Fara í efni
Menning

Beið eftir því að verða frjáls

Jóna heldur á Nönnu Guðrúnu Marinósdóttur. Eiginmaður hennar, Jón Andrés Kjartansson, heldur á Jóni Hámundi Marinóssyni. Geitina átti Jón Andrés en hún fór með hlutverk í leikritinu, Tehús ágústmánans, og bjó á karlaklósetti Samkomuhússins á meðan sýningum stóð.
  • Í nýjasta hefti Súlna, tímarits Sögufélags Eyfirðinga, sem út kom í vor, er meðal annars að finna átakanlega frásögn Jónu Waage heitinnar skráð af ömmustráknum hennar, Jóni Óðni Waage. Þar segir Jóna frá uppvexti sínum.
  • Það hefur orðið að samkomulagi að Akureyri.net birti annað veifið efni sem komið hefur í tímaritinu. Hér á eftir fer grein Jóns Óðins í heild.

Þekktu ekki annað en hlýðni

Hún horfði á litlu systur sína þar sem hún lá í fanginu á henni. Þær systur sátu í skjóli sunnan við bæjarvegginn, sólin gægðist af og til á milli skýjanna og hlýjaði þeim systrum. Þannig var það núna, ylurinn af sólinni færði höfga yfir þær svo að sú yngri sofnaði í fanginu á þeirri eldri. Eldri systirin hét Jóna, sú yngri Gyða. Jóna var sex ára, Gyða aðeins nokkurra mánaða. Þær voru hálfsystur, dætur vinnukonunnar á bænum. Feður þeirra voru bræður, synir hjónanna á bænum. Það hafði verið eitt af verkum vinnukonunnar að sinna náttúru þeirra bræðra þegar hún gerði vart við sig. Þær systur voru afrakstur þeirrar vinnuskyldu.

Móðir þeirra vann myrkranna á milli og gott betur suma daga. Það kom því í hlut Jónu að sjá um litlu systur sína. Það gerði hún með ánægju. Gyða var það fallegasta og gleðilegasta sem hún hafði upplifað á sinni stuttu ævi, hún sá ekki sólina fyrir litlu systir sinni. Nú sátu þær þarna sunnan við bæjarvegginn eins og svo oft áður.

Jóna með börnum sínum og Jóns Andrésar Kjartanssonar. Talið frá vinstri, Lydia Ágústa, Marinó og Sigríður Ásta.

 

Móðir þeirra og húsmóðurin á bænum, sem jafnframt var amma þeirra systra, komu nú gangandi til þeirra. Jóna hafði lært að hún mætti alls ekki kalla húsmóðurina ömmu. Móðirin settist niður hjá þeim, Jónu fannst móðir sín vera döpur á svipinn.

Móðirin tók með báðum höndum um höfuð Jónu, horfði í augun á henni og sagði: „Þú átt að fara á bæ sem er hinum megin við fjörðinn, þú hittir mömmu aftur seinna.“

Tár láku niður kinnarnar á móðurinni, nú varð Jóna hrædd, hún fór að kjökra.

„Hér dugar ekkert væl,“ þrumaði húsmóðirin, „báturinn bíður, það liggur á, komdu stelpa.“

Móðirin tók Gyðu úr fanginu á Jónu, Jóna stóð á fætur og gekk á eftir húsmóðurinni. Þær mæðgur kunnu að hlýða, þær þekktu ekkert annað.

Jóna gekk niður stíginn sem lá á milli bæjarins og fjörunnar. Með henni í för var vinnumaður sem átti að ferja hana yfir fjörðinn. Jóna snéri sér við og horfði heim að bænum. Á hlaðinu stóð móðir hennar með Gyðu litlu í fanginu. Vinnumaðurinn tók í hönd hennar og talaði hlýlega við hana: „Komdu vinan, við verðum að drífa okkur.“

Jóna hugsaði um það sem móðir hennar hafði sagt að hún myndi sjá hana aftur. Það gæti ekki verið svo langt þangað til, hugsaði Jóna. Þetta yrði allt í lagi sannfærði hún sjálfa sig um.

Jóna Waage með barnabörnum. Frá vinstri: Jón Hámundur, Nanna Guðrún, Jón Óðinn og María Ragnheiður Hauksdóttir.

Húsmóðirin sló hana

Nokkrir dagar voru liðnir, Jónu leið ekki vel á nýja staðnum. Hún saknaði móður sinnar mikið, en þó saknaði hún Gyðu litlu meira. Hennar verk höfðu verið að sjá um Gyðu, hún hafði notið þess. Þar sem að hún var núna þurfti hún að vinna erfiðisvinnu allan daginn. Henni var þvælt á milli verka. Hjálpaðu þessum, var sagt, og hjálpaðu hinum. Ef hún kunni ekki verkin eða var ekki nógu fljót var hún skömmuð. Enginn talaði hlýlega við hana. Síðustu hlýju orðin höfðu verið frá vinnumanninum sem reri með hana yfir fjörðinn.

