrum árum eldri hefði hópurinn gert sér betur grein fyrir því hve merkilegt verkefnið var og upplifunin þá orðið enn magnaðri. „Við umgengust Kinks mikið, hittum hljómsveitina á hverjum degi, hlustuðum einu sinni á hana æfa nýtt lag og fórum með henni og fleirum í dagsferð á Þingvelli,“ sagði Sævar.

Strákarnir komu víða fram. Hér er auglýsing sem birt var í Degi fljótlega eftir Kinks ævintýrið haustið 1965.

Með í þeirri för var strákahljómsveitin Tempó úr Reykjavík, sem hitaði líka upp fyrir Kinks á öllum tónleikunum. Á leið til Þingvalla var komið við á Reykjum í Mosfellssveit og farið í reiðtúr. Þar biðu átta gæðingar fyrir hina erlendu gesta og leiðsögumenn ... „en smábítlarnir skipta liði í knattspyrnu að húsabaki. Það er Tempó á móti Bravó,“ sagði Andrés Indriðason í grein, þar sem lýsti ferðinni, og birtist í Vikunni nokkrum vikum eftir ævintýrið.

Beðnir að draga úr drykkjunni

Ungu drengirnir að norðan bjuggu á Hótel Sögu meðan á dvölinni syðra stóð og segjast hafa lifað eins og kóngar. Nefna að þeir hafi mátt panta sér það sem þeir vildu upp á herbergi en þegar í ljós kom hve mikið Coca cola hafði verið borið þangað runnu tvær grímur á tónleikahaldarann, Baldvin Jónsson. „Við vorum beðnir að draga örlítið úr kókdrykkjunni!“ rifjaði Sævar upp.

Hljómsveitin Bravó varð ekki langlíf; hætti árið 1966 en áður en leið á löngu starfaði hluti hópsins saman í hljómsveitunum Spacemen og Óvissu og aftur í Ljósbrá nokkrum árum seinna. Bravó kom svo saman á ný 1982 og lék á tónleikum vegna fimmtíu ára afmælis Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) en framlag hennar var reyndar ekki að finna á tvöfaldri hljómplötu með upptökum af tónleikunum og var tónlist Bravó því aldrei gefin út.

Töffarar! Frá vinstri: Helgi Vilberg Hermannsson, Kristján Guðmundsson, Þorleifur Jóhannsson og Sævar Benediktsson.

Eftir áratuga hlé tók Bravó svo upp þráðinn árið 2010 og spilaði í afmæli Símons Jóns Jóhannssonar, bróður Þorleifs trommuleikara; strákarnir hittust í hálftíma, renndu í gegnum nokkur lög og tróðu upp við mikinn fögnuð afmælisgesta. Síðan hefur Bravó komið fram stöku sinnum og meðal annars leikið í nokkur skipti á Græna hattinum.

Barnarverndarnefndin til skjalanna

Bravó var eitt sinn boðið til Ísafjarðar til að leika á dansleik þar sem hljómsveitin Blossar og Barði léku fyrir dansi, en akureyrsku strákarnir áttu að leika meðan ísfirska hljómsveitin kastaði mæðinni frá klukkan hálf tólf til miðnættis.

„Okkur var flogið vestur með einkaflugvél, vorum eins og alvöru popparar, 12 eða 13 ára gamlir,“ sagði Sævar Benediktsson. Ferðin gekk reyndar ekki alveg eins vel og gert var ráð fyrir. „Þetta kvöld voru nefnilega tveir dansleikir á Ísafirði og hin hljómsveitin, BG og Árni, kærði okkur fyrir barnaverndarnefnd! Nefndin gekk í málið og við vorum látnir spila frá klukkan níu til hálf tíu, undir vökulu auga nefndarmanna, og eftir að við vorum búnir að spila gekk barnaverndarnefndin með okkur upp á hótel þar sem við gistum! Þetta var í eina skiptið sem við lentum í þessu,“ sagði Sævar.