Fara í efni
Pistlar

Afleiðingar hins græna lífsstíls

TRÉ VIKUNNAR - LXXXI

Hinn græni lífstíll hefur mikil áhrif á útlit skóga. Margar merkilegar afleiðingar þessa lífsstíls skipta máli fyrir skógana okkar og allt lífið í kringum okkur. Reyndar grundvallast okkar eigið líf á þessum græna lífstíl trjánna og allra planta. Segja má að heimshöfin séu annað lunga jarðarinnar og skógar heimsins séu hitt lungað. Þess vegna er ekki úr vegi að fjalla aðeins um hinn græna lífstíl trjáa og hvernig hann mótar útlit skóganna.

 

Trjágróður og falleg lúpína að Grund í Eyjafirði. Mynd: Sig.A.

Grænt 
 
Orðið „grænt“ er merkilega mikið notað í yfirfærðum merkingum sem innbyrðis geta verið býsna fjölbreyttar og ólíkar. Sumt fólk, jafnvel heilu hagsmunasamtökin, telja sig græn í merkingunni umhverfisvæn. Við tölum stundum um grænar lausnir og grænar hitt og þetta í sömu merkingu. Svo eru það þeir, þær eða þau sem teljast græningjar eða eru græn á bak við eyrun. Það eru einfeldningar sem hafa lítið vit á því sem um er rætt, gjarnan vegna vanþekkingar. Einnig er vel þekkt að nota svokallaðan grænþvott til að blekkja og þykjast vera umhverfisvænn, -væn eða -vænt. Brúneggin eru víða.
 

Við þetta má bæta máltökunum: Í einum grænum (hvelli) og hafa ekki grænan grun um eitthvað. Þarna er orðið notað sem einhvers konar áhersluorð en virðist ekki koma hinum græna lit neitt við. Fleiri orðtök eru þekkt og má í því sambandi benda á þessa heimild. Þar er að sjá að Guðrún Kvaran liggi ekki á sínu græna eyra þegar þessi mál eru rædd heldur sé á grænni grein. Virðist hún hafa fengið grænt ljós án þess að þurfa að gera hosur sínar grænar eða verða græn af öfund jafnvel þótt hún eigi ekki grænan eyri.

 
 

Á láglendi Íslands getur trjá- og runnagróður vaxið nær allstaðar þar sem hann fær frið. Mynd: Sig.A.

Sykur úr sólarljósi? 
 

Þegar við fjöllum um grænar lífverur í þessari grein höfum við í huga þær lífverur sem innihalda grænukorn með blaðgrænu. Grænukornin geta fangað orku sólarinnar til hagsbóta fyrir lífveruna. En því fer fjarri að grænar lífverur geti nýtt þessa orku beint til sinnar starfsemi. Þær nýta orkuna úr sólarljósinu til að búa til sykursameindir. Það má segja að orkan, sem finna má í sykurmolum, sé í raun sólarorka sem plöntur hafa fangað og umbreytt í sameindir með ljóstillífun. Sykur er næstum eins og kristallað sólarljós. Því kemur það ekki á óvart að góður brjóstsykur skuli færa birtu í hversdagsleikann hjá æði mörgum. Sykrur og fjölliður þeirra eru hluti af flokki lífrænna sameinda sem kallast kolvetni. Þau eru búin til úr ólífrænum, einföldum efnum svo sem koltvísýringi og vatni. Með ýmsum efnaskiptum nota grænar lífverur þessar sykrur sér til vaxtar og viðhalds.

 

Skógurinn í Vaðlaheiðinni speglar sig í Pollinum. Mynd: Sig.A.
Græn dýr
 
Í lífríkinu eru til lífverur sem hafa tekið upp græna litinn án þess að tileinka sér þann lífstíl að ljóstillífa, enda ráða þau ekki við það. Þar á meðal eru froskar, pöddur, eðlur, slöngur og fleiri dýr sem nýta sér græna liti sem feluliti. Þau eru græn án þess að temja sér grænan lífstíl. Græn dýr eru því ekki endilega græn, ef svo má segja. Þetta minnir okkur dálítið á mannfólkið sem stundum flaggar græna litnum án þess að vera græn. Undir lok pistilsins fjöllum við nánar um það.
 
