Flugmaður, arkitekt eða læknir?
Það er engin ein skýring á því af hverju ég gerðist flugmaður. Ég hafði áhuga á flugi eins og gengur, átti mikið af flugmódelum og hafði mjög gaman af að velta samsetningu þeirra fyrir mér. Á unglingsárunum fór ég á námskeið hjá Dúa Eðvaldssyni til að gera módelsvifflugur. Ég kynntist svo fluginu einnig lítillega hjá mági móðursystur minnar, sem var einkaflugmaður í La Jolla, sem er bær í nágrenni borgarinnar San Diego í Kaliforníu. Mér var einu sinni boðið að fljúga með honum frá Lake Tahoe heim til La Jolla. Ég var þá 16 ára og mér fannst þetta mjög skemmtilegt, þá kviknaði neisti innra með mér.
_ _ _
Svo mælir Sigurður Aðalsteinsson flugstjóri í viðtali við Kristínu Aðalsteinsdóttur sem birtist í nýjasta hefti Súlna, tímarits Sögufélags Eyfirðinga.
- Kristín er í ritnefnd Súlna en ritstjóri er Jón Hjaltason. Það hefur orðið að samkomulagi að Akureyri.net birti annað veifið kafla úr greinum sem komið hafa í tímaritinu. Kristín lagði spurningar fyrir Sigurð og fer hluti svara hans hér á eftir.
- Akureyri.net vekur athygli á því að hægt er að gerast áskrifandi að Súlum með því að senda póst á gjaldkera stjórnar - jhs@bugardur.is
_ _ _
Stoltir foreldrar, Aðalsteinn Sigurðsson og Alice Julia Sigurðsson með einkasoninn í fanginu. Myndin er tekin 1948 en Sigurður fæddist fullveldisdaginn 1. desember 1947.
Foreldrar mínir voru Aðalsteinn Sigurðsson, menntaskólakennari (f. 1921. d. 2015) og Alice Julia Sigurðsson [f. Soll], grafískur hönnuður (f. 1921, d. 2011). Pabbi var fæddur inni í fjöru á Akureyri, í Aðalstræti 76. Afi minn og amma, Elinborg Jónsdóttir og Sigurður Sölvason voru þar með smá búskap, meðal annars kýr eins og margir á þeim árum og með kindur uppi á Höfðanum.
Mamma var aftur á móti alin upp við Lake Tahoe í Sierra Nevada fjöllunum í Kaliforníu í Bandaríkjunum, ekki þar sem ávextirnir og vínberin vaxa, heldur í 2000 metra hæð í algjöru dreifbýli. Þar var mikill snjór á veturna og því hófst skólaganga mömmu seint, snjóþyngslin voru slík að ekki var rutt á veturna. Foreldrar mömmu, afi minn og amma voru ekki bændur, heldur land- og húsverðir fyrir auðuga fjölskyldu, sem bjó í San Francisco, en átti sumardvalarstað þarna við vatnið.
Afi og amma kynntust í Washington þar sem afi vann við landmælingar undir stjórn föður hennar, langafa míns. Þau fluttu sig um set, þegar þeim bauðst landavarðarstarfið við Lake Tahoe. Svo háttaði til, að afabróðir minn var einkabílstjóri þessarar sömu fjölskyldu í San Francisco og hvatti hann afa og ömmu til að sækja um landvarðarstarfið við Lake Tahoe. Þegar þau voru þangað komin keypti afi skammbyssu fyrir ömmu svo hún gæti varið sig, ef á hana yrði ráðist. Þessi byssa er nú í minni vörslu. Villidýrin þarna í fjöllunum eru reyndar ekki talin ýkja hættuleg, og ég veit ekki til þess að amma hafi þurft að grípa til byssunnar. Þó var það eitt sinn þegar hún var eitthvað að bjástra utanhúss að hundurinn hennar, sem hafði verið að snuðra í skóginum, kom á harða hlaupum til hennar með bjarndýr á hælunum. Þá greip amma spýtu og barði bangsa í hausinn og við það forðaði hann sér hið snarasta. Mér skildist á mömmu að afi hefði skammað ömmu fyrir að koma sér í þessa aðstöðu!
_ _ _
Fórst með Goðafossi
Árið 1941 hóf pabbi nám í sögu við University of California, Berkeley og lauk prófi á þremur árum. Mamma stundaði nám við California School of Arts and Crafts, þegar þau pabbi kynntust. Um það leyti sem pabbi ætlaði að hefja meistaranám, síðsumars 1944, barst honum símskeyti frá Sigurði skólameistara Menntaskólans á Akureyri, þar sem hann bauð pabba stöðu sögukennara við skólann, en hann yrði að koma strax, ef hann vildi stöðuna. Pabbi varð að bregðast skjótt við, ákvað að slá til og lagði af stað heim.
Þegar pabbi kom til New York fór hann beint á skrifstofu Eimskips til að kanna með ferð til Íslands. Hann fékk að vita af skipi sem færi til Íslands eftir tvo daga, en því miður væri allt uppbókað. Pláss væri hins vegar með Goðafossi eftir tæpan mánuð. Pabbi tók þessu með stillingu og fékk sér hótelgistingu. Daginn eftir var haft samband við hann og honum sagt að einn farþeganna hefði hætt við og fært sig yfir á Goðafoss, og því væri laust pláss. Pabbi lét auðvitað ekki segja sér það tvisvar. Ferðir með skipalestum á stríðsárunum voru erfiðar og hættulegar. Frá New York lá leiðin um Skotland og tók um það bil mánuð. Pabbi slapp heill á húfi og kom heim í tæka tíð til að hefja kennsluna við MA.
Það er hins vegar af manninum að segja, þeim sem frestaði heimferðinni og færði sig yfir á Goðafoss, að hann mun hafa farist þegar skipið sökk eftir kafbátaárás við Garðskaga. Pabbi hafði oft orð á þessu hræðilega atviki og hve atburðarásin getur verið tilviljanakennd.
_ _ _
Sniðugt að gifta sig í Reno
Þegar pabbi ákvað að þiggja kennarastöðuna á Akureyri bundust foreldrar mínir heitböndum og sat mamma í festum í eitt ár. Hún hafði lokið sínu námi, þegar hér er komið sögu og var svo heppin að fá strax vinnu á þekktri auglýsingastofu í San Fransisco. Hún var mjög stolt af því að hafa boðist starf strax að námi loknu en þau hjónaleysin höfðu þó tekið ákvörðun um að búa á Íslandi. Ákvörðunin var stór og reyndi auðvitað líka á foreldra mömmu, því þá voru samgöngur aðrar en nú eru. Amma mín kom reyndar einu sinni í heimsókn til Íslands. Foreldrar mínir voru hins vegar alveg ákveðin.
Eftir skólaslit fór pabbi út til að sækja hana. Hann flaug út með herflugvél, en stríðinu í Evrópu var þá nýlokið. Áður en þau lögðu af stað til Íslands, giftu þau sig borgaralega, án alls tilstands, í borginni Reno í Nevada og náðu að kaupa búslóð í New York á heimleiðinni. Þessi búslóð er reyndar enn til. Til Íslands komu þau haustið 1945. Borgin Reno er miðstöð verslunar og þjónustu vestast í Nevada, en þekktust fyrir spilavíti og fjörugt næturlíf. Frá Lake Tahoe til Reno er yfir einn fjallveg að fara. Pabbi gantaðist stundum með það, að það væri bráðsniðugt að gifta sig í Reno, því þá væri svo auðvelt fyrir fólk að skilja, það væri ekkert annað en að ganga aftur inn á skrifstofu í Reno og tilkynna skilnaðinn.
_ _ _
Mamma var í hestamennsku
Miðað við forfeður og formæður mömmu, má segja að flutningur hennar til Íslands 1945 hafi verið tiltölulega auðveldur og hún vissi líka meira um það sem beið hennar. Ungu hjónin ferðuðust þvert yfir Bandaríkin með Grayhound áætlunarbílum og með herflutningavél til Íslands. Áætlunarflug Loftleiða til Bandaríkjanna var enn ekki hafið.
Á þessum árum töluðu fáir ensku hér á landi. Það bjargaði mömmu sjálfsagt að pabbi átti góða vini, samkennara og jafnaldra sem hún kynntist. Amma mín Elinborg, reyndist mömmu vel, mamma talaði oft um það, jafnvel þótt amma hafi ekki talað ensku. Á heimili okkar var sú fasta regla að þar var eingöngu töluð enska. Enska er mitt fyrsta mál. Íslenskan kom síðan af sjálfu sér. Það var ákvörðun foreldra minna beggja að hafa þetta svona. Börn eiga svo auðvelt með að læra tungumál og þetta var aldrei erfitt. Ef ég datt í það að tala íslensku heima, var ég minntur á að hún væri ekki tungumálið á heimilinu.
Það hefur áreiðanlega oft verið erfitt fyrir mömmu að vera útlendingur á Akureyri. Hún fór kannski í fermingarveislu og þess háttar með pabba en skildi ekki eitt orð af því sem sagt var og oft talaði enginn við hana. Mamma sat þá oft ein og skildi ekki neitt hvað um var rætt. Ég man næstum orðrétt það sem mamma sagði eitt sinn og ekki bara í gríni: „Þegar ég fór að skilja, þá versnaði þetta bara, því oftast var verið að þylja ættartölur eða tala um fólk, sem ég kunni engin deili á.“
Mamma hélt alltaf góðu sambandi við þá sem hún kynntist í gegnum pabba. En hún kynntist líka mörgum, aðallega þó körlum í gegnum hestamennskuna. Hún var vön hestamennsku frá barnæsku og eignaðist fljótt hesta þegar hún flutti til Íslands. Þá stunduðu ekki margar konur hestamennsku. Hestamenn fóru saman í útreiðartúra, nokkrir þeirra urðu góðir vinir mömmu. Pabbi var ekki mikið fyrir hestamennskuna, hann fór ekki á hestbak ef hann þurfti þess ekki.
_ _ _
Flugmaður, arkitekt eða læknir?
Haustið 1967, eftir að ég lauk stúdentsprófi, var auglýst einkaflugmannsnámskeið hér fyrir norðan. Norðurflug stóð fyrir námskeiðinu og minn fyrsti flugtími var sama haust hjá Tryggva Helgasyni, flugmanni og eiganda Norðurflugs. Við fórum reyndar tveir á námskeiðið, „Sissi,“ Sigurbjörn Hallsson æskuvinur minn og ég. Þá hafði ekki hvarflað að mér að verða atvinnuflugmaður, þetta var allt til skemmtunar gert. Þetta námskeið var í sama húsi og skólinn þeirra Jennu og Hreiðars. Vorið 1968 lauk ég einkaflugmannsprófi hjá Flugfélaginu Frey sf. Kennarar þar voru flugmennirnir Arngrímur Jóhannsson, Jóhannes Fossdal og Torfi Gunnlaugsson.
Árið eftir var ég eigi að síður kominn með skírteini atvinnuflugmanns. Ég hafði lesið undir bóklega prófið utanskóla, og svo var einnig með bóklegan undirbúning fyrir blindflugs-réttindin. Ennþá hafði mér samt ekki komið til hugar að verða atvinnuflugmaður. Ég var eitthvað að velta fyrir mér arkitektúr, því ég hafði gaman af því að teikna, taldist listrænn. Pabbi stakk upp á því að ég yrði tannlæknir, því listir gæfu lítið í aðra hönd. Margt var að brjótast um í höfðinu á mér, og einhvern veginn fékk ég þá flugu í höfuðið að ég ætti að fara í læknisfræði. Þá var komið þetta fyrirkomulag með „klásus,“ svo það var ekkert grín. Það var ekki nóg að vera nógu góður, þú þurftir að vera betri en flestir aðrir. Það var ég auðvitað ekki.
Ég hóf þó nám í læknisfræði haustið 1969 og þraukaði fram að jólum. Þá var auglýst námskeið í siglingafræði fyrir þá sem ætluðu að verða siglingafræðingar hjá Loftleiðum. Teningunum var kastað, þarna átti ég heima. Ég var búinn að fljúga talsvert. Hafði keypt helmingshlut á móti Jóhannesi, flugkennaranum mínum, í gamalli vél, sem ég notaði óspart til að safna flugtímum. Við eigum þessa vél, TF-LBP ennþá, flugvél sem var reyndar fyrsta sjúkraflugvél Björns Pálssonar. Ég hafði líka verið í svifflugi og búinn að afla mér nokkurrar reynslu á því sviði. Nú fór ég alfarið að hugsa um flugið þótt atvinnu væri varla að fá. Þetta var staðan á vordögum 1970. Samfara siglingafræðinni lærði ég undir verklega blindflugsprófið hjá Arngrími Jóhannssyni.
_ _ _
Austurflug, Norðurflug og Flugfélag Norðurlands
Félagi minn í flugnáminu og jafnaldri frá Akureyri, Gunnar Þorvaldsson, var í sömu sporum. Við komumst að þeirri niðurstöðu að besta ráðið væri að stofna flugfélag og það gerðum við í maí 1970. Það var komið flugfélag fyrir vestan og að sjálfsögðu á Akureyri, en á Egilsstöðum var ekkert flugfélag. Við ákváðum því að staðsetja flugfélagið þar undir heitinu Austurflug sf. Björn Pálsson hafði reyndar verið með flugvél staðsetta þar á sumrin nokkrum árum áður. Þannig fór að Björn seldi okkur flugvél af gerðinni Cessna 180 og fékk einn flugmanna sinna til þess að kenna okkur á vélina og fórum við að því búnu með hana austur. Við Gunnar þurftum að skiptast á um að fljúga, því ekki voru alltaf nægileg verkefni fyrir okkur báða hjá litla flugfélaginu okkar. Austurflug sf. rákum við fram á haustið 1971. Gunnar hafði hafið störf hjá Loftleiðum eftir áramótin 1971, en ég fékk vinnu sem flugmaður hjá Norðurflugi hér á Akureyri í júní sama ár.
Árið 1974 keypti ég ásamt fimm þáverandi og fyrrverandi starfsmönnum Norðurflugs flugfélagið Norðurflug af Tryggva Helgasyni. Það bar þannig til að Tryggvi ákvað haustið 1974 að selja flugfélagið. Ég var staddur með foreldrum mínum í Kaliforníu í heimsókn hjá móðursystur minni þegar mér barst símskeyti frá Jóni Karlssyni flugvirkja og samstarfsmanni mínum um að Tryggvi ætli að selja flugfélagið. „Þú verður að koma heim,“ minnir mig að hafi staðið í skeytinu. Þetta endaði þannig að við Jón, Jóhannes Fossdal, Níls Gíslason, Skarphéðinn Magnússon og Torfi Gunnlaugsson keyptum Norðurflug. Við þessar breytingar æxlaðist það svo að ég varð framkvæmdastjórinn og eftir það öllu meira á skrifstofunni en ég hefði óskað, en flaug þó alla tíð með stjórnsýslunni. Til að byrja með rákum við félagið sem Norðurflug sf. en breyttum nafninu í Flugfélag Norðurlands sf. árið 1975 og síðar sama ár í Flugfélag Norðurlands hf. þegar Flugleiðir gerðist 35% hluthafi í félaginu. Hjá FN eins og félagið var nefnt í daglegu tali var ég framkvæmdastjóri, flugrekstrarstjóri og flugmaður frá 1974 til 1997.
Síðan gerðist það árið 1997 að Flugleiðir eignuðust 65% hlut í Flugfélagi Norðurlands og nafni félagsins var breytt í Flugfélag Íslands ehf. Þá hætti ég sem framkvæmdastjóri félagsins en var áfram flugrekstrarstjóri til að byrja með og flugmaður allt til haustsins 2012, þegar ég lét af störfum sem yfirflugstjóri við 65 ára aldur.
. . . . .
Ég hef verið lánsamur flugmaður. Flugið byggist að sjálfsögðu á ákveðinni færni, sem lærist, en ég hef líka verið heppinn. Starf flugmanna felst m.a. í því að forðast áhættu eða draga úr henni eftir því sem kostur er. Þeir meta aðstæður og velja besta kostinn og gæta þess jafnframt að eiga helst fleiri en eina „undankomuleið,“ ef svo má að orði komast.
