Röng notkun Heilsuveru? „Ekkert óeðlilegt“
Eftir að Valur Helgi Kristinsson, fyrrverandi yfirlæknir á Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) á Akureyri, hóf störf hjá fyrirtækinu Heilsuvernd tilkynnti hann skjólstæðingum sínum á HSN í gegnum forritið Heilsuveru að hann hafi skipt um vinnustað. Valur tók fram að þeir sem vildu halda áfram hjá honum gætu flutt sig um set en að öðrum kosti myndi HSN sinna viðkomandi áfram.
Embætti landlæknis hefur þessa notkun Vals Helga á forritinu til skoðunar en Teitur Guðmundsson, forstjóri Heilsuverndar, hafnar því alfarið í samtali við Akureyri.net að þarna sé eitthvað óeðlilegt á ferðinni. Þvert á móti sé það liður í trúnaðarsambandi læknis við skjólstæðinga að láta vita ef hann flytur sig milli vinnustaða. „Á þeim grundvelli var eðlilegt og kurteist að láta skjólstæðinga læknisins vita, svo þeir gætu tekið upplýsta ákvörðun um það hvort þeir óskuðu eftir áframhaldandi þjónustu hans,“ segir í yfirlýsingu sem birtist á Facebook síðu Heilsuverndar í kvöld.
Fjallað var um það í Heimildinni í síðustu viku með hvaða hætti Valur Helgi hefði sent skjólstæðingum sínum tilkynninguna og Alma Möller, landlæknir, segir við Heimildina að miðað við þær upplýsingar sem komu fram í umfjöllun blaðins sé notkunin röng. Heilsuvera sé hugsuð fyrir sendingar á klínískum upplýsingum og samskiptum milli læknis og sjúklings í tengslum við meðferð.
Yfirlýsingin á Facebook síðu Heilsuverndar í kvöld er svohljóðandi:
„Valur Helgi Kristinsson heimilislæknir hóf störf hjá heilsugæslunni í Urðarhvarfi, 2. janúar síðastliðinn. Hann hefur sinnt skráðum skjólstæðingum stöðvarinnar, bæði þar og með fjarvinnu, með rafrænum hætti gegnum Heilsuveru og í síma. Því til viðbótar hefur hann möguleika á að sinna vitjunum eftir því sem við á. Skjólstæðingum er frjálst að velja heilsugæslustöð óháð búsetu og leita eftir slíkri þjónustu með skráningu í gegnum vef Sjúkratrygginga Íslands.
Valur Helgi hefur einnig haft aðstöðu á Læknastofum Akureyrar. Með því fyrirkomulagi hefur verið komið til móts við þarfir skráðra skjólstæðinga á Akureyri sem þurfa að hitta lækni. Embætti Landlæknis gerði athugasemdir við það í dag og taldi að láðst hefði að skrá starfsstöð. Við þeirri athugasemd var strax brugðist og henni svarað.
Þá hefur verið umfjöllun í fjölmiðlun um samskipti Vals Helga í gegnum Heilsuveru við skjólstæðinga sína og reynt að gera hana tortryggilega. Þeirri umfjöllun er hafnað alfarið og hefur félagið leitað til Læknafélagsins í því efni um stuðning við að leiðrétta hana. Þegar heimilislæknir flytur sig milli vinnustaða, er rétt að koma upplýsingum um það á framfæri. Er það liður í trúnaðarsambandi læknis og skjólstæðings, sem oft hefur varað til margra ára. Á þeim grundvelli var eðlilegt og kurteist að láta skjólstæðinga læknisins vita, svo þeir gætu tekið upplýsta ákvörðun um það hvort þeir óskuðu eftir áframhaldandi þjónustu hans.“