Fara í efni
Menning

Mikilvægt að varðveita kjarna mennskunnar

Jóhanna Gísladóttir prestur í Akureyrarkirkju. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Um hátíðarnar birtir Akureyri.net predikanir prestanna við Akureyrarkirkju og Glerárkirkju.

Séra Jóhanna Gísladóttir predikaði við aftansöng í Akureyrarkirkju í dag, gamlársdag.



Guðspjall gamlársdags er dæmisaga Krists um fíkjutréð og birtist okkur í Lúkasarguðspjalli. Dæmisöguna er hægt að lesa hér, þrettándi kafli, vers 6-9.

 

Gleymdur er fuglasöngur gærdagsins,
hljómaði hann þá aldrei?
Gleymdur er sjálfur gærdagurinn,
var hann þá aldrei?

Þessar heimspekilegu vangaveltur er að finna í fornu kvæði frá Mesópótamíu sem ritað var minnst árþúsund fyrir fæðingu Krists. Það birtist í formála bókarinnar Guli kafbáturinn eftir Jón Kalmann og hefur verið mér ofarlega í huga á árinu sem er að líða.

Manstu hvar þú varst stödd eða staddur fyrir áratug síðan? Áramótin 2014.

Hvað var þér ofarlega í huga á þeim tíma?

Og hvert var áramótaheit þitt fyrir komandi ár?

Kannski manstu það, þó líklega ekki. Sum áramót eru eftirminnilegri en önnur og veisluhöld fortíðar eiga það til að blandast saman í einn hrærigraut í minningunni. Hið sama má segja um ævina sjálfa, sum tímabil hennar eru vissulega eftirminnilegri en önnur. Það verður að viðurkennast. En er hið gleymda þá markleysa eða hefur allt sem var, áhrif á það sem er og verður?

Fyrir tíma offramboðs fréttaannála þótti vel við hæfi að prestur í predikunarstól á gamlársdag færi yfir helstu viðburði ársins sem var að líða. Einstaka prestur nýtti jafnvel tækifærið á þessum tímamótum til að áminna eða jafnvel ávíta sóknarbörn fyrir syndir drýgðar á árinu og tók hver til sín skömmina sem átti.

Þekkt er gamansaga af presti í Bandaríkjunum sem fannst hann hafa eytt fullmiklum tíma í hjónaviðtöl og afskipti af fjölskylduerjum á árinu sem var að líða og óskaði þess heitast að breyting yrði á hátterni sóknarbarna sinna á nýju ári. Brá hann á það ráð að telja upp í stafrófsröð þau sóknarbörn er gerst höfðu sek um hjúskaparbrot á liðnu ári í þeirri von að þau sæju villu síns vegar áður en nýtt ár gengi í garð. Eða í það minnsta forðuðust að lenda á sama lista að ári. Hvort tilraunin bar árangur hjá prestinum veit ég ekki en þið getið huggað ykkur við að ég mun hlífa ykkur við slíkri upptalningu hér í dag.

En að öllu gríni slepptu þá er sú hefð að rifja upp markverða viðburði ársins góð og gild. Það hressir, bætir og kætir að minnast þess gleðilega sem árið færði okkur. Og sömuleiðis okkur öllum hollt að ræða lærdóminn sem við getum dregið af erfiðleikum og mistökum, að horfast í augu við sársauka og vonbrigði ársins sem er að hverfa okkur sjónum. Því öll þurftum við að takast á við erfiðleika af einhverju tagi.

Mennskan hefur verið í brennidepli á árinu sem er að líða og við sem samfélag höfum meðal annars þurft að horfast í augu við þá staðreynd að börnunum okkar og ungmennum líður ekki alltaf nægilega vel. Við höfum líka orðið vitni að því að lýðræði í heiminum er brothætt, að sífellt þarf að berjast fyrir áunnum mannréttindum svo þau hverfi okkur ekki sjónum og af einhverjum óþekktum orsökum lærir manneskjan, samfélagið og heimurinn allur ekki alltaf af mistökum fortíðar.