Flugvélarnar og siglingatæknin hafa þróast hratt og allur búnaður er orðinn ansi fullkominn en veður geta enn breyst mjög hratt og valdið erfiðleikum. Sjálfur hef ég sjaldan lent í erfiðum aðstæðum sem flugmaður. Mér finnst alltaf skemmtilegt að fljúga.
_ _ _
Breyttir tímar með Helenu Dejak
Ég giftist seinna en flestir, margir eiga konu númer tvö, þegar tími var kominn til að ég fyndi mér konu. Líf mitt breyttist mjög mikið þegar ég kynntist Helenu Dejak og varð ástfanginn af henni. Hún rak þá ferðaskrifstofu og ég var í fluginu, þannig að störf okkar sköruðust. Hún þurfti stundum á flugvélum að halda og kom þá inn á skrifstofuna til mín. Mér leist strax vel á Helenu. Það var samt ekki ást við fyrstu sýn, þetta var bara tilfinning sem óx en þó nokkuð hratt. Mér fannst Helena mjög hress, skemmtileg og uppátækjasöm. Ég sá fljótt að hún hafði allt aðra sýn á margt en margir sem ég umgengst og skoðanir okkar lágu víða saman. Við tvö, sem rákum Flugfélag Norðurlands og Ferðaskrifstofuna Nonna vorum til dæmis oft saman á ráðstefnum Vest-Norden.
Hjónin á skíðum við Tóbínhöfða á Grænlandi árið 2018. En þar við Scoresbysund eiga þau sitt eigið hús. Skíðaganga vefst ekki fyrir Sigurði sem var um skeið keppnismaður í íþróttinni og landsliðsþjálfari.
Þáttur í því að ég kvæntist ekki fyrr en um fertugt eða gaf mér ekki tíma til að líta í kringum mig, var áreiðanlega sá að ég var nánast altekinn af flugrekstrinum og hafði unnið nánast myrkranna milli til fjölda ára. Ég var oft svakalega upptekinn, Ég vann til dæmis oft fram undir klukkan sex á aðfangadag og gamlársdag, þá var næðið mest.
Við Helena fórum fljótt að ferðast mikið saman, fyrst hér innanlands en líka erlendis. Í Bandaríkjunum heimsóttum við skyldfólk mitt og einnig fólk sem Helena þekkti. Systir Helenu býr í Victoria í Kanada og þangað fórum við. Helena á tvo syni frá fyrra hjónabandi og þeir þurftu að kynnast mér og ég þeim. Þeir bræðurnir hafa því oft ferðast með okkur, báðir tveir.
Ég fetaði í fótspor pabba og fann mér erlenda konu, þó ekki bandaríska. Helena er frá Slóveníu. Ég ólst upp á heimili þar sem húsfreyjan var erlend. Ég vissi alltaf af því að heimilið var ekki hefðbundið íslenskt heimili, siðir og venjur okkar voru talsvert ólíkar því sem gerðist á íslenskum heimilum. Ég er samt ansi mikill Íslendingur þegar öllu er á botninn hvolft. Ég er kannski ekki besti maðurinn til að tala um tillitssemi og kurteisi en við höfum mörg tekið eftir því að enskumælandi fólk er afburða kurteist og kurteisi virðist nátengd enskri tungu. Sjálfum finnst mér þetta eiga við bæði í Bretlandi og í Norður Ameríku. Þetta er svo undarlegt og á bæði við um mannleg samskipti og hegðun í umferðinni. Frekjan í Skandinavíu og víða í Evrópu er miklu meiri en sést á Bretlandseyjum og í til dæmis Bandaríkjunum. Fullorðið fólk hér á landi og víðar hlustar illa á það sem aðrir segja, talar mikið um sig sjálft og hvorki fullorðnir né krakkar bíða eftir að aðrir ljúki máli sínu.
Þegar Íslendingar segja frá einhverju segja þeir: „Ég og vinir mínir…“ en í Bretlandi eða Bandaríkjunum segir fólk: „Vinir mínir og ég.“ Þar myndu ákaflega fáir hefja setningu á persónufornafninu „ég.“ Það þætti mikil ókurteisi. Alltaf hinir og svo ég. Í þessu felst sannarlega ákveðið viðhorf. Það angrar mig talsvert að Íslendingar, sem margir tala góða ensku, byrja gjarnan setningu á „I, and my friends,“ en það fellur ekki að enskri málvenju eða siðum.
