Ýmiskonar afþreying kynnt á bókasafninu
- „Bogfimisetrið er fyrir byrjendur sem lengra komna, öll þau sem hafa áhuga á að prufa bogfimi,“ segir í kynningu. Facebook síða setursins: https://www.facebook.com/Bogfimisetrid
- „Sólarmusterið skóli friðar býður upp á styttri og lengri námskeið og einkatíma sem hafa það að meginmarkmiði að skapa frið hið innra svo að þú getir síðan skapað frið hið ytra og um allan heim.“ Facebook síðan: https://www.facebook.com/solarmusterid
- „Veðurfölnir er hópur áhugamanna um menningu og bardagalist víkinga!“ segir í tilkynningu frá safninu. Facebook síða þeirra er https://www.facebook.com/Vedurfolnir.AK
„Við fengum þessa hugmynd í vinabæ Akureyrar í Finnlandi, Lathi, þar sem ýmis félög og hópar koma reglulega á bókasafnið og kynna starf sitt fyrir gestum og gangandi,“ segir Dagný Davíðsdóttir, verkefnastjóri viðburða og kynningarmála á Amtsbókasafninu, um þessa nýju viðburðaröð.
Á viðburðinum verða allt að 4 félög eða samtök í einu, kynnt verður hvað felst í þeirra starfi og hvernig sé hægt að slást í hópinn. Þetta er hugsað fyrir fullorðna til að kynnast nýjum áhugamálum og nýju fólki. Ekki er um fyrirlestra eða kynningar að ræða heldur verður hver hópur með sitt borð með upplýsingum og fólki til að spjalla við.
Dagný segir að samband hafi verið haft við fjölmarga en hún hvetur alla sem hafa áhuga á að koma og kynna sig að hafa samband í gegnum netfangið dagny.davidsdottir@amtsbok.is
Næsti viðburður í röðinni verður eftir þrjár vikur, mánudaginn 24. febrúar. Þá verða kynnt Kvæðamannafélagið Gefjun og Leiklistarskóli Leikfélags Akureyrar. Einhverjir fleiri verða reyndar á staðnum en ekki er staðfest hverjir.