Kokkurinn á Kaldbak fór á kostum á litlu jólunum
Áhafnir fiskiskipa Samherja hafa undanfarna daga haldið í þann góða sið að halda upp á litlu jólin, þar sem borð svigna undan kræsingum, segir á vef fyrirtækisins. „Slíkar veislur kalla eðlilega á góðan undirbúning kokkanna, sem undirbúa innkaup aðfanga vel og vandlega áður en veiðiferðin hefst.“
Vadim Gusev, Aðalbjörn Þórhallsson, Guðmundur Þórðarson, Kokkurinn Jón Kristjánsson, Trausti Sigurðsson, Óskar Sigurpálsson og Sigurjón Sigurðsson.
Sérstakur hátíðarmatseðill var útbúinn, rétt eins og á góðum veitingahúsum, segir á vef Samherja. „Við fórum út síðasta föstudag og erum á Reykjafjarðarðarálnum í blíðskaparveðri,“ segir Oddur Jóhann Brynjólfsson skipstjóri.
„Jón Ragnar Kristjánsson kokkur er mikill snillingur í matseld og hann náði sannarlega að gera kvöldstundina hátíðlega. Við erum þrettán í áhöfn og borðsalurinn var tvísetinn enda ekki gert hlé á veiðum. Venjulega tekur borðhald ekki mjög langan tíma en í gærkvöldi nutum við kræsinganna og leyfðum okkur njóta samverunnar. Svona hátíðarstund brýtur upp daginn og allir voru sælir og glaðir, enda allir réttirnir hjá Jóni Ragnari frábærir og fóru vel í maga. Hann fór gjörsamlega á kostum, við erum allir sammála um það. Áhafnir annarra skipa Samherja halda sömuleiðis sín litlu jól, sem er frábær og góður siður,“ segir Oddur Jóhann Brynjólfsson skipstjóri.
Heimasíða Samherja fékk sendar nokkrar myndir frá litlu jólunum í gær.
Sveinn Sveinsson, Lárus Guðmundsson, Jóhannes Árnason, Oddur Brynjólfsson, Reynir Valsson og Þorsteinn Haraldsson.