Fara í efni
Mannlíf

Fór fimm ára í 23 daga túr á Harðbak!

Þessi ungi drengur hefur haft einlægan áhuga á sjávarútvegi alla tíð enda má segja að sjómennskan sé honum í blóð borin. Myndin er tekin þegar hann fór, fimm ára gamall, í 23 sólarhringa veiðitúr á Harðbak EA, einum síðutogara Útgerðarfélags Akureyringa. Faðir hans var þar skipstjóri á þeim tíma.

Þetta er enginn annar en Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja. Faðir hans, Vilhelm Þorsteinsson, var annar tveggja framkvæmdastjóra Útgerðarfélags Akureyringa frá 1965 til 1992 og áður farsæll skipstjóri hjá félaginu. Þessi stórskemmtilega mynd birtist á vef Samherja í gær þar sem rifjað var upp að 80 ár voru frá merkilegum fundi í atvinnusögu bæjarins.

Kristján Vilhelmsson fimm ára gamall í veiðiferðinni á Harðbak EA sem sagt er frá í fréttinni.

Í umfjölluninni í gær er rifjað upp þegar Kristján, sem þá var í framhaldsdeild Gagnfræðaskólans á Akureyri, skrifaði ítarlega grein um stofnun Útgerðarfélags Akureyringa og starfsemi félagsins. Hann leitaði meðal annars fanga í fundargerðarbókum og aflaði upplýsinga hjá Jóni Aspar, sem þá var skrifstofustjóri félagsins. Sjómannablaðið Víkingur birti svo grein piltsins, sem þakti tvær opnur.

Fyrri opnan með grein Kristjáns um ÚA í sjómannablaðinu Víkingi.

Minnast tímamótanna

„Ég man ágætlega eftir þessari ritgerð, enda lagði ég töluverða vinnu í öflun gagna. Greinin hefst einmitt á því að segja frá undirbúningsfundinum sem haldinn var 14. mars 1945, þar sem ákveðið var að vinna að stofnun útgerðarfélags,“ segir Kristján á vef Samherja. „Þótt sjálfur stofndagur félagsins sé 26. mai, er 14. mars merkilegur dagur í atvinnusögu bæjarins. Félagið er sem sagt 80 ára á þessu ári og við ætlum að minnast þessara tímamóta með ýmsum hætti. Minjasafnið á Akureyri mun gera starfsemi félagsins skil og án efa verða fleiri viðburðir í tilefni afmælisins á árinu,“ segir Kristján.