Fara í efni
Umræðan

Eiga bændur að vinna launalaust við að skaffa okkur matinn?

Hrun blasir við meðal mjólkurbænda verði ekki tafarlaust gripið í taumana.

Ætlum við að horfa uppá landbúnaðinn okkar veslast upp á skömmum tíma?

Landbúnaðurinn og matvælaframleiðslan hafa oft mætt þrengingum og sjaldan eða aldrei búið við það rekstraröryggi sem eðlilegt væri atvinnugrein sem ætlað er að stuðla að fæðuöryggi þjóðarinnar og um leið matvælaöryggi með framleiðslu á heilnæmum matvælum.

Það sem við stöndum frammi fyrir nú er líka allt annað en þrengingar. Við stöndum frammi fyrir algjöru hruni ef ekki verður gripið strax til raunhæfra aðgerða og greininni tryggð lágmarks rekstrarskilyrði og sanngjarnt samkeppnisumhverfi.

Nú er svo komið að mjólkurframleiðslan, sú grein landbúnaðarins sem hagrætt hefur hvað mest á liðnum árum og lengi hefur haft besta afkomu innan landbúnaðarins, er í stórkostlegum vanda vegna mikilla kostnaðarhækkana á aðföngum en þó mest vegna sligandi vaxtakostnaðar í kjölfar sí endurtekinna stýrivaxtahækkana seðlabankans.

Dagur landbúnaðarins – Landbúnaður á krossgötum

Ég sat fyrir viku síðan ráðstefnuna Dagur landbúnaðarins (Landbúnaður á krossgötum) hér í Hofi á Akureyri og tók þar þátt í pallborðsumræðum um stöðu greinarinnar. Ég reyndi þar að draga upp mynd af því hve staðan er alvarleg því tilfinningin mín er sú að hvorki neytendur né stjórnvöld geri sér raunverulega grein fyrir því hve staðan er gríðarlega alvarleg nú. Því er gott að setja hlutina í beint samhengi við það sem er að gerast á einstökum búum í okkar nánasta umhverfi hér á Akureyri. Tek því hér dæmi af vel reknu meðalstóru kúabúi sem er einkennandi fyrir landbúnaðinn á svæðinu.

Vel rekið kúabú, hver er afkoman í dag?

Tek hér dæmi af vel reknu fjölskyldubú í Eyjafirði, búi sem er með 60-70 mjólkandi kýr, einn mjaltaþjón og nýlega byggt fjós sem uppfyllir öll skilyrði fyrir gæðaframleiðslu. Aðbúnaður dýra er góður og viðunandi vinnuaðstæður fyrir bændurna sjálfa. Við getum talað um að slíkt bú sé hóflega skuldsett ef það skuldar 140-150 milljónir af eignavirði búsins sem væri líklega uppá 320 til 340 milljónir kr. Sum bú eru svo mun meira skuldsett og þá sérstaklega hjá yngra fólkinu sem nýlega hefur tekið við búrekstri eða nýbúið er að fjárfesta í nýrri tækni og húsum.

Bara vaxtabyrðin ein hefur á slíku búi vaxið um 12-13 milljónir kr á ári eða um rúma milljón á mánuði við þessar 14 stýrivaxtahækkanir seðlabankans sem ætlað er að hemja verðbólguna. Þó reksturinn væri góður fyrir og í jafnvægi var ekkert svigrúm til staðar til að takast á við slíkt afbrigðilegt vaxtaokur.

Gleymum því heldur ekki að þetta er fjölskyldubú, skrifað með stórum stöfum; EIN FJÖLSKYLDA, sem sinnir rekstrinum og teldist bara nokkuð vel sett ef þetta væru launatekjur búsins. Aukin vaxtabyrði þurrkar þannig út alla launagreiðslugetu búsins á einu bretti. Já, þið eru að lesa rétt. Bændur sem búa slíku búi eru því kauplausir með öllu, fá engin laun fyrir sitt erfiði. Slíkt gengur auðvitað ekki í margar vikur eða mánuði það sér hver maður. Hjá skuldsettari búum er staðan líka enn verri, þar eru greiðsluerfiðleikar miklir og gengið er hratt á eignir ef búin fá þá einhverja fyrirgreiðslu hjá fjármálastofnunum yfir höfuð til að standa þetta af sér.

