Fara í efni
Menning

Staðurinn, þar sem trúin og listin sameinast

Ljósmynd: Eyþór Ingi Jónsson.

Akureyrarkirkja er nú formlega kennd við þjóðskáldið séra Matthías Jochumsson. Sóknarnefnd kirkjunnar samþykkti á fundi í dag að formlegt heiti sé frá þeirri stundu Akureyrarkirkja – kirkja Matthíasar Jochumssonar, eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í kvöld – sjá hér.

Í gegnum tíðina hefur Matthíasarkirkja oft verið einskonar hliðarheiti Akureyrarkirkju, eins og Ólafur Rúnar Ólafsson, formaður sóknarnefndar orðaði það í dag, og mjög langt er síðan fram komu hugmyndir um að tengja kirkjuna formlega nafni séra Matthíasar.

Séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, skrifaði nokkrar greinar fyrir Akureyri.net í tilefni 80 ára afmælis kirkjunnar í nóvember árið 2020. Þá sagði hann m.a. ítarlega frá grein sem Jónas Jónsson frá Hriflu, þá alþingismaður og formaður Framsóknarflokksins, birti í jólablaði Tímans árið 1940. Greinina kallaði Jónas Matthíasarkirkja á Akureyri og vildi, eins og nafn greinarinnar ber með sér, kenna kirkjuna við séra Matthías.

Muna eftir gömlum presti ...

Jónas frá Hriflu sagði meðal annars í greininni: „Nálega engin listaverk eru svo fullkomin, að ekki megi sjá á þeim einhver lýti. Svo er og um kirkjumál Akureyrar. Framkvæmd þessi er öll hin lofsamlegasta, nema að einu leyti. Bæjarbúar eru ekki almennt farnir að heimta, að þessi kirkja sé kennd við sr. Matthías. Þessir menn muna eftir gömlum presti í bænum, sem var í öllum venjum og háttum eins og þeir, góðlyndur, bjartsýnn Akureyrarbúi, sem andaðist þar í hárri elli og var grafinn upp í kirkjugarði. Þessum mönnum finnst ekki nægilegt tilefni að helga honum þessa kirkju, þó að hann væri þjóðskáld. Hann hafi þó aðeins verið mennskur maður eins og þeir. Þessi gagnrýni samvistarmanna er engan veginn bundin við Akureyri. Jafnvel Jesús Kristur gat ekki gert kraftaverk í ættborg sinni. Þar mundi fólkið eftir því, að hann var sonur Maríu og trésmiðsins.“

Trúarlegt listaverk 

Séra Svavar Alfreð sagði í greininni fyrir tveimur árum:

Mín skoðun er sú, að nú sé komið að því að gera kirkjuna á Grófargilshöfðanum enn fegurri og kalla hana það sem höfundar hennar vildu nefna hana.

Matthíasarkirkja á Akureyri var byggð sem trúarlegt listaverk. Megi hún halda áfram að vera staðurinn við enda himnastigans, þar sem trúin og listin sameinast í anda mesta listamanns sem bærinn hefur eignast.“

Ekki var að undra að séra Svavar lýsti yfir sérsakri ánægju með ákvörðun sóknarnefndar í dag.

Smellið hér til að lesa grein séra Svavars Alfreðs sem birtist á Akureyri.net í nóvember 2020.

Úrklippa úr jólablaði Tímans árið 1940, þar sem Jónas frá Hriflu lagði til að Akureyrarkirkja yrði nefnd eftir séra Matthíasi Jochumssyni.