 

Gullglyrna, Chrysoperla carnea, er ein af þessum lífverum sem voga sér að vera græn þrátt fyrir að stunda ekki grænan lífsstíl. Mynd: Sig.A.

Nýting hins græna lífsstíls
 
Í þessum pistli lítum við svo á að hinn græni lífstíll tilheyri aðeins þeim lífverum sem ljóstillífa. Þær köllum við frumbjarga og þær eru frumframleiðendur í vistkerfunum. Við verðum auðvitað að muna að til eru lífverur sem hafa tamið sér hinn græna lífsstíl án þess að teljast til plantna. Til eru örverur og frumdýr sem geta ljóstillífað og flokkast þau að sjálfsögðu sem frumframleiðendur. Ljóstillífandi þörungar í höfum heimsins mynda annað lunga heimsins eins og að ofan greinir. Einnig eru til örverur sem stunda efnatillífun og eru þar með frumbjarga þótt þær séu ekki grænar á litinn.
 
 

Á Íslandi eru til þörungar sem ljóstillífa þótt hitinn fari upp í 64°C. Í hinum stóra heimi eru til þörungar sem ljóstillífa þótt hitinn fari upp í 74°C. Ef til vill eru það mörk mögulegrar ljóstillífunar. Þar sem hitinn er meiri er hann of mikill fyrir ljóstillífun. Þá taka gerlar og fyrnur (fornbakteríur) við. Sumar þeirra stunda efnatillífun í miklum hita. Á þessari mynd, sem tekin er í Reykjadal ofan við Hveragerði, sjást ummerki um gerla sem nýta járn til tillífunar. Það sést á litnum á vatninu. Ofar á myndinni (neðar í læknum) er vatnið kaldara og þar taka ljóstillífandi gerlar við. Mynd: Sig.A.

 
Aðrar lífverur, burt séð frá lit þeirra, lifa annaðhvort beint eða óbeint á frumbjarga lífverum. Þær köllum við ófrumbjarga. Þær þurfa á næringu að halda sem búin er til af frumbjarga lífverum. Ófrumbjarga lífverur framleiða ekki orkuríka næringu, heldur innbyrða hana með áti eða öðru næringarnámi. Það er stundum nefnt afrán. Okkar lífstíll er þannig og sjálfsagt er að reyna að draga úr áhrifunum á lífríkið eins og hægt er. Í sumum tilfellum borða eða éta ófrumbjarga lífverur hinar frumbjarga beint. Eru þær lífverur nefndar 1. stigs neytendur. 2. stigs neytendur eru kjötætur sem borða eða éta 1. stigs neytendur og svo koll af kolli. Allir neytendur stunda einhvers konar afrán og teljast til afræningja. Samt teljast ekki allir neytendur til rándýra. 1. stigs neytendur eru grasbítar eða jurtaætur en ofar í fæðukeðjunni eru rándýrin.
 
 

Skógarþröstur stundar afrán á stofni ánamaðka til að fóðra unga sína. Gerir það skógarþröst að rándýri? Mynd: Sig.A.

Þegar fyrsta stigs neytendur borða eða éta frumbjarga lífverur er það ýmist gert í hluta eða heild. Við borðum til dæmis ávexti af eplatrjám en ekki heilu trén. Í þessu sambandi má minna á hvað einn af ræningjunum í Kardimommubænum sagði þegar ljónið hafði étið af honum aðra stóru tána: „Það er ekki gott að vera étinn af ljóni, þótt ekki sé nema af litlu leyti“. Þegar ljón étur stóru tána af ræningja sem borðað hefur epli, er ljónið annars stigs neytandi. Ef ræninginn hefur borðað kjöt er hann annars stigs neytandi en ljónið þriðja stigs neytandi og svo koll af kolli. Að éta eða vera étinn. Þar er efinn.

 

Sauðfé étur gulvíði. Það gerir það að fyrsta stigs neytenda. Sá sem borðar sauðféð er annars stigs neytandi. Öll orkan í kerfinu kemur upphaflega frá sólinni. Mynd: Sig.A.