Það var mikil breyting að tengjast maka, orðinn fertugur. En mér fannst þetta allt svo jákvætt, en gerði mér auðvitað grein fyrir að breytingar yrðu á lífi mínu. Við Helena byrjuðum búskapinn í lítilli íbúð, hér á Akureyri. Hún hafði skilið við fyrri mann sinn nokkrum árum áður og yngri sonur hennar, Árni Valur níu ára, fylgdi henni en sá eldri, Vilhjálmur, var hjá föður sínum. Helena var mjög jákvæð og gerði sér örugglega grein fyrir því að að ég væri talsvert viðfangsefni. Hún er nú enn að fást við þetta.
_ _ _
Landið hennar Helenu, Slóvenía
Ég velti landinu hennar, Slóveníu, ekkert beinlínis fyrir mér. Ég hafði reyndar komið þangað einu sinni áður en ég kynntist henni. Það hefur verið einstaklega ánægjulegt að kynnast og geta dvalið í Slóveníu. Fólkið er svo ánægt og glatt. Þannig er menningin. Landið er yndislegt og Slóvenar eru ákaflega gestrisnir. Það er til dæmis bæði þægilegt og skemmtilegt að veitingastaðir eru alls staðar. Ég segi stundum, að ef bíllinn drepur á sér þá er örugglega að finna veitingastað aðeins fáein skref frá bílnum, jafnvel í dreifbýlinu. Ég hef komið til Kanaríeyja sem gestur og þar finnst mér neistinn, gestrisnin horfin, þar virðist víða þjónað til þess einungis að komast í gegnum daginn.
Slóvenía er lítið land fyrir botni Adríahafsins, á aðeins 46 km strandlengju og liggur að Ítalíu, Austurríki, Ungverjalandi og Króatíu, þannig að nágrannarnir eru margir. Í landinu búa um tvær milljónir manna. Höfuðborgin Ljubljana er í miðju landinu og krossgötur þjóðvegakerfisins liggja í gegnum miðja borgina. Að vísu er nýleg hjáleið í kringum borgina. Reykjavík gæti sannarlega lært af skipulaginu þarna. Í Reykjavík er verið að basla við ónýtan miðbæ, hamast við að halda í miðbæ sem er enginn miðbær. Ljubljana er verulega skemmtileg en þar búa um 300 þúsund manns. Aðrar borgir eru líka nokkuð stórar og gott jafnvægi í byggð landsins.
_ _ _
Grænland, Slóvenía og Flórens
Starfsemi Flugfélags Norðurlands var umfangsmikil á austur og norður Grænlandi og við flugmennirnir heilluðumst flestir af stórbrotinni náttúru þessa lands. Helena flaug nokkrum sinnum með mér þangað og ég smitaðist líka. Eitt sinn er við „tókum land“ í björtu veðri, hátt yfir Scoresbysundi var henni litið niður og sá ekki betur en að þarna væri lítið þorp. Ég staðfesti það og hún var ekki í rónni fyrr en við höfðum undirbúið heimsókn þangað. Skemmst er frá því að segja að þar höfum við eignast nána vini og eigið hús á Tóbínhöfða. Helena stofnaði ferðaþjónustufyrirtæki með heimamönnum, sem enn lifir góðu lífi. Við höfum reynt að fara til Ittoqqortoormiit, eins og þorpið heitir, að minnsta kosti einu sinni á ári, en Covid 19 hefur sett svolítið strik í þær ætlanir.
