Fara í efni
Pistlar

Erum við kjánar?

Mér finnst stórkostlegt hvað fólk getur verið frjótt og hugmyndaríkt þegar kemur að því að skapa sér lífsviðurværi, svo sem með því að selja okkur eitthvað sem við höfum enga þörf fyrir, búa til smáforrit sem allir hafa komist af án hingað til eða bara glenna sig, fetta og bretta á samfélagsmiðlum og auglýsa hreinan asnaskap eða hæfilega nekt og neyslu og þá byrjar peningavélin að mala. Já, annað hvort erum við neytendur kjánar eða þeir sem nota okkur eru bara svona snjallir. Ég hallast að því síðarnefnda því seint vill maður vera kallaður kjáni.

Við þekkjum öll hvernig nokkrir svokallaðir athafnamenn fóru allt í einu að stórgræða með því að flytja inn og selja veip, nikótínpúða, orkudrykki, brúnkukrem, gerviaugnahár, plastneglur, fæðubótarefni, húðflúr og alls konar snyrtivörur, merkjavörur og annað prjál sem svo er hægt að koma í tísku með því að auglýsa æði á ónefndum samfélagsmiðlum. Eitt af því nýjasta eru svo koffínpúðar, takk fyrir. Eins og sé ekki búið að reyna að dæla nægu koffíni í börnin okkar með orkudrykkjunum svokölluðu.

Í alvöru talað, þetta er auðvitað algjör snilld og þar af leiðandi asnaskapur að hafa ekki tekið þátt í ævintýrinu. Þið vitið, finna eitthvað sem kemst í tísku, helst eitthvað með ávanabindandi efnum eins og nikótíni, koffíni eða sykri/sætuefnum og markaðssetja þetta fyrir krakka og óharðnaða unglinga, húkka þá og skaffa sér þannig kúnna til margra ára og jafnvel ævilangt. Smá markaðssetning og svo sér fíknin, tikktokkið og smjattlandið um rest. Skítt með framtíðarheilsu barnanna okkar, þau eru bara kúnnar sem hægt er að græða á.

Því miður læðist að manni sá grunur að hliðarveruleiki við þetta athæfi eða nokkur konar framhald geti falist í markaðssetningu fíkniefna. Þeir sem eru orðnir verulega háðir nikótíni og koffíni hljóta að vera líklegri til þess að þiggja önnur efni sem að þeim eru rétt og þá eru krakkarnir komnir inn í heim eiturlyfja og ofbeldis, sem oft er gerður verulega töff út á við en ömurleikinn og angistin krauma undir niðri og voðinn sannarlega vís. Ekki bara fyrir einstaklinginn sem verður háður efninu heldur sogast heilu fjölskyldurnar inn í svartholið.

Hvernig byrjaði þetta? Ég man eftir öflugu forvarnastarfi í skólunum og sveitarfélögum frá því rétt fyrir aldamótin 2000 og fram yfir „hið svokallaða hrun“. Reykingar unglinga nánast gufuðu upp hér á landi, áfengisneysla í grunnskóla og fyrsta bekk framhaldsskóla snarminnkaði, tölur um neyslutengd vandræði hröpuðu niður úr öllu valdi og Íslendingar sköruðu fram úr í reglusemi meðal ungmenna í Evrópu. Líklega hefur útrásin og óheft neyslan, ofdrambið og síðan hrunárin og vaxandi áþján síma, samfélagsmiðla, agaleysis og neyslu haft mikið að segja. Sömuleiðis minni samskipti, þverrandi samvera ungmenna og fullorðinna, allt þetta áhorf, neysla efna, samanburður, brotin sjálfsmynd, aukinn kvíði, úrræðaleysi og loks nánast algjört stjórnleysi eins og staðan blasir við í dag.

Hið grátbroslega er svo að það voru læknar og lyfjaiðnaðurinn sem prédikuðu hvað mest um ágæti rafsígarettunnar og veipsins á sínum tíma til að hjálpa fólki að hætta að reykja. En það voru nánast allir hættir að reykja! Eitthvað um 10% þjóðarinnar voru enn að fást við reykingar en við hin vorum komin í nikótíntyggjó eða munnsogstöflur eða hætt með öðru móti. Galskapurinn var algjör enda kom fljótt í ljós að þetta var bara viðbót og alls ekki skaðlaus viðbót og þessar „nikótínvörur“ bjuggu til fjölmarga nýja nikótínfíkla í stað þess að hjálpa fólki að venja sig af þessu og nú er svo komið að 33% ungmenna nota nikótín að staðaldri í stað 6% áður og svo vilja menn auka koffínneyslu krakka líka.

Jú, sennilega erum við kjánar.

Stefán Þór Sæmundsson er framhaldsskólakennari

Rauðkál

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 11:30

Fíkn og viðhorf

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 09:45

Hús dagsins: Aðalstræti 66; Indriðahús

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 07:45

Selur í eldhúsvaski

Jóhann Árelíuz skrifar
30. mars 2025 | kl. 09:00

Saknaðarilmur: Sært fólk særir annað fólk

Rakel Hinriksdóttir skrifar
28. mars 2025 | kl. 11:00

Lífsgæði

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
28. mars 2025 | kl. 06:00