Tvö stutt og eitt langt er gömul Akureyrarhefð
Áratuga löng hefð er fyrir því að fiskiskip, sem gerð eru út frá Akureyri, flauti er þau láta úr höfn. Fjallað er um þennan skemmtilega sið á vef Samherja í morgun.
„Þegar skipin eru komin á siglingu og eru hæfilega langt frá bryggju er flautað tvisvar sinnum í eina til tvær sekúndur og einu sinni í fjórar til sex sekúndur. Með þessu merki kveður áhöfnin heimahöfn með táknrænum hætti og heldur til veiða,“ segir þar.
Hefð hjá Útgerðarfélagi Akureyringa
Ekki er vitað nákvæmlega hversu gömul þessi hefð er. Skipstjórar á skipum Samherja hafa í fjörutíu ár gefið umrætt hljóðmerki við brottfarir, þeir erfðu þennan sið frá skipstjórum á togurum Útgerðarfélags Akureyringa sem flautuðu tvö stutt og eitt langt er látið var úr höfn.
„Sjávarútvegur hefur alla tíð verið öflugur á Eyjafjarðarsvæðinu og íbúarnir fylgjast þess vegna nokkuð vel með komum og brottförum fiskiskipa. Líklega voru þessi hljóðmerki í upphafi fyrst og fremst hugsuð til þess að upplýsa íbúana um brottfarir skipa, auk þess sem áhafnirnar voru með táknrænum hætti að kveðja sitt fólk og heimahaga,“ segir Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja.
Í fremstu röð á heimsvísu
Kristján segir hljóðmerkin sterka siðvenju og undirstriki að sjávarútvegstengd starfsemi er öflug á Eyjafjarðarsvæðinu.
„Þetta er góð hefð sem hefur verið við lýði í marga áratugi. Atvinnulífs- og menningarsaga Eyjafjarðar hefur djúpar rætur sem við eigum hiklaust að varðveita eins og kostur er. Þessar táknrænu kveðjur skipanna minna okkur meðal annars á að sjávarútvegur er ein helsta stoð atvinnulífsins á svæðinu og að hérna starfa öflug tæknilega vel búin sjávarútvegstengd fyrirtæki, mörg hver í fremstu röð í heiminum. Í minum huga eflir þessi hefð þannig sjálfsmynd íbúanna, sem er mikils virði á tímum hraðra breytinga, “ segir Kristján Vilhelmsson.