Fara í efni
Menning

Hátíðarmessa í Akureyrarkirkju í dag

Mynd: Eyþór Ingi Jónsson

Hátíðarmessa verður í Akureyrarkirkju kl. 14.00 í dag. Messan er tileinkuð séra Matthísi Jochumssyni en 150 ár eru síðan hann samdi sálminn Lofsöng, sem síðar varð þjóðsöngur Íslendinga.

Í dag er einnig 84 ára vígsluafmæli Akureyrarkirkju; hún var vígð sunnudaginn 17. nóvember árið 1940 og var þá mikið um dýrðir í bænum eins og Akureyri.net rifjaði á 80 ára afmælinu fyrir fjórum árum – hér og hér.

Kristín Þóra Kjartansdóttir, staðarhaldari á Sigurhæðum, mun í hátíðarmessunni fjalla um Matthías Jochumsson undir yfirskriftinni Öll snilli, þar sem hún mun m.a. tala um útilegumenn, innvígða, ólíka afstöðu, lífsleiðir, trú og skilning, umburðarlyndi og samkennd.

Allur kirkjukórinn mun syngja í messunni sem og Eldri barnakór kirkjunnar. Stjórnendur og organistar eru Eyþór Ingi Jónsson og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir.

Allir prestar kirkjunnar þjóna við messuna, séra Hildur Eir Bolladóttir sóknarprestur, séra Jóhanna Gísladóttir og séra Aðalsteinn Þorvaldsson.

Að lokinni messunni verður hið árlega kaffihlaðborð Kvenfélags Akureyrarkirkju og lukkupakkasala í safnaðarheimili kirkjunnar. Safnað verður fyrir nýjum stólum í safnaðarheimilið.

  • Í nóvember árið 2020, þegar 80 ár voru frá vígslu Akureyrarkirkju, skrifaði séra Svavar Alfreð Jónsson, þáverandi sóknarprestur, bráðskemmtilegar greinar fyrir Akureyri.net um kirkjuna fallegu og margvíslegt starf þar í áratuganna rás. Svavar Alfreð rifjaði þá m.a. upp ummæli Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins, sem teiknaði kirkjuna. Hann kvað upp úr með að þetta væri fegursta kirkjustæði sem hann hefði séð, bæði hérlendis og erlendis!

Hér er sjötta og síðasta greinin í flokki séra Svavars – í henni eru hlekkir í hinar fimm: