Fara í efni
Menning

Messías Händels fyrsta sinni í heild hérlendis

Roar Kvam stjórnar Passíukórnum á æfingu í Íþróttaskemmunni fyrir flutning einnar af stóru passíunum sem vöktu mikla athygli.

TÓNDÆMI – 7

Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _

Roar Kvam, sem flutti til Íslands frá Noregi 1971, hefur komið víða við í akureyrsku tónlistarlífi. Ári eftir að Roar settist að í Eyjafirði stofnaði hann til að mynda Passíukórinn, sem var starfandi í aldarfjórðung.

Tilgangurinn með stofnun kórsins, að sögn stjórnandans, var að flytja stærri kórverk með einsöngvurum og hljómsveit, sum þekktustu tónverk sögunnar og einnig að kynna ný og óþekkt verk sem sjaldan eða aldrei höfðu verið flutt á Íslandi.

„Mig langaði að nýta menntun mína frá Tónlistarháskólanum í Osló, þar sem ég nam kórstjórn og hljómsveitarstjórn og tók lokapróf 1971,“ segir Roar.

Lítið um tónleika

Þeir fluttu til Akureyrar á sama tíma, Roar og Michael Clarke og hafa báðir sett mikinn svip á tónlistarlíf bæjarins allar götur íðan. Clarke kenndi á fiðlu en hefur látið mikið að sér kveða í söng í mörg ár. Roar var ráðinn kennari við blásaradeild Tónlistarskólans og stjórnandi
Lúðrasveitar Akureyrar og Gígja kona hans, fyrsta íslenska konan sem lærði á pípuorgel, kenndi á orgel auk þess sem hún var organisti í
Svalbarðsstrandarkirkju og leysti af í Akureyrarkirkju.

Strax fyrsta veturinn eftir komuna til Akureyrar stofnuðu Michael Clarke og Roar kirkjutónlistarhljómsveit. „Við fluttum alls konar kirkjumúsík.
Lítið var um tónleika þegar við komum, Tónlistarfélagið gekkst fyrir einstaka tónleikum sem voru, auk vortónleika tónlistarskólans, allt og sumt fyrir utan tónleika karlakóranna,“ segir Roar.

Heilmikið mál

Passíukórinn var formlega stofnaður 1972 og hélt að jafnaði tvenna tónleika á ári í aldarfjórðung. „Við héldum tónleikana alltaf í Akureyrarkirkju þangað til við fórum að flytja stóru passíurnar og þurftum meira rými. Þá fluttum við okkur í íþróttaskemmuna. 1977
fluttum við þar Messías eftir Händel í fyrsta skipti í heild á Íslandi og 900 manns troðfylltu Skemmuna!“ segir Roar.

Passíukórinn æfir fyrir tónleika í Akureyrarkirkju um 1980.

Flutningar Messíasar var stórt skref í sögu kórsins. „Þetta var mjög skemmtilegt og heilmikið mál fyrir fólkið, þótt ég hafi verið vanur þessu  enda hafði ég fengist við svona verk í náminu. Kórinn hafði flutt minni verk en þetta var stórt skref, já. Messías hefur verið fluttur hér á landi en verkið alltaf mikið stytt. Hjá okkur voru þetta þriggja klukkutíma tónleikar með tveimur hléum og það tók heilan vetur að læra verkið.“

Tvisvar á Listahátíð

Passíukórnum var í tvígang boðið að syngja á Listahátíð í Reykjavík; frumflutti í fyrra skiptið Örlagagátuna eftir Björgvin Guðmundsson (1891-1961) og síðan African Sanctus, framúrstefnuverk eftir breska tónskáldið David Fansave. Flutningur þess í Gamla bíói vakti mikla athygli og stemning í salnum var afar góð: „allt brjálað, bara eins og á Ítalíu,“ segir Roar í Morgunblaðinu. „Við fengum þakkir frá tónskáldinu fyrir að flytja þetta verk. Við höfum töluvert gert af því að flytja undarleg tónverk og það er mjög spennandi. Við fluttum t.d. eitt sinn messudjass, kórverk með djasssextett og Andrea Gylfadóttir var einsöngvari.“

Um 30 manns voru í kórnum þegar hann hætti störfum og svo var lengst af, en á tímabili um 1980 jókst áhuginn verulega og voru kórfélagar þá um 60. „Þetta hefur verið stórkostlegt tímabil og vissulega horfir maður til þess með eftirsjá,“ sagði Roar í viðtali um það leyti sem kórinn hætti. Hann sagði eina helstu ástæðu þess að Passíukórinn væri lagður niður, eftir farsælt starf í aldarfjórðung, era þá að mikil vinna væri í kringum tónleika og vart hægt að leggja það á kórfélaga lengur í sjálfboðavinnu í sínum frístundum.

Kostnaður og fyrirhöfn

„Kostnaðurinn við tónleikahaldið hefur aukist gífurlega á síðustu árum, það er mikil fyrirhöfn að útvega peninga, mikið lagt á kórfélaga að ganga betlandi um milli fyrirtækja, það fer illa með fólk til lengri tíma,“ sagði Roar. Hann nefndi einnig að aðsókn að tónleikum hefði almennt farið minnkandi og það hafi sitt að segja. Fjárhagslegur grundvöllur til að halda úti starfsemi af þessu tagi væri ekki fyrir hendi. Lokatónleikar Passíukórsins voru í íþróttaskemmunni á Akureyri um páskana 1997, þegar kórinn flutti Sköpunina eftir Haydn. Einsöngvarar voru Þóra Einarsdóttir, sópran, Jón Björnsson, tenór og Keith  Reed, bassi.