Þetta át er ferli þar sem orkan úr sólarljósinu er færð á milli þrepa í fæðupíramída eða eftir fæðukeðju. Í hverju þrepi eða hverjum hlekk losnar hluti orkunnar. Neytendurnir nýta hana sér til vaxtar, viðhalds og hreyfingar. Svo losnar hún úr kerfinu sem varmi samkvæmt öðru lögmáli varmafræðinnar. Allt annað, sem í ferlinu er að finna, er nýtt og síðan endurunnið. Í lokin er það gert með aðstoð sveppa og örvera eins og fjallað er um í þessum pistli. Það er sólin sjálf sem knýr kerfið því þaðan kemur orkan.

 
 

Fæðupíramídi eða orkupíramídi er einföld mynd sem sýnir hvað verður um orkuna sem frumframleiðendurnir mynda. Á hvert þrep flyst aðeins um 10% orkunnar sem er í kerfinu en 90% tapast sem varmi út úr kerfinu eftir að lífverurnar hafa nýtt orkuna í lífsstarfsemi sína. Þannig minnkar lífmassinn eftir því sem ofar dregur í píramídann. Sólin knýr kerfið og sveppir og gerlar koma efnunum aftur í hringrásina. Myndin fengin héðan.

 
Hinn græni lífstíll hefur mikil áhrif á útlit skóga. Það er hann sem mótar útlit þeirra. Þeir þurfa að nýta sólarorkuna sem best.
 
 

Trén keppa um ljós og næringarefni. Það mótar útlit þeirra. Sum trén breiða mikið úr sér á meðan önnur teygja sig eins hátt og þau geta. Fullt af fræi á sumum grenitrjánum. Könglarnir eru ofarlega svo vindurinn geti borið fræin lengra. Mynd: Sig.A.

Það sem til þarf 
 

Hinar grænu lífverur þurfa meira en bara sólarorku, þótt hún knýi kerfið. Þannig er dálítið djúpt tekið í árinni hér ofar þegar sagt er að sykur sé kristallað sólarljós. Plöntur þurfa koltvísýring, vatn og steinefni. Til að ná í þetta allt fylgir hinum græna lífsstíl sú þörf að dreifa sér eins og hægt er og þekja þannig sem stærst svæði. Þetta sjáum við vel hjá trjám. Þau taka mikið pláss og á það bæði við ofan og neðan jarðar. Bæði rætur og greinar vaxa og dreifa sér sem víðast þar til lauf og rætur fylla nær allt það pláss sem í boði er. Tré mynda gjarnan hárrætur til að auka yfirborð rótanna, eða mynda sambýli við sveppi sem gegna sama hlutverki. Þannig tekst bæði blöðum og rótum að auka yfirborð sitt sem mest til að ná í það sem þau þurfa til vaxtar og viðhalds.

 
 

Orku sólar má nýta á margan hátt. Í þessu þorpi í Bæjaralandi má sjá lítinn eldiviðaskúr fremst fyrir miðju á myndinni. Þar er geymd orka sem upphaflega kom frá sólinni. Á þökum margra húsa eru sólarsellur eða sólarrafhlöður en að baki er blandskógur sem nýtir orkuna á mun skilvirkari hátt en sólarsellurnar á þökunum. Mynd: Sig.A.

Hvaða sólarorkuverkfræðingur sem er ætti að geta útskýrt að eitt vandamál tengt nýtingu sólarorku tengjast því hversu svakalega mikið pláss þarf til að fá mikla orku í sólarsellurnar. Þróun trjáa hefur tekur mið af þessu. Við höfum sagt frá því áður, í þessum pistli, að yfirborð laufa á hverju tré er miklu meira en flatarmál jarðarinnar undir trénu. Þannig tekst trénu að nýta sólarljósið betur en ef það væri alveg flatt. Þannig geta laufin einnig tekið upp miklu meira af koltvísýringi úr andrúmsloftinu heldur en þau gætu ef þau væru öll jarðlæg. Það er því hinn græni lífstíll sem knýr tré til að vaxa og mynda tré. Í þessum fyrrnefnda pistli er einnig fjallað um fleiri þætti sem tengjast grænum lífstíl plantna, til dæmis hvernig lífið í skógarbotninum þarf að aðlagast misjafnlega mikilli, eða lítilli, birtu.