Já árið var viðburðaríkt á svo marga vegu líkt og fréttaannálar endurspegla nú í lok árs. Við eldheitir aðdáendur fjölmiðlamannsins Boga Ágústssonar fengum að heyra það margoft í pistlum hans um erlenda pólitík á Rás 1 að aldrei hafa farið fram kosningar í fleiri löndum á einu ári en nú í ár. Og ekki létu Íslendingar sitt eftir liggja í þeim efnum en við kusum okkur nýjan forseta, nýja ríkisstjórn sem og nýjan biskup á árinu, geri önnur ríki betur!

Þótt ekki sé hægt að líta framhjá því að margt reyndi á okkur sem samfélag á liðnu ári og ýmislegt hefði svo sannarlega mátt betur fara þá er mikilvægt að muna það, og segja það upphátt sem oftast, að heimurinn batnandi fer, þrátt fyrir allt. Því höldum við á lofti svo við bugumst ekki yfir kvöldfréttunum heldur varðveitum trú okkar á hið góða í manneskjunni og hið fallega í samfélaginu okkar. Því þótt mikilvægt sé að vera upplýstur og virkur þátttakandi í lýðræðissamfélagi þá er ekki síður mikilvægt að varðveita innra með okkur kjarna mennskunnar. Kjarnann sem er samkennd og samlíðan með öðrum, löngunin til að styðja og hjálpa þegar færi gefst og trúin á batnandi tíð með blóm í haga. Þennan mennska kjarna fengum við í vöggugjöf frá almættinu sjálfu og hann ber að vernda eins og gull og gimsteina framar öllu öðru. Því vonlaus og trúlaus erum við til lítils megnug.

Jesús minnti okkur stöðugt á að gera gott ef, og þegar tækifæri gefst. Sama hversu máttlaus við upplifum okkur og sama hversu smátt við teljum framlag okkar vera.

Guðspjall þessa síðasta dags ársins er sígild dæmisaga um að gefast ekki upp á að rækta hið góða þó það beri ekki árangur strax. Þótt ávöxtur erfiðis okkar sé fæstum sýnilegur. Jafnvel þótt við þurfum ítrekað að byrja upp á nýtt, jafnvel þótt við missum vonina eitt augnablik. Verðugt verkefni beri alltaf erindi sem erfiði að lokum. Þannig getur örsmáa frækornið sem við gróðursetjum í dag haft mikil áhrif á líðan okkar og annarra síðar meir. Því þótt gærdagurinn falli í gleymskunnar dá ásamt metnaðarfullum áramótaheitum þá hefur hvert og eitt einasta verk sem unnið er af góðum hug áhrif, með einum eða öðrum hætti.

Kæru vinir. Nú bjóðum við velkomið nýtt ár, sem kemur færandi hendi og leggur á veisluborðið eitthvað framandi sem við höfum aldrei bragðað áður. Hver dagur hér á jörð er nýtt upphaf og hvert ár einstakt á alla vegu. Og þótt fenni fljótt yfir hátíðarhöld kvöldsins í vitund okkar og sömu áskoranir mæti okkur á morgun og við glímdum við í dag, þá mun allt sem við upplifðum á árinu sem er að líða lifa með okkur og gera okkur hæfari til að takast á við það sem bíður okkar. Já, jafnvel þótt fuglasöngur gærdagsins hverfi úr vitund okkar þá lifir gleði fortíðar innra með okkur sjálfstæðu lífi ef einungis við nærum hana með reglubundnum hætti.

Hefur það rifjast upp fyrir þér nú hvar þú varst og hver þú varst fyrir 10 árum? Og hefurðu leitt hugann að því hvar þú verður eftir annan áratug, árið 2034?

Guð gefi að nýtt ár færi okkur styrk til þess að breyta því í lífum okkar sem þarf að breyta, að við þreytumst ekki að gera það sem gott er á meðan nýr dagur rís og síðast en ekki síst styrki og efli tengsl okkar við Guð sem blessar góð verk handa okkar. Megi Kristur ganga okkur samferða inn í nýtt ár, fylla hjörtu okkar von fyrir komandi tíð og blessa hvert barn, hverja manneskju sem gengur þessa jörð.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen