Tómas á Borgum IV – Ættfaðirinn í kviðnum
Margir frægir lygalaupar hafa komið og farið í heim þennan. Í Grímsey bjó einn slíkur, Tómas Steinsson á Borgum (1769 - 1843). Tómas gefur kollegum sínum í uppspuna, á borð við Munchhausen barón og fleirum, ekkert eftir. Birtar eru nokkrar ótrúlegar sögur af Tómasi á Akureyri.net í vetur.
_ _ _
Einu sinni sem oftast reri Tómas til hákarlaveiða frá Grímsey. Hann hafði oft lent í merkilegum lífsreynslum til sjós, og þennan dag varð engin undantekning á því. Tómas renndi færi og stuttu síðar beit stærðarinnar hákarl á agnið. Eftir þónokkuð basl við að koma ókindinni á stokk, staldraði hann þó við til þess að leggja við hlustir. Frá hákarlinum barst ógreinilegt hljóð, sem Tómas hugði að minnti helst á jarm. Hann var snöggur til og risti dýrið á kviðinn, og viti menn, úr kviði dýrsins spratt veturgamall og sprellifandi lambhrútur, mórauður á lit. Tómas tók hrútinn með sér til lands og sagt er að allt mórautt fé í eynni síðan, sé komið undan honum.
- Sögurnar af Tómasi eru endurskráðar úr ýmsum heimildum. Helst ber að nefna Handrit Theódórs Friðrikssonar frá 1907, baksíðu Alþýðublaðsins 27.03.1966 og greininni „Gengið um Grímsey” úr sunnudagsblaði Tímans 26.07.1964. Báðar greinar lesnar á www.timarit.is.