 
 

Mynd sem sýnir að samanlagt flatarmál laufa er miklu meira en flatarmál landsvæðisins undir trénu. Í þessu tilfelli er flatarmálið undir trénu 78,5 fermetrar en laufþekjan er samtals 315 fermetrar. Mynd úr Elements of Ecology en við höfum áður birt hana í pistli sem heitir Af hverju er skógurinn grænn?

 

Til að stunda ljóstillífun þurfa tré vatn. Afleiðingar þessa ferlis eru meðal annars þær að hin þunnu laufblöð tapa stöðugt vatni út um loftaugun. Það vatn þarf að endurnýja. Þá kemur sér aldeilis vel að ræturnar hafa líka dreift sér víða og myndað lítil rótarhár með miklu yfirborði miðað við stærð eða tengst sveppum í sama tilgangi. Það auðveldar vatnsupptökuna. Með vatninu tekur plantan upp þau mikilvægu steinefni sem plantan þarf á að halda. Þau efni eru oft kölluð áburðarefni.

 
 

Blandskógur austur í Skriðdal. Trén keppa sín á milli um næringu, vatn og birtu. Að auki hjálpast þau að. Þau veita hvert öðru skjól og í sameiningu auka þau frjósemina í öllu vistkerfinu sem nýtist öllum gróðri. Allt er það partur af hinum græna lífsstíl. Mynd: Sig.A.

Móttaka sólarljóss
 
Eins og kunnugt er búum við fremur norðarlega á hnettinum. Þess vegna kemur sólarljósið til yfirborðsins frá fremur litlu eða þröngu horni. Eftir því sem nær dregur miðbaug fer sólin hærra á loft og geislar sólarinnar koma þá úr annarri átt.
 
 

Fílar undir akasíutrjám. Trjákrónurnar eru nánast flatar að ofan enda kemur mest af sólarorku beint að ofan. Myndin er úr þessum pistli okkar um akasíur.

Þetta vita trén og hafa þróast í þá átt að nýta birtuna sem allra, allra best. Best þykir flestum trjám að taka við sólarljósinu er það fellur með 90° horni á laufin. Því ræður hinn græni lífsstíll trjáa, ásamt staðsetningu á hnettinum, miklu um lögun laufkrónunnar.

 
 

Myndir úr bókinni Elements of Ecology. Miklu skiptir fyrir trén að laufblöðin vaxi þannig að þau nýti sólarljósið sem best. Rétthafi ©: Pearson Education, Inc. 

 

Eftir því sem norðar dregur verður mikilvægara fyrir trén að vera keilulaga í vexti, eða kúlulaga að öðrum kosti. Þá geta þau tekið við ljósi sem kemur frá hlið. Nær miðbaug er þetta óheppilegur vöxtur, enda kemur ljósið mest að ofan. Þá er heppilegra að líta út eins og regnhlíf til að taka við sem mestri orku frá sólu. 

 
 

Eins og aðrar tegundir vex gulvíðir þannig að hann nýti sólarljósið sem best. Þess vegna má oft sjá hálfkúlulaga gulvíðirunna í villtri náttúru. Mynd: Sig.A.

 

Í þessu sambandi má minna á tvö atriði sem almennt eru talin tengjast kulda og snjó en gætu hafa þróast vegna birtu eða öllu heldur skorts á henni.

Hið fyrra er að eftir því sem norðar dregur á hnöttinn er líklegra að barrtré, eins og greni og þinir, verði með hangandi greinar. Þannig standa þau betur af sér snjóþyngsli en þannig liggur barrið líka betur við sólu. Hvoru tveggja gagnast betur því norðar sem trén vaxa enda er þetta vaxtarlag meira áberandi þar sem sól er lágt á lofti.
 
