Fara í efni
Umræðan

Farir og ófarir

Oft verður fólki tíðrætt um ófarir, stundum sjálfs síns þó oftar annarra.

Farir eru sjaldnar til umræðu sem ósamsett orð, en fá í samsetningu oft afar mikilvæga merkingu.

Ófarir annarra eru bæði skemmtilegt fjasefni og fréttaefni, sjaldnar verða eigin ófarir viðkomandi aðilum að skemmtiefni, stundum þó fjölmiðlaefni, sér í lagi ef fólk er í glímu við kerfið eðu stjórnendur um bætur á aðstöðu eða tjóni.

Ýmisleg viðkvæm ófaramál eru fárædd og því oft ekki ráðin bót á þeim. Sum umkvörtunarefni eru oft flokkuð með væli og skorti á hörku. Ég er næstum viss um að margir hreyfihamlaðir taka á honum stóra sínum til að halda reisn og sjálfstæði, sem þýðir oft að harka af sér.

Mörgum þykir líka dríldni að vera að pota sjálfum sér að garðanum, svo maður tali nú ekki um bölvað veiklyndið.

Ég ætla að brjóta allar þessar óskrifuðu reglur og segja ófarasögur af sjálfum mér, hreyfihömluðum stólahjólandi eldri borgara.

Ég var að undirbúa mig undir Tenerifeferð fyrir skömmu og fór í heilsubótarferð að morgunlagi upp Þingvallastrætið mitt, og þegar að Mýrarvegi kom, þá þveraði ég götuna á gangbraut á grænu ljósi. Þegar að „umferðareyju“ á brautinni kom olli brot á skáa því að fákurinn snarbremsaði og krafturinn í bakfalli mínu nægði til að bakið á stólnum brotnaði.

Til allrar blessunar var lítil umferð og góðir menn í nálægð voru fljótir að hlaupa á hljóðið, þegar þeir heyrðu höggið bylja í hnakkanum, er ég endasentist á malbikið.

Aðeins lítil kúla varð til ummerkis eftir þessa háskaför en hjólastóllinn með öllu óökuhæfur, og var það góðu umboði þessarar gerðar hjólastóls að þakka, að ég fékk á fjórða degi nýjan stól sendan, þ.e. degi fyrir umrædda ferð.

Teinarifið tók á móti okkur hjónum með sólarblíðu og hjólastólnum með rennisléttum brautum.

Eftir viku í hita var svo flogið til baka.

Eitt henti okkur sem má verða rafhjólastólaförum víti til varnaðar.

Nefnilega öryggisreglur krefjast þess að lithium hleðslurafhlöður séu teknar úr stólunum, og höfð með í handfarangri, en ekki með almennum farangri. Svo nýr var stóllinn og ég ekki betur kunnandi á hann að vita ekki að með litlu handtaki er hægt að losa rafhlöður á augabragði. Þarna vorum við mát og 5 eða 6 spænskir embættismenn lögðu kollhúfur sínar yfir þessu, að því er virtist óleysanleg gáta, meðan aðrir farþegar streymdu inn í flugvélina. Skyndilega heyrðist þó kærkomin smellur, og lithiumgátan var leyst, og við héldum hróðug inn í vélina með vandamálið í handfarangri. Vel leið okkur í níundu sætaröð, þar til á þessu langa flugi blaðran mín fór að kvarta. Á úthugsuðu augnabliki, engin á ferð milli sæta, lögðum við í hann. Ferðin reyndist mér þungfærum nokkur mæðuför. Erfiðari var þrautagangan þar sem vélin var að hækka flugið vegna ókyrrðar, sannkölluð fjallganga. Þegar svo áfangastað klósettsetunnar var náð fór vélin að hristast og rödd flugfreyju í hátalara bað farþega að setja á sig öryggibeltin og sitja af sér óróann.

Svör flugfreyju nærstaddrar sagði okkur hjónum að halda kyrru fyrir, ég óbundin á klósettsetunni, og konan mín, aðstoðarmaður, í aðskorðaðri stellingarstöðu inni í þrengslunum. Liðnar voru tíu til fimmtán mínútur þegar vinda lægði og við lögðum af stað í níundu röð.

Þessi för reyndi á þolrifin og ég var að springa úr mæði, þegar þeirri níundu var náð. Dóttir mín elskuleg bauð mér vatnssopa, en ég þurfti að kasta mæðinni í allnokkurn tíma til að svara með „jái“.

Að öðru leyti gekk þessi dýrðarför klakklaust. Reyndar verð ég að ljóstra því upp að astmi hrjáir mig. Svo vel stóð í bólið hjá mér að ég átti bókaðan tíma hjá háls/nef og eyrnarsérfræðingi mínum morguninn eftir. Ég greindi honum frá þessum öndunarerfiðleikum í flugferðinni góðu, og hann gaf mér fullnægjandi skýringu á orsökinni. Þannig er að fullstór maginn á mér þrýstir á lungun í frekar þröngu sæti þannig að þau verða að hálfu óvirk og þegar loftþrýstingur í vélinni, á borð við loftið upp á Hvannadalshnjúki bætist við, þá eiga lungun bágt!

Ergo: Nú reyni ég að minnka magann og verð víst „öllu“ floti að neita, þrátt fyrir nálægð jólanna.

Jón Hlöðver Áskelsson er tónskáld

Hugvekja á Ýli

Hildur María Hansdóttir skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 15:30

Framtíðin er núna

Ingvar Þóroddsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 13:00

Valdið til fólksins – lykillinn að sterkara þjóðfélagi

Theodór Ingi Ólafsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 12:00

Félagshyggja hvað er nú það?

Haraldur Ingi Haraldsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:19

Blórabögglar og gylliboð frá vinstri

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 20:00

Lykill að áframhaldandi velgengni

Birgir Orri Ásgrímsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 18:50