Fara í efni
Umræðan

Bæjarstjórn ekki upptekin af vilja bæjarbúa

Þegar ég tek afstöðu til þeirra nýju tillagna um skipulag miðbæjarins, sem kynntar voru í gær, hugsa ég fyrst um hvernig þær falla að niðurstöðum stærsta íbúaþings á Íslandi sem eftir ítarlegar umræður komst að niðurstöðu um hvað fólkið í bænum vildi leggja ríkasta áherslu á við frekari uppbyggingu miðbæjarins. Þessar niðurstöður voru síðan notaðar sem viðmið í alþjóðlegri arkitektasamkeppni og áfram þegar gengið var frá núverandi skipulagi á þessu svæði árið 2014.

Miðað við þær tillögur sem nú hafa verið lagðar fram er ljóst að bæjarstjórn er ekki mjög upptekin af þessum vilja bæjarbúa. Ekki get ég rakið það í þessu fáu línum en bendi á að minni áhersla er nú lögð á greiða leið frá gamla miðbænum og niður að Pollinum. Skipagata gerð að breiðri umferðargötu þvert á óskir um að götur liggi meira austur vestur á þessu svæði. Byggingarnar hækkaðar frá gildandi skipulagi til að bæta upp tapað byggingarsvæði vegna þess að einhverjir vilja ekki færa götuna um nokkra metra. Fallið frá því að gera Glerárgötuna einsreina frá Kaupvangsstræti og norður að Strandgötu en þess í stað allt sett í einn umferðarhnút við helsta gangstíginn yfir götuna. Þetta þýðir auðvitað að gangandi fólk á þessum stað hefur mengandi bíla báðum megin ofan í sér með tilheyrandi hávaða í stað þess að þeir hægi á sér utar og sunnar og komi svo að gangbrautinni einn og einn. Þessi breyting er því augljóslega ekki gerð fyrir gangandi vegfarendur í vistvænum bæ.

Eins og staðan er nú í bæjarstjórn sýnist mér ekkert hægt að gera í þessum efnum nema um það ríki algjör samstaða. Þá verður til moð sem nær fæstum þeim markmiðum sem stefnt var að; aðalatriðið að hafa alla góða í bæjarstjórninni undir hinni dúnmjúku sameiningarsæng þar sem allir mala nú ánægðir. Ekkert hægt að framkvæma nema allir séu sammála og alls ekki í nokkrum einasta ágreiningi. Þess vegna er búið að jarða endanlega þá litlu viðleitni í gildandi skipulagi að gera umhverfið líflegt með því að láta vatn renna frá Skátagili niður í gegnum göturnar til sjávar. Ekkert slíkt lengur - bara steypa og stál og niðurstöðum íbúaþingsins sæla gefið langt nef.

Að þessu sögðu verð ég þó að lýsa ánægju minni að nú er loks komin fram álitleg tillaga um bílastæði í miðbænum sem hefur verið einn þeirra lausu enda sem þurfti að binda niður. Eins og ég hef sagt oft áður: öll bílastæði í miðbæ eiga að vera undir yfirborði jarðar; þar fyrir ofan á fjörugt mannlíf og öflug viðskipti að blómstra í vistvænu umhverfi.

Ragnar Sverrisson er kaupmaður í JMJ. Hann var upphafsmaður að verkinu Akureyri í öndvegi, sem stóð fyrir íbúaþinginu 2004 og alþjóðlegri arkitektasamkeppni í kjölfarið.

Blórabögglar og gylliboð frá vinstri

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 20:00

Lykill að áframhaldandi velgengni

Birgir Orri Ásgrímsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 18:50

Eflum löggæslu

Grímur Grímsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 17:30

Gagnsæi, ábyrgð og sameiginleg markmið

Anna Júlíusdóttir skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 10:45

Betra veður fyrir íþróttakrakkana okkar!

Skúli Bragi Geirdal skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 06:00

Lífæð landsbyggðarinnar

Stefán Þór Eysteinsson skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 14:30