Hitt atriðið er að mörg tré fella lauf, eða barr, yfir veturinn þegar frost og kuldi kemur í veg fyrir ljóstillífun. Steingervingar af fornrauðvið, Metasequoia sýna að þessi eiginleiki myndaðist hjá þessari ættkvísl mjög langt í norðri á þeim tíma þegar frost voru nánast óþekkt á þeim slóðum. Því er líklegra, að minnsta kosti hjá fornrauðviðum, að eiginleikinn hafi þróast fyrst til að takast á við myrku mánuðina frekar en kulda. Það var engin ástæða til að halda í barrið þegar enga birtu var að fá. Þegar sólin fór aftur að skína uxu ný lauf. Ef til vill var það svipuð þróun sem átti sér stað hjá lerki og ef til vill fleiri tegundum. Svo reyndist þetta bráðheppilegt þegar fór að kólna og kuldar komu í veg fyrir ljóstillífun á norðlægum slóðum.
 
 

Fornrauðviður þróaðist mjög norðarlega á hnettinum þar sem myrkur kom í veg fyrir ljóstillífun á vetrum. Enn hefur hann það þannig að hann hendir laufinu yfir myrkustu mánuðina, þótt hann vaxi nú sunnar á hnettinum. Mynd: Sig.A.

Skortur á ljósi 
 

Ef það hefur farið fram hjá einhverjum er rétt að geta þess að birtunni á Íslandi er nokkuð misskipt á milli árstíða. Þessi munur fellur að nokkru saman við mismunandi hitastig eftir árstíðum, nema hvað birtan eykst og dvínar oftast á undan hitanum. Þróun trjáa tekur mið af þessu. Þau ljóstillífa á sumrin þegar bæði hiti og birta hentar til slíkra starfa. Sum tré, einkum lauftré, losa sig við laufin áður en kaldasti og dimmasti tími ársins skellur á. Á vorin, þegar sólin fer að verma landið, líður dálítill tími þar til trén eru að fullu laufguð. Þetta er glugginn sem fjölmörg vorblómstrandi blóm nýta sér. Þau blómgast áður en laufkróna trjánna fer að varpa skugga. Þannig hefur hinn græni lífstíll trjánna afgerandi áhrif á hvenær margar blómplöntur blómstra.

 
 

Hvítar skógarsóleyjar, Anemone spp. sem stundum eru kallaðar anemónur upp á latínu, blómstra áður en laufskógarnir laufgast. Þannig nýta þær sólarljósið best. Fjær sér í páskaliljur sem eru örlítið seinni til. Mynd: Sig.A.

Vaxi tré upp í of miklum skugga reyna þau, eins og þau geta, að teygja sig upp í hina lífsnauðsynlegu birtu. Þess vegna verða tré sem skortir birtu oft rengluleg og óþarflega teygð.

Nýting sólarljóssins 
 

Trjátegundir gera mismunandi kröfur til birtu. Sumar eru ákaflega ljóselskar á meðan aðrar eru mjög skuggþolnar. Svo eru sumar tegundir, eins og reyniviður, sem getur verið mjög skuggþolinn í æsku en þarf meiri birtu þegar hann stækkar.

 
 

Fuglar hafa sáð til þessara reynitrjáa í grenilundi. Mynd: Sig.A.

Það er merkilegt að sjá villtan reynivið vaxa í villtum birkiskógum. Þá lætur hann nægja að vaxa upp úr skóginum og svo er eins og hann hætti að leggja áherslu á hæðarvöxt. Þess í stað fer hann að breiða út krónuna og taka sér meira pláss á kostnað birkisins. Vaxi reynir upp úr lágvöxnu birkikjarri verður hann einnig lágvaxinn en þó heldur hærri en birkið. Vaxi hann í sæmilega hávöxnum, íslenskum birkiskógi verður hann einnig hávaxnari en birkið. Þannig er eins og hæð birkisins hafi bein áhrif á hæð reynisins.

Ljóskröfur plantna tengjast að jafnaði öðrum þáttum sem einkenna hverja tegund. Sum tré eru kallaðar frumherjategundir. Það eru tegundir sem nema land þar sem engin tré er að finna. Slík tré þurfa að þola meira vindálag og oft og tíðum rýrari jarðveg en finnst í þroskuðum skógum. Aðrar tegundir eru síðframvindutré. Það eru tegundir sem koma sér fyrir í skjóli frumherjategundanna. Að jafnaði þurfa síðframvindutré meira skjól og frjórri jarðveg en frumherjarnir. Á móti kemur að þörf þeirra fyrir ljós er minni.

