Fara í efni
Pistlar

Er búið að rústa samfélaginu?

Aðalsteinn vinur minn Öfgar, margmeðferðaður og lyfjaður en kannski aldrei alveg læknaður, hefur oft bent á að það sem við kölluðum samfélag er eiginlega ekki lengur til, heldur hafi einstaklingshyggjan tekið öll völd. Í nokkrum pistlum hef ég skammað hann fyrir að halda fram að allt hafi verið betra áður fyrr og mér fannst öfgakennt þegar hann vildi banna tikktokk og snappsjatt, heimkaup og hópkaup og núna hagkaup og smartland og mannlíf og dévaff og ég veit ekki hvað og hvað. En hvað ef hann hefur rétt fyrir sér og að samfélagið myndi blómstra á ný ef óráðsíurnar og gróðrastíurnar yrðu bíaðar út úr tilverunni?

„Nú líst mér á þig,“ sagði Aðalsteinn þegar ég viðraði þennan inngang við hann þar sem við sátum á hamborgarabúllu niðri í bæ og snæddum viðeigandi hádegisverð þennan hrollkalda septemberdag. „Það er óþarfi að vera eitthvað pempíulegur og fara í kringum hlutina eins og pólitíkusar og diplómatar, talaðu bara tæpitungulaust. Ef við viljum á annað borð viðhalda mannlegu samfélagi verðum við að losa okkur við lýsnar og úthýsa ósómanum, hvað svo sem líður þessu blessaða frelsi og taumleysi hins ofdekraða einstaklings.“

Alltaf hressandi að hitta Alla. Hamborgarinn var góður en mætti vera meira af bernaise á milli; bið um auka skammt næst. Það var líka notalegt að snæða í félagsskap, vera í samfélagi. Er það form virkilega á undanhaldi?

„Ég skal nefna nokkur dæmi um fjandsamlegar breytingar,“ sagði Aðalsteinn og kjamsaði á hnausþykkum borgaranum sem hann hafði valið sér. Kjötið var eflaust mælt í kílóum frekar en grömmum. „Bankarnir voru samkomustaðir, fólk hittist yfir kaffibolla, spjallaði við gjaldkerana, greiddi reikninga, hitti þjónustufulltrúa og frekar létt yfir þessu öllu. Fólk hittist líka í kaupfélaginu okkar í Hrísalundi, þar voru nokkur borð og kaffisala þar sem kassarnir eru núna. Þarna hittist kannski sérstaklega eldra fólk og spjallaði yfir rjúkandi Bragakaffi. Talandi um kaupfélagið, KEA var nokkurs konar félagsmálastofnun þar sem skrítnar skrúfur fengu vinnu og alltaf var nóg af fólki til að spjalla við og bara ekkert stress í gangi,“ sagði hann og dæsti af söknuði.

„Og fólk hittist hjá rakara og tannlækni, fletti tímaritum og spjallaði saman og bara alls staðar þar sem fólk rakst hvert á annað var talað, brosað, hlegið og glaðst. Fólk hittist líka á förnum vegi og tók tal saman. Þetta var samfélag. Þú hlýtur að sjá muninn. Nú eru bankar og aðrar stofnanir steingeld tölvufyrirtæki og viðskiptavinir eru ekki lengur vinir heldur bara viðskipti. Hvarvetna sest fólk niður eða ráfar um með andlitið ofan í símanum, allar samræður og samskipti eru tabú. Handahófskenndar heimsóknir til ættingja og vina eru fyrir bí, það er ekki lengur æskilegt að koma óboðinn. Húsráðendur eru ábyggilega uppteknir hver í sínu horni með nefið ofan í símanum eða tölvunni. Fólk talar ekki einu sinni saman inni á heimilinu. Og er þetta ekki eitthvað svipað í skólanum?“

Ég vildi nú ekki alveg viðurkenna það þótt tilhneigingin væri vissulega í þá átt sem Alli var að ýja að. Maður sér nemendur vissulega nálgast skólann með nefið ofan í símanum, rétt eins og þeir væru á Google Maps af því að þeir rötuðu ekki í skólann. Margir reyna líka að vera með þetta sama nef gróið við skjá í tímum en þá sárnar mér mjög og blessaðir krakkarnir sjá að sér enda góðhjörtuð skinn. Mig langar að hafa samskipti við nemendur, gagnvirkni, létt andrúmsloft og leyfa forvitninni að blómstra. Ekki eins og hjá ónefndum kennara sem ég frétti af. Honum fannst svo ljómandi gott ef nemendur voru bara í símanum eða sofandi því þá komst hann hraðar yfir efnið!

Að öllu gamni slepptu þá vakti þetta spjall við Alla mig til umhugsunar eins og oft áður. Utan vinnu er ég reyndar dálítið félagsfælinn og finnst gott að vera heima, sinna bankaviðskiptum á netinu og smávægilegum innkaupum en auðvitað rekst maður á fólk á hverjum degi. Ég nikka til einhverra í Bónus og umla eitthvað þegar Bessi tannlæknir eða Gulli rakari láta dæluna ganga. Mesta félagslífið er þó yfirleitt að finna í Sundlaug Akureyrar, það er samkomustaður að mínu skapi og þangað mætti ég fara oftar.

„Hér áður fyrr hittist fólk líka til að syngja og dansa, tralla saman og stíga í vænginn, kynnast í eigin persónu, ekki bara á bak við fegraða fésbókarmynd og tölvurituð orð. Við horfðumst í augu, tjáðum okkur með svipbrigðum og líkamsbeitingu, köstuðum fram hendingum eða vísum, vorum saman og höfðum gaman. Þú skalt ekki reyna að halda því fram að samfélagið hafi ekki verið betra og manneskjulegra áður en tæknin tók völdin og menn breyttust í maskínur,“ sagði Aðalsteinn Öfgar með fingurinn á lofti og franska kartöflu í munnvikinu.

Nei, kannski ég segi bara pass núna. Góðar stundir.

Stefán Þór Sæmundsson er menntaskólakennari og skáld og fyrrverandi blaðamaður

Alsæll utan þjónustusvæðis

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00

Traust

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00

Niðurlægðir af reykingamönnum

Orri Páll Ormarsson skrifar
04. október 2024 | kl. 17:00

Skógar á mannlausu Íslandi

Sigurður Arnarson skrifar
02. október 2024 | kl. 09:30

Bleikur mánuður

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
01. október 2024 | kl. 15:00

Nokkur heilræði varðandi gervigreind

Magnús Smári Smárason skrifar
01. október 2024 | kl. 09:30