Fara í efni
Mannlíf

Segir blaðamann búa til storm í vatnsglasi

„Það er ekkert athugavert við að embætti landlæknis spyrjist fyrir en mér finnst óeðlilegt hvernig málið er til komið,“ segir Teitur Guðmundsson forstjóri Heilsuverndar, spurður um erindi landlæknis til fyrirtækisins vegna tilkynningar Vals Helga Kristinssonar læknis til fyrrverandi skjólstæðinga sinna á heilsugæslustöðinni á Akureyri sem Akureyri.net greindi frá á mánudaginn.

Teitur segir Inga Frey Vilhjálmsson, blaðamann Heimildarinnar, sem sagði fyrst frá tilkynningu Vals til skjólstæðinganna, hafa vísað málinu til landlæknis.

„Við vitum ekki til þess að nokkur hafi kvartað. Allir skjólstæðingar Vals Helga eru ánægðir, við teljum ekkert óeðlilegt við þetta en blaðamaðurinn býr til þetta mál, til þess að reyna að sýna menn í vondu ljósi. Hann skrifar frétt 6. febrúar, leggur síðan greinina sjálfur fram sem kvörtun til landlæknis og á svo í frekari samskiptum við embættið því hann skrifar aðra frétt 10. febrúar með viðbrögðum þess áður en landlæknir hefur samband við okkur,“ segir Teitur við Akureyri.net. 

Tortryggilegt

Teiti þykir það gagnrýnivert að embætti landlæknis láti hafa eitthvað eftir sér um málið áður en talað er við lækninn sem um ræðir eða vinnustað hans. „Aðalgagnrýni mín er þó á að blaðamaðurinn sjálfur sé allt um kring en greini ekki frá því. Það finnst mér sérstaklega tortryggilegt. Ég fór fram á það við blaðamanninn að hann myndi segja frá því en það hefur hann ekki gert.“

Eftir að Valur Helgi, fyrrverandi yfirlæknir á Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) á Akureyri, hóf störf hjá fyrirtækinu Heilsuvernd tilkynnti hann skjólstæðingum sínum á HSN í gegnum forritið Heilsuveru að hann hafi skipt um vinnustað. Valur tók fram að þeir sem vildu halda áfram hjá honum gætu flutt sig um set en að öðrum kosti myndi HSN sinna viðkomandi áfram.

Eðlileg kurteisi

Það er notkun Vals Helga á forritinu sem landlæknir hefur til skoðunar. Embættið svarar Heimildinni á þann veg að miðað við þær upplýsingar sem komu fram í umfjöllun blaðins sé notkunin röng. Heilsuvera sé hugsuð fyrir sendingar á klínískum upplýsingum og samskiptum milli læknis og sjúklings í tengslum við meðferð.

Teitur hafnaði því alfarið í samtali við Akureyri.net að þarna sé eitthvað óeðlilegt á ferðinni. Þvert á móti sé það liður í trúnaðarsambandi læknis við skjólstæðinga að láta vita ef hann flytur sig milli vinnustaða. „Á þeim grundvelli var eðlilegt og kurteist að láta skjólstæðinga læknisins vita, svo þeir gætu tekið upplýsta ákvörðun um það hvort þeir óskuðu eftir áframhaldandi þjónustu hans,“ segir hann.

„Fyrirspurn landlæknis barst okkur tveimur dögum eftir seinni greinin birtist í Heimildinni þar sem viðbrögð embættisins komu fram. Við skirrumst að sjálfsögðu ekki við að svara henni og óttumst ekkert,“ segir Teitur.