Ása tók á móti jólabarni – komst heim á nýársdag
Ég man greinilega margt sem gerðist þegar ég var barn. Það geta verið atvik sem hljóma hversdagslega, en sem einhverra hluta vegna hafa fest sig í minni mínu. Mörg atvik og frásagnir tengjast fjölskyldu minni og heimili. Ég skaust víst í heiminn, er fædd á Krossum á Árskógsströnd 9. febrúar 1932. Pabbi tók á móti mér. Ljósmóðirin Freygerður Guðbrandsdóttir á Brattavöllum var ekki komin en pabbi fylgdi leiðsögn mömmu. Mamma var reyndar ljósmóðirin í umdæminu Árskógsströnd frá 1. júlí 1929. Hún hóf nám í Ljósmæðraskólanum haustið 1928 og útskrifaðist níu mánuðum síðar og tók þá við umdæminu hér á Árskógsströnd.
- Með þessum orðum hefst viðtal Kristínar Aðalsteinsdóttur við Ásu Marinósdóttur ljósmóður í Súlum, riti Sögufélags Eyfirðinga. Í nýúkomnu hefti Súlna er fjölmargt fróðleiks- og skemmtiefni að vanda og hefur Akureyri.net hefur fengið góðfúslegt leyfi ritnefndar til að birta lesendum sínum fáein sýnishorn þess sem lesa má ítarlegar í Súlum. Hér að neðan eru kaflar úr viðtali Kristínar við Ásu.
Sængurkonur fengu skammir
Ég hóf störf á nýrri fæðingardeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri um miðjan janúar 1954. Dómhildi ljósmóður var úthlutað herbergi á deildinni og fylgdi því lítill gangur og baðherbergi. Hún þurfti sjálf að kaupa rúm, borð og stól og fleira. Við Dómhildur störfuðum saman fram í maí, eða þar til hún lét af störfum vegna veikinda. Hún flutti síðar til Bandaríkjanna og starfaði þar sem hjúkrunarkona. Ekki var ráðin ljósmóðir í stað Dómhildar en ég var látin ein um að sinna fæðingardeildinni það sem eftir var ársins. Ég hafði áður leigt herbergi úti í bæ en flutti mig í herbergið á deildinni, annað var ekki í boði og ég þurfti að kaupa húsgögnin hennar Dómhildar.
Það var trú manna að eingöngu myndu koma á Fæðingardeildina konur sem þyrftu á hjálp sérfræðinga að halda svo sem í sambandi við tangarfæðingu eða keisaraskurð. Aðrar konur myndu áfram fæða heima, því tvær ljósmæður voru starfandi á Akureyri og umdæmisljósmæður voru í mörgum af nágrannasveitunum. En reyndin varð önnur, því alls urðu fæðingarnar 167 þetta fyrsta ár. Eina aðstoðin sem ég hafði á deildinni var ein kona á næturvöktum og ein gangastúlka á tvískiptri vakt á daginn. Hægt var að leita til nokkurra ljósmæðra þegar þurfa þótti, til dæmis gat ég fengið sumarfrí þetta ár, en þá kom Freyja Antonsdóttir frá Dalvík og vann á deildinni í einn mánuð.
Auk fæðinganna og umönnunar á sængurlegunni, þurftum við að sjá um langlegusjúklinga frá lyfjadeild. Á stofu 1 á B-deild voru sex konur og á stofu 2 voru þrír karlmenn, auk þess komu í viðbót stofur 3 og 4 en þar lágu sjúklingar sem lágu skemur á sjúkrahúsinu. Haft var eftir einum karlmanni sem þarna lá að honum þætti niðurlægjandi að vera sprautaður með penisillíni af ljósmóður.
Það var mikil viðbót að sinna þessu fólki öllu og fór ekki alltaf saman við störf ljósmóðurinnar. Á þessum árum var vinnan miklu viðameiri en nú er, meðal annars vegna þess að sængurkonurnar fengu ekki að fara fram úr rúmi fyrr en að morgni fjórða dags, fram að því þurftu þær til dæmis bekken og skolun í rúmunum. En reglur voru reglur og eftir þeim þurfti að fara. Börnin voru öll höfð í barnastofu og þurfti því að trítla með þau inn til mæðranna oft á dag. Einhvern veginn tókst þetta en alltaf var meira en nóg að gera, enda fátt um starfsfólk. Til viðbótar þessu þurftum við að þvo allar bleyjur af börnunum og mig minnir skyrturnar líka. Þvotturinn var hengdur til þerris uppi á háalofti og síðan straujað á deildinni. Sængurkonurnar fengu stundum að strauja, því sængurlegan var það löng að þeim fannst tíminn styttast ef þær fengu eitthvað að starfa.