Landbúnaðurinn og matvælaframleiðslan við Eyjafjörð. Hvers virði er greinin samfélaginu og matvælaframleiðslan þjóðinni í heild?

Landbúnaðurinn og matvælaframleiðslan eru undirstöðuatvinnugrein og okkur gríðarlega mikilvæg. Ef við tökum bara fyrirtækin hér á Akureyri, mjólkursamlagið, kjötvinnslurnar og fóðurframleiðsluna ásamt þeim bændum sem leggja sínar afurðir inn til vinnslu hér þá var veltan á síðasta ári yfir 30 milljarðar kr og rúmlega 900 störf innan hópsins. Eru þá ekki talin með nein afleidd störf í þjónustu við þessa stóru atvinnugrein. Fyrir utan þessa miklu matvælaframleiðslu sem hér fer fram skiptir landbúnaðurinn á svæðinu líka miklu fyrir búsetu og alla þjónustu við íbúa á svæðinu.

Á síðasta ári var velta í innlendri matvælaframleiðslu í heild án sjávarútvegs 197,3 milljarðar og þúsundir starfa þar undir. Sjávarútvegurinn okkar ásamt fiskeldi velti síðan 582,5 milljörðum. Þetta er matarkistan okkar sem við byggjum fæðuöryggið okkar á.

Það er því mikið í húfi hér á svæðinu okkar ekki síður en landinu öllu ef við stefnum afkomu bændanna sjálfra áfram í algjört öngstræti.

Stuðningur við greining er smánarlegur og samkeppnisumhverfið mjög ósanngjarnt.

Oft heyrum við í umræðunni gagnrýni á stuðning við landbúnaðinn, rétt eins og við séum að ausa peningum að óþörfu í þá grein. Hið rétta er hinsvegar að stuðningsgreiðslur við landbúnað eru mjög litlar hér á landi og það sem vegur þyngra einnig er að hér erum við ekki að skapa landbúnaðinum réttlátt samkeppnisumhverfi eins og gert er í okkar nágrannalöndum og á helstu samkeppnismörkuðum.

Við heyrum hér síendurtekið sama sönginn um tollfrjálsan innflutning með hag neytenda að leiðarljósi á sama tíma og við viljum styrkja fæðuöryggi þjóðarinnar og tryggja sem mest öryggi matvælanna.

Innlend framleiðsla er í dag einstök á heimsvísu fyrir hreinleika og gæði um leið og velferð dýra er einnig meiri en víðast þekkist. Greinin uppfyllir því allar óskir þjóðarinnar um öruggan og góðan mat. En hvað stoðar það ef við ætlum aldrei að standa með greininni og verja hana ágangi af innflutningi frá mörkuðum sem hvorki greiða mannsæmandi laun eða sinna gæðum og öryggi matvælanna eins og við óskum þeirra.

Sem dæmi um stuðning við landbúnaðinn þá fær öll mjólkurframleiðalan í landinu um 7,8 milljarða á fjárlögum til lækkunar matarverðs til neytenda í formi beingreiðslna til bænda. Þessi upphæð hefur verið nánast sama krónutalan í áraraðir og þynnst líka út á ört vaxandi framleiðslu. Þegar upphæðin var fest við búvörusamninga árið 2005 var framleiðsla mjólkur í landinu um 106 milljónir lítra en í dag er greiðslumarkið 149 milljónir lítra og framleiðslan og neyslan um 153 milljónir lítra sem upphæðin deilist út á.

Það sem miklu meira máli skiptir þó fyrir greinina til frambúðar er að hún búi við stöðugt rekstrarumhverfi og sanngjarnt samkeppnisumhverfi heldur en þessa aura sem henni eru réttir gegnum fjárlög.

