Fara í efni
Mannlíf

80 ár frá merkum fundi í atvinnusögu bæjarins

Fyrsti togari ÚA, Kaldbakur EA 1 kemur til heimahafnar 17. maí 1947. Togarinn var keyptur nýr frá Shelby í Englandi og var 654 brúttólestir. Mynd: Minjasafnið á Akureyri

Í dag eru 80 ár frá fundi sem markaði þáttaskil í atvinnusögu Akureyrarbæjar. Þann dag, miðvikudaginn 14. mars árið 1945, var boðað til fundar í þeim tilgangi að kanna áhuga á stofnun útgerðarfélags í bænum með það fyrir augum að sækja um skipakaup til Nýbyggingarráðs. Umsóknafrestur um slík kaup var við það að renna út.

„Ráðuneyti Ólafs Thors vildi nota stríðsgróða þjóðarinnar til nytsamlegra hluta og ákvað meðal annars að endurnýja togaraflota landsmanna,“ segir í grein sem birtist á vef Samherja í dag. Þar er stofnun Útgerðarfélags Akureyrar rifjuð upp.

Samherji er eigandi ÚA í dag; keypti eignir útgerðarfélagsins Brims á Akureyri á vormánuðum ársins 2011 en Brim hafði nokkrum árum áður keypt Útgerðarfélag Akureyringa af Eimskip. „Kaup Samherja á ÚA voru þau stærstu innan íslensks sjávarútvegs um langt árabil,“ segir á vef félagsins í dag.

Fiskitangi, athafnasvæði ÚA. Myndin er tekin á níunda áratug síðustu aldar

„Þrátt fyrir ríkan áhuga meðal bæjarbúa um að kaupa togara, var deilt um form á slíkum rekstri. Sjálfstæðismaðurinn Helgi Pálsson boðaði til fundarins um stofnun félags og skemmst er frá því að segja að ákveðið var að hefja undirbúning að stofnun útgerðarfélags með þátttöku Akureyrarbæjar. Helgi var kosinn formaður framkvæmdaráðs og síðar var hann kosinn formaður bráðabirgðastjórnar Útgerðarfélags Akureyringa,“ segir í umfjölluninni.

Stofnfundurinn 26. maí 1945

Framkvæmdaráð hófst strax handa, skrifaði bæjarstjórn bréf þar sem falast var eftir hlutafjárloforði. Einnig var sent dreifibréf, sem borið var í hvert hús og bæjarbúar beðnir um að leggja málinu lið. Formlegur stofnfundur Útgerðarfélags Akureyringa var svo haldinn laugardaginn 26. maí 1945 og félagið er því 80 ára á þessu herrans ári, 2025.

„Rekstur Útgerðarfélags Akureyringa hefur alla tíð verið öflugur, þótt á ýmsu hafi gengið eins og í öllum atvinnurekstri. Reglulega var hart deilt um starfsemina innan bæjarstjórnar, pólitískar þrætur um ýmis mál er tengdust rekstrinum eða fyrirhuguðum fjárfestingum voru áberandi. Þetta á einkum við um upphafsárin, ekki síst þegar reksturinn var erfiður,“ segir í upprifjuninni.

Staðreynd er að hundruð bæjarbúa hafa tekið sín fyrstu skref á vinnumarkaði og fengið sín fyrstu laun með sumarvinnu hjá Útgerðarfélagi Akureyringa, segir í greininni. „Starfsaldur hefur alla tíð verði hár hjá félaginu, sem undirstrikar að um er að ræða góðan vinnustað.“