Vikuleg „tóndæmi“ úr merkilegri sögu
TÓNDÆMI – 1
Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í stuttum, vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga, sá fyrsti í dag._ _ _
Fyrstu opinberu tónleikarnir sem vitað er um með vissu á Akureyri voru í júlí árið 1868. Danska skonnortan Fylle sigldi þá inn Eyjafjörð og sjóliðar sem stigu á land léku í garðinum sunnan við læknishúsið, eins og það er orðað í blaðinu Norðanfara þremur mánuðum síðar. Læknishúsið, sem þarna er nefnt, er Gudmanns Minde, Aðalstræti 14. Spiluðu sjóliðarnir þar á einhvers konar blásturshljóðfæri miðað við lýsingu blaðsins og hlýddi margt manna á.
Gudmanns Minde er húsið með ljósa gaflinum, fyrir miðri mynd.
Í Akureyrarblaðinu Norðanfara segir, 10. október 1868: „Skipakomur. 22. júlí. næstl. komu hjer um miðjan dag 2 gufuskip, var annað þeirra orlogsskonnertan Fylla, fyrir henni rjeði Commandant Albech, skipverjar voru 56; hitt skipið var frakknesk Corvetta Loiret að nafni með 77 skipverjum, foringi hennar hjet Saglio. Bæði þessi skip komu frá Reykjavík vestan fyrir land.“
Blaðið segir frá því að 26. júlí hafi Commandantinn boðið nokkru af fólki frá Friðriksgáfu – sem var hús amtmannsins á Möðruvöllum – „ og talsvert mörgum hjer úr bænum, einnig yfirmönnum hinna skipanna, sem hjer voru þá á höfninni, til veitinga og skemmtunar fram á skipi sínu; hann var eins og allir skipverjar hans, hinir mannúðlegustu og kurteysustu, því öllum sannarlega menntuðum og siðprúðum mönnum, þykir læging fyrir sig, að láta sjá á sér í viðmóti og umgengni þótta og stærilæti og sízt við þá sem þeim eru minni háttar.“
Fram kemur að sex skipverjar spiluðu á hljóðfæri, „er að nokkru leyti voru í lögun sem lúðrar, og blásið í þá og leikið á þeim með fingrunum sem á flautu eða viólíni.“ Þeir spiluðu um borð í skonnortunni, „og svo hjer tvisvar sinnum í garðinum sunnan við læknishúsið; sóttu þar að margir af bæjarmönnum. Fylla fór aptur héðan 28. s.m. sömu leið til baka og hún hafði farið að sunnan, en ætlaði að koma við á Ísafirði, Ólafsvík eða Grundarfirði.“