Fara í efni
Umræðan

Að útrýma sárafátækt

Á undanförnum mánuðum og reyndar allt frá síðasta ári hafa fleiri og fleiri hér í okkar nærsamfélagi upplifað sárafátækt á eigin skinni. Í hugtakinu sárafátækt felst sá skilningur að geta ekki veitt sér það sem telst eðlilegt í samfélaginu eins og t.d. að borða heitan mat daglega, getað borgað reikninga, leyft börnum að stunda tómstundir og farið til tannlæknis svo eitthvað sé nefnt. Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á afleiðingum sárafátæktar til lengri tíma og benda niðurstöðurnar til þess að almennt glími fólk við heilsubrest, þunglyndi, félagslega einangrun og veikari stöðu á vinnumarkaði. Fátækt í frumbernsku er talin hafa alvarlegri afleiðingar í för með sér og getur fest einstaklinginn í fátæktargildru til framtíðar.

Hverjir eru í mestri hættu?

Í greiningarskýrslu Hagstofunnar sem gerð var 2008 um sárafátækt þá eru það einstæðir foreldrar og einhleypt barnlaust fólk sem er í mestri hættu á að lenda í sárafátækt. Allt lágtekjufólk er í áhættuhópi og má þar helst nefna öryrkja sem reyna að draga fram lífið á örorkunni einni saman og eru um leið að glíma við heilsubrest sem getur einnig kostað þá töluverðar fjárhæðir.

Þung spor

Það eru þung spor að leita á náðir hjálparsamtaka en sumir hafa sannarlega ekkert val um annað. Þegar húsaleigan og allir reikningar hafa verið greiddir þá stendur ekkert eftir. Samkvæmt upplýsingum frá Velferðarsjóði Eyjafjarðar sem er samvinnuverkefni Mæðrastyrksnefndar, Hjálpræðishersins, Hjálparstarfs kirkjunnar og Rauða krossins, hafa beiðnir um aðstoð frá sjóðnum aukist gríðarlega mikið og nú þegar hefur verið úthlutað hærri upphæð úr sjóðnum en allt árið í fyrra. Langflestir þeirra sem leita til sjóðsins eru á örorku eða framfærslu sveitarfélagsins. Matargjafir Akureyri og nágrennis sem er rekið af einstaklings frumkvæði Sigrúnar Steinarsdóttur afgreiðir að jafnaði átta beiðnir daglega. Að hennar sögn er hópurinn sem sækir sér mataraðstoð fjölbreyttur, fólk á öllum aldri sem á það sameiginlegt að eiga ekki fyrir mat svo dögum skiptir.

Að bregðast við strax

Í lok árs 2020 var sett fram aðgerðaráætlun um sárafátækt á vegum Reykjavíkurborgar. Þar var sárafátækt barna kortlögð og lagðar voru fram tillögur í aðgerðaráætlun um það hvernig mætti draga úr barnafátækt og afleiðingum hennar. Lagt var upp með að greiða skólamáltíðir fyrir börn og hækka tómstundastyrki. Lang áhrifamesta aðgerðin var samt sem áður talin vera sú að aðstoða foreldra við að stunda launaða vinnu.

Blákaldur veruleikinn er sá að hér á Akueyri býr fólk á öllum aldri við sárafátækt. Sárafátækt er alvarleg staða og staðreyndirnar tala sínu máli. Fjöldinn sem leitar á náðir hjálparstofnana eykst mánuð frá mánuði þar sem óðaverðbólga geisar, leiguverð er á uppleið, matarkarfan rýkur upp og bensínverð einnig, um leið rýrnar kaupmátturinn.

Ljóst er að bregðast þarf strax við ástandinu á margvíslegan hátt til að draga úr skaðlegum áhrifum sárafátæktar. Það mætti t.d. gera með því að hækka fjárhagsaðstoð einstaklinga sem þurfa að leita á náðir sveitarfélagsins en hæsti styrkur sem veittur er, er um 184 þúsund krónur á mánuði í samanburði við 217 þúsund krónur hjá Reykjavíkurborg. Hækka þarf tómstundastyrki til barna sem eru nú 40 þúsund krónur einu sinni á ári, til samanburðar er þessi styrkur hjá Reykjavíkurborg 75 þúsund krónur. Bjóða ætti öllum börnum fría máltíð í grunnskólum og tryggja þannig eina heita máltíð á dag og loks aðstoða öryrkja við að virkja starfsgetu sína þannig að þeir geti verið í launuðu starfi upp að skerðingarmörkum. Ábyrgð starfsmanna bæjarins og bæjarfulltrúa er mikil þegar kemur að því að forgangsraða fjármunum sveitarfélagsins en flestir hljóta að vera á þeirri skoðun að velferðarbærinn Akureyri getur ekki setið hjá aðgerðarlaus.

Málfríður Þórðardóttir er varabæjarfulltrúi Flokks fólksins á Akureyri

Hugvekja á Ýli

Hildur María Hansdóttir skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 15:30

Framtíðin er núna

Ingvar Þóroddsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 13:00

Valdið til fólksins – lykillinn að sterkara þjóðfélagi

Theodór Ingi Ólafsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 12:00

Félagshyggja hvað er nú það?

Haraldur Ingi Haraldsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:19

Blórabögglar og gylliboð frá vinstri

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 20:00

Lykill að áframhaldandi velgengni

Birgir Orri Ásgrímsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 18:50