Um hríð höfum við Helena dvalið á veturna til skiptis í Slóveníu og Flórens á Ítalíu, þar sem Helena hefur verið í námi í silfursmíði. Ég er oft spurður hvað ég sé að gera þarna og ég segi að „ég sé bara að horfa á stelpurnar.“ En sannast að segja þá hef ég verið að reyna að læra ítölsku en svo hef ég líka verið að læra að skera og slípa steina. Í Flórens kynntumst við ungum hjónum, hún er gullsmiður og hann er steinaslípari, en hann lærði fagið á stóru verkstæði í ströngum skóla. Slípun steina tengist beinlínis því sem Helena er að gera. Hjá þessum manni fór ég að læra „faceting.“ Þá eru slípaðir á steininn margir flatir fletir, sem mynda munstur eftir ákveðinni forskrift. Gimsteinar eru til dæmis nánast alltaf „fasettaðir,“ en ég hef ekki fengið að koma nálægt þeim enn. Þetta er mikil nákvæmnisvinna, sambland af vélanotkun og handverki. Gallinn er sá að tækin sem til þarf eru ákaflega dýr. En það er alltaf skemmtilegt að læra eitthvað nýtt. En svo sest ég oft upp í strætisvagn og skoða borgina. Það er skemmtilegt. Flórens er lágstemmd borg en samt mjög lifandi. Hún er sannarlega lifandi. Við njótum þess mjög að vera á Ítalíu. Í Toscana eru ótal smábæir, sem eru sérstaklega aðlaðandi og skemmtilegir. Það sem meira er, við þurfum varla að eiga bíl, því almenningssamgöngur eru svo tíðar og öruggar.
_ _ _
Arngrímur Jóhannsson sprellar
Ég byrjaði að læra flug hjá Tryggva Helgasyni en þeir Jóhannes Fossdal, Arngrímur Jóhannsson og Torfi Gunnlaugsson ráku hér flugskólann Frey og þar var ég í skóla. Jóhannes sá lengi um alla þjálfun hjá Flugfélagi Norðurlands og hann kenndi mér flest sem ég kann. Hann lagði mikið á sig í flugþjálfuninni hjá félaginu, meðfram fullu starfi sem flugstjóri hjá Flugleiðum.
Arngrímur Jóhannsson kenndi mér líka mikið, því hann kenndi mér blindflugið. Það er talsvert átak að læra blindflug og margt sem þarf að leggja á minnið. En stundum þarf að kenna einfaldari leiðir, og ekki síst að halda góðri yfirsýn. Arngrímur lagði áherslu á það. Leiðir okkar Arngríms skildu að mestu í mörg ár, þegar hann fór að fljúga fyrir Hjálparstofnun kirkjunnar til Biafra, með Þorsteini Jónssyni og fleiri kempum. Því næst fór hann að fljúga hjá Air Viking og síðan fyrir Arnarflug og stofnaði loks flugfélagið Atlanta. Arngrímur er einn af mínum góðu vinum.
. . . . .
Einu sinni kom Arngrímur og hjálpaði okkur í hálfan mánuð, einhvern tímann þegar hann var milli vita. Einn daginn átti hann að fljúga níu sæta Piper Chieftain út í Grímsey. Þannig var að við áttum ekki einkennisföt á hann. Ég tek hér fram að Arngrímur á til að vera svolítill sprellikarl. Farþegarnir gengu út í vél eins og lög gera ráð fyrir og Arngrímur líka. Hann settist klæddur sínum venjulegu fötum aftast í vélina. Eftir smá stund stóð Arngrímur upp og sagði: „Hvernig er þetta, ef enginn er til að fljúga þessari vél, þá er bara best að ég geri það“, settist í flugstjórasætið og setti í gang. Farþegarnir vissu ekkert hver þetta var og varð auðvitað ekki um sel, áður en hann kynnti sig. Arngrímur hefur kímnigáfuna sannarlega í lagi.
_ _ _
Kristín Aðalsteinsdóttir er fædd í Kelduhverfi 8. maí 1946 en ólst upp í Keflavík og Kópavogi. Hún lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1966 og flutti þá til Akureyrar. Kristín kenndi í barnaskólum á Akureyri í 13 ár, var kennsluráðgjafi fyrir Norðurland eystra í sjö ár, vann við Kennaraháskóla Íslands í sex ár en starfaði einna lengst við Háskólann á Akureyri, þar sem hún varð prófessor. Kristín stundaði nám við Háskólann í Osló og Háskólann í Bristol í Englandi en þaðan lauk hún doktorsprófi árið 2000. Eiginmaður Kristínar er Hallgrímur Indriðason skógfræðingur og þau eiga þrjú börn.