Og hún var alltaf svöng, hún fékk ekki að borða með hinu fólkinu á bænum. Hún var látin borða skófirnar úr pottunum eftir að aðrir voru búnir að fá nægju sína. Þessu hlutskipti deildi hún með gömlum manni er Sumarliði hét. Hann var með ónýtt bak og gat því lítið sem ekkert unnið. Þau deildu líka fleti saman. Sumarliði talaði lítið, Jóna sá að hann kvaldist mikið í hvert sinn sem að hann hreyfði sig. Margar nætur vaknaði Jóna við sársaukastunur frá honum.

Þetta líf var Jónu erfitt, hún hafði verið lífsglöð og hamingjusöm en nú var hún döpur. Á hverjum degi gekk hún upp á hólinn ofan við bæinn og horfði yfir fjörðinn. Þar sat hún og grét. Einn daginn gleymdi hún sér uppi á hólnum, það var farið að leita að henni, hún var orðin of sein til þeirra verka sem að hún átti að vinna. Þegar hún skilaði sér heim að bænum tók húsmóðirin á móti henni. Húsmóðirin var grimm á svipinn, Jóna var hrædd. Án þess að segja nokkuð sló húsmóðirin Jónu með flötum lófa í andlitið. Jóna féll við, hún var skelfingu lostin. Þetta hafði hún aldrei upplifað áður, hún hafði oft verið skömmuð en enginn hafði slegið hana áður. Jóna grét sárt og bað um að fá að fara til mömmu sinnar, mamma hennar hefði sagt að hún myndi fara til hennar aftur. Húsmóðirin sló hana þá aftur og sagði: „Þú ferð aldrei aftur til mömmu þinnar, mamma þín má aðeins hafa eitt barn í vistinni svo að þú munt aldrei sjá hana aftur, þú ert niðursetningur hér á þessum bæ og hér verður þú.“

Jóna hét fullu nafni Guðríður Jóna Guðmundsdóttir Waage. Hér er hún með dóttur sinni, Sigríði Ástu.

Hatur

Þessi orð bergmáluðu í huga Jónu það sem eftir lifði dags, hún gat ekki hugsað um neitt annað. Um kvöldið gekk hún af stað. Hún ætlaði til móður sinnar og Gyðu litlu. Tilhugsunin um að fá aldrei aftur að sjá þær var óbærileg. Jóna gekk alla nóttina. Hún fór meðfram sjónum, stundum þurfti hún að fara yfir læki sem voru of breiðir til að stökkva yfir. Þá reyndi hún að finna stað þar sem hún gæti tiplað á steinum til að komast yfir. Nýr dagur kom en Jóna gekk áfram. Þegar langt var liðið á daginn sá hún bæinn þar sem að móðir hennar og Gyða bjuggu.

Þegar hún var að verða komin heim að bænum sá hún húsmóðurina ganga út á hlaðið. Húsmóðirin hraðaði sér til hennar, gekk rakleitt að henni og sló Jónu í andlitið. Þetta högg var ekki með flötum lófa eins og löðrungar húsmóðurinnar handan fjarðarins, þetta högg var með krepptum hnefa. Húsmóðirin greip í hárið á Jónu og dró hana með sér heim að bænum, þar kallaði hún á vinnumann og skipaði honum að skila þessum krakka rakleiðis yfir fjörðinn aftur. Við þessi orð ærðist Jóna, hún barðist um og kallaði ákaft á móður sína, húsmóðirin herti takið á hárinu og lét höggin dynja á barninu með hinni hendinni. En Jóna fann engan sársauka, í huga hennar var einhver ný tilfinning að verða til, tilfinning sem var svo sterk að hún yfirgnæfði sársaukann af barsmíðunum.

Jóna fékk ekki að sjá móður sína og systur. Vinnumaðurinn hélt á henni niður í bátinn, þetta var ekki sami vinnumaðurinn og hafði flutt hana í fyrra skiptið. Þessi hafði engin blíð huggunarorð, hann beitti bara valdi. Vinnumaðurinn kastaði barninu í skut bátsins og reri af stað. En nýja tilfinningin var nú algjörlega búin að ná tökum á Jónu. Hún réðist á vinnumanninn og gerði atlögu að augum hans, hún ætlaði sér að klóra í þau. Vinnumaðurinn svaraði með því að kýla barnið í höfuðið svo það missti meðvitund.

