Tómas V – Mannbjörg við Stórabratta
Margir frægir lygalaupar hafa komið og farið í heim þennan. Í Grímsey bjó einn slíkur, Tómas Steinsson á Borgum (1769 - 1843). Tómas gefur kollegum sínum í uppspuna, á borð við Munchhausen barón og fleirum, ekkert eftir. Birtar eru nokkrar ótrúlegar sögur af Tómasi á Akureyri.net í vetur._ _ _
Hæsta bjargið í Grímsey heitir Stóribratti, en þaðan er útsýnið einkar fagurt, eins og við er að búast. Einn daginn var Tómas á göngu með ungum pilti á bjarginu, þegar piltinum skrikar fótur og hann hrapar fram af bjarginu með skerandi veini. Tómas bregst samstundis við og sér að eina ráðið muni vera að verða á undan niður. Hann stekkur því fram af bjarginu af miklum krafti og lendir jafnfætis í fjörunni, kominn niður í tæka tíð til þess að grípa piltræfilinn í fangið. Ekki fór á milli mála að lífi unga mannsins var bjargað þarna vegna snarræðis og stökkhæfileika Tómasar.
Eins og gefur að skilja var fólkið í eynni orðlaust af undrun og aðdáun, og vildi spyrja Tómas hinna ýmsu spurninga eftir þrekvirkið. Tómas viðurkenndi að vera hálf lélegur í leggjunum, en það væri einungis vegna þess að fjaran var heldur stórgrýtt þar sem hann kom niður. Fylgir sögunni að fáir hafi stokkið betur en Tómas, hvorki fyrr - né síðar.
- Sögurnar af Tómasi eru endurskráðar úr ýmsum heimildum. Helst ber að nefna Handrit Theódórs Friðrikssonar frá 1907, baksíðu Alþýðublaðsins 27.03.1966 og greininni „Gengið um Grímsey” úr sunnudagsblaði Tímans 26.07.1964. Báðar greinar lesnar á www.timarit.is.