Stuðningur 
 

Til að bera uppi allt þetta lauf og halda um allar þessar rætur þarf plantan mikinn stuðning. Neðan jarðar myndast þykkar rætur, svokallaðar stoðrætur, sem hafa það hlutverk að halda trénu stöðugu. Ofan jarðar myndast einn eða fleiri stofnar sem hafa það hlutverk að halda uppi greinum með laufum svo um þau leiki loft og sólarljós. Tengingin á milli róta og greina er í þessum stofni eða stofnum í formi æða sem myndaðar eru af viðarvef eða xylem á erlendum tungum. Um það höfum við fjallað í þessum pistli.

Á hverju ári framleiða tré og runnar nýtt lag af þessum frumum og hinar eldri drepast. Gerist það í stofni, greinum og rótum. Það er ástæða þess að tré mynda árhringi.

Af þessu má sjá að útlit trjáa er bein afleiðing af hinum græna lífsstíl sem þau hafa tamið sér.

 
 

Hinn græni lífstíll mótar útlit trjáa. Hér er það hjartatré í Lystigarðinum. Mynd: Sig.A.

Stuðningur annarra lífvera
 

Hinum græna lífstíl fylgja ýmis úrlausnarefni sem finna þarf lausn á. Tré eiga til dæmis mun erfiðara með að flytja sig á milli staða en flestar ófrumbjarga lífverur. Þetta skapar ákveðin verkefni sem tré hafa náð að leysa á hugvitsamlegan hátt.

Rætur trjáa þurfa að ná í vatn og næringu. Það þurfa þær að gera án þess að geta rölt að næstu uppsprettu. Því hafa nær allar plöntur tekið upp á því að mynda samband við sveppi. Sveppirnir mynda sveppþræði sem líta má á sem viðbót við æðarnar og þannig stækkar yfirborð rótanna margfalt. Í staðinn fá sveppirnir kolefni og aðrar sykrur sem verða til við ljóstillífun.

Ofanjarðar hluti trjánna þarf líka að taka tillit til þess hversu flókið það getur verið, fyrir flestar frumbjarga lífverur, að færa sig úr stað. Þetta sést oft á vexti trjáa. Þau teygja sig í átt að sólarljósinu til að fá sem mesta orku. Þau keppa hvert við annað og reyna að vaxa sem hraðast og mest til að ná í sem mest af þessari dýrmætu orku. Þau breiða út krónurnar þegar það er hægt og koma laufum sínum þannig fyrir að sem mest af sólarorkunni komi að gagni. Þarna er töluverður munur á vexti lauf- og barrtrjáa. Lauftrén teygja sig meira í átt að ljósinu á meðan barrtré vaxa meira á móti aðdráttarafli jarðar.

 
 

Birki við hellisskúta í Gjánni í Þjórsárdal vex í átt að jörðu til að liggja sem best við sólu. Mynd: Sig.A.

En þetta er ekki það eina. Þegar dýr koma erfðaefni sínu á milli kynslóða getur verið afar heppilegt fyrir þau að vera sem næst hvert öðru. Þau geta nefnilega fært sig úr stað. Trén hafa annan háttinn á. Sum þeirra treysta á að vindurinn grípi frjóin og komi þeim á réttan stað. Til að tryggja að frjó hitti fyrir kvenblóm þurfa margar frumbjarga lífverur að framleiða gríðarlegt magn af frjói og dreifa því eins víða og hægt er. Í sumum tilfellum lenda slík frjó í öndunarvegi okkar og geta þar valdið ofnæmi.

 
Fyrri myndin sýnir karlblóm alaskaaspar að vori. Þá getur vindurinn gripið frjó karltrjánna og blásið þeim eitthvert. Lendi þau á kvenblómi geta myndast fræ. Seinni myndin sýnir fræ kvenkyns alaskaaspar. Þau hafa svifhár svo vindurinn geti borið þau langar leiðir. Sjá má á laufunum að frjóið er mun fyrr á ferðinni en fræið. Hvorki frjó né fræ alaskaaspa eru ofnæmisvaldandi. Myndir: Sig.A.

