Fjölsmiðjufössari #7 - Fótanuddtækið góða
Á föstudögum í vor langar okkur á Akureyri.net að hressa okkur við fyrir helgina og birta myndaþátt af því besta sem er í boði í Fjölsmiðjunni. Eins og flestir bæjarbúar vita, kennir þar ýmissa grasa og mörg höfum við farið þangað með dótið sem við erum hætt að nota. En hvað er í boði þennan ágæta Fjölsmiðju-fössara?
Þarna er þessi blái draumur í öllu sínu veldi. Eitt helsta tákn hjarðhegðunar Íslendinga í manna minnum.
Vorið er komið í Fjölsmiðjuna! Nokkur hjól eru komin fyrir utan, og munu fleiri bætast við í dag.
Það eru líka til hjól fyrir yngri kynslóðina.
Fegurðin kostar bara hundraðkall.
Stórkostleg hárþurrka sem hægt er að taka með sér. Amk svo langt sem snúran nær. Þessar hárþurrkur voru eflaust bylting í lífi húsmæðra sem þurftu bæði að vera með óaðfinnanlegt hár og klára að ryksuga fyrir kvöldmat.
Nærmynd af hárþurrkumódelinu að sýna notagildi græjunnar.
Það er allt klárt til þess að búa til heimaræktina fyrir sumarið. Einnig sá blaðamaður glitta í skíðavél annarsstaðar í búðinni.
Ef einhverjum leiðist ófriðurinn frá snjallsímanum, er frið að finna í Fjölsmiðjunni. Gamli, góði takkasíminn. Elegant módel frá Samsung.
Arnaldur Indriðason á vísan stað á ofninum inni í bókarými. Það er kannski rannsóknarefni hvers vegna fólk losar sig helst við 'Furðustrandir' og 'Harðskafa' .. Kannski er það svoleiðis, að þær bækur eru síður keyptar.
Nú er aldeilis hægt að bjóða matarklúbbnum í Irish coffee veislu um helgina. Hver veit nema það verði hægt að sitja úti jafnvel?
Þökkum Fjölsmiðjunni kærlega fyrir að opna dyrnar fyrir blaðamanni, og hvetjum fólk til þess að halda áfram að styrkja það góða starf sem þar fer fram. Í leiðinni viljum við minna á hina nytjamarkaðina í bænum, Hertex, markað Rauða krossins og Norðurhjálp. Endurnýtum og styrkjum gott málefni í leiðinni. Góða helgi!