Við þurfum sem þjóð líka að koma því á hreint hvaða hlutverk við ætlum landbúnaðinum og matvælaframleiðslunni.

Ef við ætlum landbúnaðinum það hlutverk sem okkur er tíðrætt um, að vera mikilvægur þáttur í að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar, tryggja okkur heilnæm matvæli og vera grunnstoð hinna dreifðu byggða þá þurfum við að gera það sem þarf til að verja greinina þannig að hún geti dafnað og sinnt hlutverki sínu á mannsæmandi hátt og greitt laun eins og annar atvinnurekstur. Það heitir bara á góðri íslensku að skapa greininni sanngjarnt rekstrar- og samkeppnisumhverfi.

Allar hugsandi þjóðir setja grunnstoðir hvers samfélags í forgan, en þær sem koma fyrst eru:

  • Heilbrigðismál
  • Menntun og jafnrétti þegnanna
  • Hollur matur fyrir alla alltaf eða það sem við köllum fæðu- og matvælaöryggi.

Til að tryggja matvælaframleiðsluna hér þarf því að koma á þegar í stað tollvernd svipað því sem okkar nágrannaþjóðir viðhafa og girða þannig fyrir innflutning matvæla sem á engan hátt samræmast okkar kröfum eða markmiðum um hollt mataræði. Með kjánagangi einum saman erum við t.d. núna að stofna svínarækt í landinu í hættu í stað þess að vera að hlúa að þeirri grein sem nú er í miklum fjárfestingum vegna aukinna krafna um dýravelferð. Þar erum við líka að tala um atvinnugrein innan landbúnaðarins sem engan rekstrarstuðning hefur haft frá ríkinu og atvinnugrein sem á að geta vaxið mikið frá því sem nú er til að sinna innlendri þörf.

ÁKALL TIL STJÓRNVALDA – ákall til þingmanna svæðisins

Þegar í stað þarf að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að illa fari í þessari atvinnugrein sem skiptir okkur svo miklu máli til langrar framtíðar bæði fyrir sjálfstæði og samfélagsgerð þjóðarinnar.

Aðgerðir sem grípa þarf til strax eru eitthvert peningalegt mótvægi við þessa gríðarlega auknu og ósanngjörnu vaxtabyrði sem allt er að sliga. Hvort það verði kallað sérstakar vaxtabætur, launauppbót, velferðarstyrkur eða bara þakklæti til bænda og matvælaframleiðenda fyrir að tryggja FÆÐUÖRYGGIÐ á þessum óstöðugu tímum gildir einu. Það þarf peninga til að leiðrétta þessa ósanngjörnu og óvinnandi stöðu áður en illa fer.

Til lengri tíma þarf svo að skapa sátt um hlutverk greinarinnar og tryggja henni:

  • sanngjarnt samkeppnisumhverfi
  • fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi
  • mun meiri stuðning og þá sérstaklega í formi verndar og
  • hagkvæma og örugga fjármögnun sem gerir nýliðun og endurnýjun í greininni mögulega

Held að okkur væri líka bara hollt að taka svona mánaðafrí eða tveggja frá umræðu og fögrum ræðum um loftslagsmálin, þar sem við sem þjóð erum nú þegar mjög framarlega ef ekki í fyrsta sæti meðal þjóða heims. Einbeita okkur í staðinn um stund að umræðu um mannúð, jafnrétti og frið í heiminum og fæðuöryggi og hvað við getum gert á heimaslóðum og á alþjóðavettvangi til að láta gott af okkur leiða fyrir núverandi og komandi kynslóðir í þeim efnum.

Sterk staða og öflug þróun íslensks landbúnaðar og matvælaframleiðslu mun skipta komandi kynslóðir mjög miklu um þeirra velferð, öryggi og möguleika til að lifa góðu lífi í heilbrigðu samfélagi.

Hólmgeir Karlsson er framkvæmdastjóri Bústólpa á Akureyri

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00