Aðrar plöntur hafa dottið niður á aðrar lausnir. Það mætti halda að þær hafi tekið mið af rótunum sem standa í eins konar verslunarsambandi við sveppi. Þessi tré framleiða efni í blómum sínum sem geta laðað að frjóbera. Þeir sjá svo um að fara með hluta af frjóinu yfir á næstu blóm. Ótrúlegur fjöldi dýra byggir afkomu sína á þessu sambandi við blóm. Þar má finna skordýr, fugla, eðlur og spendýr sem eru í vinnu hjá blómunum og fá hunang eða frjó að launum. Þökk sé hinum græna lífstíl.

 
 

Víðiplöntur treysta á skordýr sér til hjálpar. Mynd: Sig.A.

Við höfum áður sagt frá því að fræ eru ferðalangar. Þau geta farið yfir miklu lengri vegalengdir en rótföst tré. Það er eins með fræin og frjóin að í sumum tilfellum treysta tré á vindinn eða vatnið en í öðrum tilfellum á einhver dýr til þessara flutninga. Aftur á móti er það ekki svo að fjúkandi fræ kalli fram ofnæmisviðbrögð eins og frjóin.

 
 

Svartþröstur gæðir sér á reyniberjum. Til að auðvelda þröstunum verk sitt eru berin áberandi á litinn. Fræin fara ómelt í gegnum meltingarveg þrastarins og þeim fylgir áburður í formi fugladrits þegar þau skila sér út. Mynd: Sig.A.

Þótt sumar plöntur kjósi frekar að nota „ókeypis“ aðstoð við að dreifa frjóum og fræjum, frekar en að launa sendiboðanum, er ekki þar með sagt að það kosti plöntuna eitthvað minna. Í stað þess að framleiða eitthvað sem freistar sendiboðanna þurfa þessar plöntur að framleiða þeim mun meira af frjói og fræjum sem langflest eiga aldrei möguleika á að komast á legg (eða stofn).

Allt tengist þetta, beint og óbeint, þeirri staðreynd að skógarnir hafa tamið sér grænan lífstíl. Það er þessi lífsstíll sem ræður mestu um útlit trjáa og skóga.

 

Margar tegundir plantna útbúa fræ sín þannig að þau geti borist langar leiðir. Mynd: Sig.A.

Grænþvottur 
 

Orðið grænþvottur er gjarnan notað þegar fólk, fyrirtæki eða samtök vilja búa sér til græna og jákvæða ímynd án þess að hafa mikið þar á bak við. Þá er því treyst að almenningur (græningjarnir) viti ekki betur. Mjög margt getur fallið undir þetta hugtak. Má nefna sem dæmi olíufélög sem styrkja umhverfisverkefni í því skyni að bæta ímynd sína en gera í raun ekkert, eða mjög lítið, til að minnka umhverfisáhrif starfsemi sinnar.

Á íslensku nota markaðsmenn ýmisskonar skrauthvörf til að fegra ímyndina. Má sem dæmi nefna að orðin sveppaeyðir, illgresiseyðir og skordýraeyðir eru skrauthvörf fyrir eitur. Sama á við um allskonar efni sem kölluð eru varnarefni. Réttara er í flestum tilfellum að kalla þau eiturefni. Með svona og sambærilegum skrauthvörfum er reynt að bæta ímynd og láta líta út fyrir að allt sé bæði vænt og grænt. Það kallast grænþvottur.

 

Svo er algengt að reyna að slá ryki í augu neytenda í nafni markaðssetningar. Í þeim tilgangi eru gjarnan notuð hugtök eins og grænt, náttúrulegt, vistvænt, umhverfisvænt, sjálfbært, kolefnisjafnað og alið í óspjallaðri náttúru. Ef þetta er gert án þess að óháð vottunarfyrirtæki komi að málinu ber að taka svona fullyrðingum með fyrirvara. 

 
 

Dæmi um óskýrt eða villandi málfar og litanotkun í auglýsingum án þess að hlutlaus og óháð vottun liggi að baki. Myndin fengin úr þessari grein.

