Fara í efni
Mannlíf

Fjölsmiðjufössari #4 - Rauða serían í kassavís

Fjórði Fjölsmiðjufössari ársins. Myndir: Rakel Hinriksdóttir

Á föstudögum í vor langar okkur á Akureyri.net að hressa okkur við fyrir helgina og birta myndaþátt af því besta sem er í boði í Fjölsmiðjunni. Eins og flestir bæjarbúar vita, kennir þar ýmissa grasa og mörg höfum við farið þangað með dótið sem við erum hætt að nota. En hvað er í boði þennan ágæta Fjölsmiðju-fössara?

Nú þurfa engin að vera ástlaus um helgina. Tveir smekkfullir kassar af Rauðu seríunni fást í Fjölsmiðjunni. Uppáhalds flokkar okkar allra; Ást og afbrot, Sjúkrahússögur, Örlagasögur og allar hinar líka.

En skoðum aðeins í kassana, til þess að kveikja mögulega í þeim sem ekki hafa kynnst unaðsheimi Rauðu seríunnar:

Ekki láta sakleysislega kápumyndina blekkja þig.  

 

Í þessum skítakulda sem við erum að upplifa hérna á Norðurhjara, væri gott að lesa Frumskógarhita um helgina. Aftan á bókinni stendur: „Dr. Stevie Wilson þekkir reglurnar ... en í Brasilíu, um borð í sjúkrabáti, er nær ómögulegt að halda sig frá hættulega, myndarlega yfirmanninum dr. Matt Palermo. Hengirúmið hennar er meira að segja beint fyrir ofan hans!"

Það væri forvitnilegt að glugga í þessa, þó ekki nema bara til þess að komast að því hvernig fólk nýtur ásta í hengirúmi.

 

En það fæst meira í Fjölsmiðjunni þessa vikuna. Fyrir þau sem eru orðin þreytt á frelsinu sem fylgir Bluetooth - er nóg til af snúruheyrnartólum. 

 

Er fimmtugsafmæli? Fjölsmiðjan er með skotheldan pakka fyrir gleðina!

 

Rauðu kaffidunkarnir frá El Marino eru ákveðin nostalgía.

 

Nóg er til af heilagri veggjalist. 

 

Ef þú hefur ekki efni á Land Cruiser er Stiga Cruiser kannski málið.

 

Prins Valíant er ekki bara hárgreiðsla. Það eru líka æsispennandi sögur, sem nú eru fáanlegar í Fjölsmiðjunni í skemmtilegri, myndskreyttri útgáfu.

 

Eru ekki einhver sem eiga gamlar medalíur sem væri gaman að hengja upp á vegg? Hampa fornri frægð?  

 

„Nýir“ eftirlætis réttir. Hver einasta kona á Íslandi átti svona á tímabili, og eftirlætisréttirnir standast tímans tönn. Nokkrar möppur eru í boði í Fjölsmiðjunni.

 

Rétt er að minna á að allskonar snúrufargan fæst í Fjölsmiðjunni. 

 

Klikkaði pössunin um helgina? 

Djók. 

Þökkum Fjölsmiðjunni kærlega fyrir að opna dyrnar fyrir blaðamanni, og hvetjum fólk til þess að halda áfram að styrkja það góða starf sem þar fer fram. Í leiðinni viljum við minna á hina nytjamarkaðina í bænum, Hertex, markað Rauða krossins og Norðurhjálp. Endurnýtum og styrkjum gott málefni í leiðinni. Góða helgi!