Til gamans langar mig að segja stutta sögu. Það var bara einn sími á deildinni og hann var á vaktinni. Konur gátu því ekkert farið í símann fyrr en á fjórða degi frá fæðingu. Eitt sinn þurfti ein sængurkonan nauðsynlega að hringja, hún var á þriðja degi sængurlegu. Fengið var leyfi hjá yfirlækninum og konan hringdi. Eftir símtalið og á leið inn í stofuna gat hún ekki á sér setið nema að ganga þessi örfáu skref út að glugganum á ganginum og líta yfir Lystigarðinn, bara eitt andartak. En rétt í því kom yfirlæknirinn á stofugang. Það var ekki heppilegt.
Ég ætla ekki að rekja hér sögu fæðinga og sængurlegu á Íslandi en breytingarnar hafa orðið ákaflega miklar í áranna rás, ekki síst í sambandi við sængurleguna sjálfa. Konur fá ekki lengur skammir fyrir að standa í fæturna, jafnvel strax eftir fæðinguna.
Ljósmóðir í sveit
Það er margs að minnast frá árunum mínum sem ljósmóðir í sveit og þau voru mörg störfin sem ég hafði með höndum sem umdæmisljósmóðir, margt annað en að taka á móti börnum. Í fyrstu starfaði ég í Árskógshreppi, síðan bættust Dalvík og Svarfaðardalur við.
Mér finnst að meiri snjór hafi verið á fyrri árum og þá voru líka mjög seinvirk tæki til að moka snjó af vegum. Ég minnist til dæmis ársins 1966. Þá var mikill snjór og erfiðleikar með samgöngur í febrúar og mars og svo aftur í desember sama ár. Þá var ég sótt frá Dalvík á aðfangadagskvöld kl. 19. Snjóbíll var fenginn til að sækja mig, því allt var kolófært á vegum. Ég tók á móti jólabarninu kl. 23 á aðfangadagskvöld. Var svo þar hjá þeim um nóttina og á jóladag. En nóttina þar á eftir var ég kölluð til konu í sömu götu. Aðeins eitt hús á milli. Þar tók ég á móti barni á annan í jólum. Þegar ég var búin að ganga frá öllu til hvíldar fyrir okkur, fékk ég boð um að koma fram í sveit á bæ nokkuð framarlega í dalnum. Þangað fór ég með jarðýtu að mig minnir. Hjá þessari konu duttu verkirnir niður og var þá ekki um annað að gera en að bíða. Ég fékk Elínu ljósmóður á Dalvík til að annast sængurkonurnar þar, sem ég hafði verið hjá en beið svo eftir að eitthvað gerðist. Ef snjósleðar hefðu verið komnir þá hefði ég skroppið heim, en allt var ófært.
Ég minnist þess að mjólkurtrukkarnir voru sendir fram í dalinn, sinn á hvorum kjálka í dalnum, en öxulbrotnuðu þar báðir. Ég beið því þarna á bænum, spilaði meðal annars við börnin sem það gátu. Á gamlársdag fékk svo konan aftur samdráttaverki, sem ágerðust mjög, en höfuð barnsins vildi ekki skorðast í grindinni, svo ég fékk snjóbíl á Dalvík til að fara með okkur inn á fæðingardeildina á Akureyri. Veðrið var mjög gott, en ekki farið að hreinsa af vegum hér útfrá. Þegar við vorum hinsvegar komin inn fyrir Hámundarstaðaháls mætti okkur stórhríð. Það var erfitt að sjá hvar vegurinn var. Við komumst þó inn að Hlíðarlandi. Þar fengu allir að hvíla sig. Færið batnaði svo inn við Fagraskóg og allt gekk vel. Tekið var á móti konunni á F-deild og var barnið síðan tekið með keisaraskurði. Ég kom heim til mín á nýársdag með snjóbíl.
- Súlur koma út einu sinni á ári. Akureyri.net hvetur lesendur sína til að kynna sér ritið. Í tilkynningu frá Sögufélagi Eyfirðinga segir að nýir áskrifendur að Súlum séu boðnir velkomnir í síma 863-75299 – eða í netfangi jhs@bugardur.is