Því miður þekkjum við mörg dæmi um svona markaðssetningu. Má sem dæmi nefna að þegar örfoka land er nýtt til beitar er það ofnýting og rányrkja (sjá til dæmis hér og hér) en með grænþvotti er látið líta út fyrir að það sé alveg sérdeilis umhverfisvænt. Heilu samtökin halda þessu fram þótt meðlimirnir hljóti flestir að vita betur enda sýna rannsóknir okkar færustu vísindamanna allt annan sannleika. Má sem dæmi nefna að í þessu viðtali segir þáverandi formaður Landssambands sauðfjárbænda í tvígang að engin ofbeit sé á Íslandi, en sérfræðingur Landgræðslunnar, sem nú heitir Land og skógur, svaraði í þessu viðtali. Hér má einnig hlusta á viðtal við fyrrum landgræðslustjóra sem er ekki í nokkrum vafa. Beit á auðnum er aldrei sjálfbær. Beit á auðnum er rányrkja og á Íslandi viðgengst ofbeit. Það er ekkert grænt við slíkan búskap.

 
 

Sem dæmi um grænþvott má nefna að í fréttum Ríkisútvarpsins þann 2. janúar 2016 var haft eftir Markaðsráði kindakjöts að allt sauðfé á Íslandi væri alið á sjálfbæran hátt í óspjallaðir náttúru og að svo hafi verið allt frá landnámi. Mynd: Sig.A.

Ef til vill stafar svona grænþvottur þó ekki alltaf af hreinni lygi. Í sumum tilfellum gæti verið um vanþekkingu að ræða. Koma þá upp í hugann orð Jóns Kalmanns Stefánssonar: „Vanþekkingin gerir þig frjálsan, þekkingin hneppir þig í fjötra ábyrgðar.“ (Jón Kalmann Stefánsson: Saga Ástu bls. 235). Það hentar ekki öllum að sætta sig við óþægilegar staðreyndir.

Grænþvottur og kolefnisjöfnun 
 

Þegar fullyrðingum um kolefnisjöfnun er haldið á lofti án þess að því fylgi óháð staðfesting og vottun er um grænþvott að ræða. Sömuleiðis þegar fyrirtæki leggur peninga í umhverfisverkefni án þess að gera neitt til að draga úr umhverfisáhrifum starfsemi sinnar. Það er grundvallaratriði í ábyrgum umhverfisverkefnum að fyrsta markmiðið sé að draga úr eigin umhverfisáhrifum. Síðan má taka til við að ráðast í mótvægisaðgerðir eða verkefni sem eiga að vega upp á móti tilteknum umhverfisáhrifum. Í kolefnisverkefnum með gróðursetningu trjáa þarf að krefjast áætlunar og aðgerða til að draga úr losun áður en binding er tekin til greina. Bindingin á í raun að vega á móti þeirri losun sem ekki er hægt að stöðva eins og sakir standa.

Ef til vill má halda því fram að óábyrg umhverfisverkefni hafi að sumu leyti ýtt undir þörfina á ábyrgum verkefnum og styrkt þróun staðla og vottunarkerfa. Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.

Endanlegt markmið kolefnisverkefnis er að kolefnisverkefnið sjálft verði óþarft, að losun verði á endanum hætt alveg og ekki sé lengur þörf fyrir bindingu á móti.

 
 

Kolefnisverkefni á vegum Kolviðar. Hinn græni lífsstíll trjánna bindur kolefni bæði ofan og neðan jarðar. Hlutlaus vottun á að tryggja að ekkert svindl sé í gangi. Hana hefur verkefnið hlotið frá Bureau Veritas í Bretlandi og nefnist vottunin ISO 14064 vottun, ef einhver veit hvað það merkir. Sjá nánar hér. Myndin tekin í ágúst 2018. Mynd: Sig.A.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir yfirleitt hluta hvers pistils en pistill dagsins er birtur í heild.

Hús dagsins: Laxdalshús, Hafnarstræti 11. (230 ára í ár)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 07:00

Keiluspil

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. janúar 2025 | kl. 11:30

Bixímatur

Jóhann Árelíuz skrifar
12. janúar 2025 | kl. 10:00

Geðheilbrigðisþjónusta – Skipulag, samvinna og stjórnun

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. janúar 2025 | kl. 09:00

„Aumingja þessi, öllum er sama um hann!“

Orri Páll Ormarsson skrifar
10. janúar 2025 | kl. 12:00

Desember 1915

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
09. janúar 2025 | kl. 21:00