Fara í efni
Mannlíf

Lána bókastafla á hæð við 47 Akureyrarkirkjur

Grafík: Rakel Hinriksdóttir

Mun fleiri gerðu sér ferð á Amtsbókasafnið á Akureyri á nýliðnu ári en árið þar á undan og tóku fleiri bækur að láni. Dagný Davíðsdóttir verkefnastjóri viðburða og kynningarmála á safninu tók saman skemmtilega tölfræði og segir í tilkynningu: „Þó að margir haldi að bókasöfn sé lítið notuð og lestur sé að minnka sjáum við þetta ekki svo svart og erum bara bjartsýn fyrir framtíðinni.“

  • Gaman er að leika sér með alls kyns tölfræði. Hvað yrði staflinn til dæmis hár ef öllum bókunum, sem lánaðar voru út í fyrra, yrði raðað hverri ofan á aðra? Því svarar Rakel Hinriksdóttir, blaðamaður og grafískur hönnuður, á skemmtilega hátt.

Dagný Davíðsdóttir segir hlutverk bókasafnsins í senn hefðbundið en þó alltaf að þróast með nýjum tímum. „Við erum alltaf að bæta við okkur óhefðbundnum útlánum og núna í janúar bættust fjölbreyttir heilsutengdir hlutir við safnkostinn okkar. Þar ber að nefna allskonar lóð og æfingateygjur, blóðþrýstingsmælir, frisbígolfsett, kíkir og fleira skemmtilegt.“

 

Dagný nefnir að starfsmönnum Amtsbókasafnsins hafi þótt skemmtilegt að kökuform voru lánuð 270 sinnum í fyrra, „enda er heimsókn á bókasafnið orðinn hefðbundinn liður í kringum veislur hjá mörgum. Mikil stemning að velja form fyrir afmælið sitt.“

    • Á nýliðnu ári voru gestir Amtsbókasafnsins 6.000 fleiri en árið áður
    • Árið 2024 notuðu 3.569 manns kortið sitt á Amtsbókasafninu
    • Útlán hjá þessu fólki voru 370 fleiri en árið áður
    • Spilin sem oftast voru fengin að láni: Catan - landnemarnir, Harry Potter Cluedo og Dixit
    • Fjölskyldumyndin sem oftast var lánuð út: Ruby Gillman: teenage kraken
    • Oppenheimer var vinsælasta kvikmynd síðasta árs hjá gestum Amtsbókasafnsins og Barbie í öðru sæti
    • Heyrnatól og hleðslutæki til notkunar innanhúss nýttu gestir sér í 315 skipti á árinu
    • Vinsælasta tímaritið var Vikan en hún var lánuð í 933 skipti
    • 100 vinsælustu bækur safnsins eru allt skáldsögur:
      • Vinsælasta barnabókin var Kiddi klaufi - Rokkarinn reddar öllu
      • Vinsælasta ungmennabókin var Hjartastopp 1
      • Vinsælasta rómantíska skáldsagan var Og nú ertu kominn aftur, sem var jafnframt vinsælasta bók safnsins á árinu
      • Vinsælasta glæpasagan var Banvænn fundur
      • Vinsælasta skáldsagan utan þessara flokka var Lykillinn