Þegar Jóna rankaði aftur við sér lá hún á fletinu þeirra Sumarliða. Sumarliði sat hjá henni. Þegar hann varð var við að hún var komin til meðvitundar strauk hann rökum klúti yfir andlit hennar. Hann talaði sefandi til hennar. Hún hafði aldrei séð þessa hlið á Sumarliða. Hann hélt áfram að tala við hana, hann kallaði hana ekki Jónu heldur Nönnu. Hann sagði henni að nú mætti hún aldrei láta þetta fólk sjá hana gráta, að hún mætti aldrei gefa þeim neina ástæðu til að leggja á hana hendur. Hann sagði að nú ætti hún að nota kraftinn sem að þessi nýja tilfinning sem að hún væri að kynnast til góðs. Hann sagði að þessi tilfinning héti hatur: „Notaðu þennan kraft til að eflast Nanna litla, þá kemstu héðan í burtu þegar þú hefur aldur til.“

Eftir þetta grét Jóna aldrei. Hún sat á kvöldin á fletinu með Sumarliða. Hann sagði henni sögur og kenndi henni að lesa. Hverja stund sem að Jóna átti lausa nýtti hún með Sumarliða. Jóna var lágvaxin og fíngerð eins og mamma hennar. Hún hafði áhyggjur af smæð sinni. Sumarliði sagði henni þá að ganga beinni í baki og bera höfuðið hátt. Jóna fór að öllum ráðum Sumarliða, hatrið ólgaði innra með henni, það fékk útrás í öllum verkum sem hún vann. Húsbændur hennar gátu ekki kvartað undan vinnusemi hennar, hún átti engan sinn líka þegar kom að vinnusemi.

Sumarliði féll frá. Jóna vissi að hann var hvíldinni feginn. Hún átti engan sálufélaga lengur en það breytti hana engu. Annað fólk á bænum hafði lítil samskipti við hana, þeim stóð hálfgerður stuggur af þessari ungu stúlku. Ef einhver ávarpaði hana horfði hún til baka með fyrirlitningarsvip og augun skutu gneistum, en orð hafði hún fá og oftast engin.

Jóna heldur á Nönnu Guðrúnu Marinósdóttur. Eiginmaður hennar, Jón Andrés Kjartansson, heldur á Jóni Hámundi Marinóssyni. Geitina átti Jón Andrés en hún fór með hlutverk í leikritinu, Tehús ágústmánans, og bjó á karlaklósetti Samkomuhússins á meðan sýningum stóð. 

Berklar

Á þessum tíma voru berklar það sem að fólk óttaðist mest. Þessi veiki lagðist yfir landið með skelfilegum afleiðingum. Þegar fólk veiktist var það sett í einangrun svo að það smitaði ekki aðra. En það þurfti að sinna þessu fólki, færa því mat og hugsa um það. Engir voru betur til þess fallnir en niðursetningarnir, þeir máttu missa sig. Jóna fékk ung þetta hlutverk. En hún veiktist ekki sjálf, talað var um að sumt fólk væri ónæmt fyrir bakteríunni og að Jóna væri ein af þeim fyrst hún hafði ekki enn smitast. Hún var því barnung send á milli bæja til að hugsa um berklaveikt fólk. Hún horfði upp á marga deyja úr þessari veiki, margir dóu meðan að hún var að sinna þeim. Þetta fólk var henni þakklátt, þetta var eina fólkið sem að hún átti eðlileg samskipti við fyrir utan Sumarliða.

Jóna hafði sitt takmark, við sextán ára aldur yrðu hún frjáls og gæti farið. Hún ætlaði sér að finna móður sína og systur. Það var ekki sjálfgefið, margir niðursetningar losnuðu aldrei úr ánauðinni, þrældómurinn braut þá niður bæði andlega og líkamlega. Þetta vissi Sumarliði, hann hafði kennt Jónu vel , hún beislaði hatrið og reiðina og nýtti orkuna til að komast af.

Og árin liðu og hún varð 16 ára og þá var hún laus úr vistinni. Á afmælisdaginn sinn gekk hún út og kvaddi engan. Hún leitaði uppi móður sína og systur. Hún komst að því að móðir hennar var komin í nýja vist í kauptúni í næsta firði. Þangað fór hún og fann fjölskyldu sína aftur, tíu árum eftir aðskilnaðinn, takmarkinu var náð.

Jóna lifði hamingjusömu lífi upp frá þessu. Hún flutti burt úr þessum landshluta, eignaðist mann og börn og náði að verða langamma með stóran barnahóp sem allur tilbað hana. Hún vildi alltaf að þeir sem henni líkaði við kölluðu sig Nönnu, nafnið sem Sumarliði notaði. Hún átti aldrei í útistöðum við neinn, hún var ástrík með afbrigðum og var þekkt fyrir góðvild og hjálpsemi. En hún yfirgaf þetta líf án þess að fyrirgefa fólkinu sem hafði tekið hana frá móður sinni og systur.

Jóna lést árið 2006, 92 ára gömul. Jóna var amma mín, ég var ömmustrákur og mun alltaf verða.

_ _ _

  • Sögufélag Eyfirðinga gefur út ársritið Súlur.
  • Ritnefnd tekur við efni í ritið en hana skipa Ása Marinósdóttir (asamar02@gmail.com), Björn Teitsson (banna@simnet.is), Jón Hjaltason (jonhjalta@simnet.is), Kristín Aðalsteinsdóttir (adalsteinsdottir@gmail.com).
  • Ritnefndin tekur einnig við áskriftarbeiðnum. Þær má líka netja á jhs@bugardur.is eða hringja inn í s. 462-4024.