Fara í efni
Minningargreinar

Einar Friðrik Malmquist

Einar Friðrik Malmquist, 30. júli 1938 – 23. janúar 2025

Kallið er komið.

Í dag kveðjum við, fyrrum starfsmenn Iðnaðarsafnsins á Akureyri einn okkar dyggasta stuðningsmann, Einar Friðrik Malmquist sem lést þann 23. janúar s.l eftir langvinn veikindi.

Saga Iðnaðarsafnsins á Akureyri nær allt aftur til ársins 1998 og allan þann tíma og fram til þar síðustu áramóta hefur Einar verið viðloðandi safnið og sannarlega einn allra hollasti vinur þess.

Saga Iðnaðarsafnsins er samofin frumkvöðlastarfi Jóns Arnþórssonar og Einars Malmquist sem stóðu saman sem einn maður á árdögunum þegar byrjað var að huga að varðveislu þeirrar merku sögu er saga iðnaðarins á Akureyri var og úr varð svo Iðnaðarsafnið á Akureyri.

Allar götur síðan hefur Einar verið vakinn og sofinn yfir vegferð iðnaðarsögunnar og ótal ferðir kom hann á safnið til okkar í kaffi, og í spjall, með tillögur, nú eða muni sem honum fannst eiga heima á safninu.

Honum var svo umhugað um iðnaðarsöguna á Akureyri síðustu aldar, honum þótti greinilega mikið til hennar koma, og margar ferðir á safnið hjá Einari voru einmitt til þess eins að segja iðnaðarsögu, rifja upp og mynda með því ómetanlegar heimildir um veröldina sem var.

Sérstaklega var saga sambandsverksmiðjanna á Gleráreyrum Einari hugleikin enda starfaði hann á verksmiðjunum sem rafvirki í yfir 35 ár og ófáar framkvæmdir til endurbóta og eða breytinga sem gerðar voru á húsnæði eða vélakosti verksmiðjanna kom Einar að og ef einhver vissi hvernig hlutirnir virkuðu í annars mjög svo flóknum vélasölum hinna ýmsu deilda verksmiðjanna var það Einar.

Fyrir utan þetta allt var Einar einstaklega vel liðinn starfsmaður og hafði þessa einstöku hlýju nærveru og skipti þá engu hvort sem talað var við hátt setta stjórnendur verksmiðjanna eða bara starfsfólkið á gólfinu, öllum mætti Einar jafnt og var sannarlega vinur allra er með honum unnu.

Þrátt fyrir heilsuleysi nú hin síðari ár fylgdist Einar mjög vel með starfinu á Iðnaðarsafninu og vildi fyrir alla muni verja það, styðja áframhaldandi viðgang og varðveislu þeirrar sögu sem þeir Jón Arnþórsson lögðu af stað með fyrir tæpum 30 árum síðan.

Nú þegar leiðir skilja viljum við fyrrum starfsmenn Iðnaðarsafnsins þakka árin öll, vináttuna, stuðninginn og hjálpsemina sem Einar skilur nú eftir í minningabanka okkar.

Genginn er góður félagi, vinur sem svo sannarlega setti mark sitt á sögu Iðnaðarsafnsins á Akureyri og þá velvild viljum við þakka af heilum hug.

Eftirlifandi eiginkonu Einars, börnum, barnabörnum sem og öllum öðrum ástvinum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Einars Friðriks Malmquists.

Hvíli hann í friði Guðs.

Þorsteinn Einar Arnórsson, Jakob Tryggvason, Egill Sveinsson, Sigfús Ólafur Helgason

Brynjar Elís Ákason

Gísli Arnar Guðmundsson skrifar
09. febrúar 2025 | kl. 15:00

Jóhanna S. Tómasdóttir

Jóhanna Sigrún Sóley Tómasdóttir og Leifur Enno Tómasson skrifa
07. febrúar 2025 | kl. 06:02

Jóhanna S. Tómasdóttir

Tryggvi, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur Harpa og Tómas skrifa
07. febrúar 2025 | kl. 06:01

Jóhanna S. Tómasdóttir – lífshlaupið

07. febrúar 2025 | kl. 06:00

Brynjar Elís Ákason

Kristján Sturluson skrifar
03. febrúar 2025 | kl. 13:40

Brynjar Elís Ákason

Helga Þórsdóttir skrifar
31. janúar 2025 | kl. 10:40