Fjölsmiðjufössari #3 – Gamla góða pennasafnið
Á föstudögum í vor langar okkur á Akureyri.net að hressa okkur við fyrir helgina og birta myndaþátt af því besta sem er í boði í Fjölsmiðjunni. Eins og flestir bæjarbúar vita, kennir þar ýmissa grasa og mörg höfum við farið þangað með dótið sem við erum hætt að nota. En hvað er í boði þennan ágæta Fjölsmiðju-fössara?
Gleymdist að skála fyrir tuttugu ára afmæli Raftákns árið 1996? Örvæntið ekki, skotglasið fæst ennþá í Fjölsmiðjunni.
Minnsta þvottavél í heimi fæst í Fjölsmiðjunni. Til samanburðar má sjá píanóið við hliðina.
Barbara Cartland svífur yfir vötnum og það er eitthvað fyrir alla. Líka eldri kynslóðina. Ástin blómstrar á öllum aldursskeiðum. Hugmynd að rómantískri tónlist fylgir með.
Ástin getur líka verið líkamleg um helgina. Leiðbeiningabók um erótíska nuddtækni og svolítið lifað eintak af Fimmtíu gráum skuggum gæti hentað vel til að kveikja í kvöldinu.
Ef erótíska nuddið fer úr böndnum er hægt að fá nýjan höfðagafl í Fjölsmiðjunni.
Þessi forláta uppfinning var þarfaþing á hverju heimili í næntís. Enda óþarfa fyrirhöfn að skera brauðið sitt handvirkt.
Aðeins nýlegri uppfinning en rafræna brauðskurðarvélin - þetta ótrúlega tæki er til þess að festa á hjólið þitt og þú getur þá hjólað endalaust án þess að komast úr stað.
Nóg er til af köldum körlum í hillum Fjölsmiðjunnar. Þeir kunna allir að halda á byssum og eru ekki hræddir við að brúka þær.
Það er alltaf gaman að vera í Kántrígírnum um helgar. Finna sér köflóttan klút og kúrekahatt og hlusta á réttu tónana.
Ófá heimilin hafa átt svona þarfaþing. Fjölnota diskar. Þeir eru ekki bara ílát, heldur líka uppskriftarbækur.
Það leiðist engum með Alistair MacLean. Fullt af klassískum titlum á borð við Vítisveiruna, Ég sprengi kl. 10 og Í Vonbrigðaskarði.
Þessi fallegu, smávöxnu glös eru tilvalin fyrir einhvern notalegan drykk.
Fallegar, innbundnar Íslendingasögur. Eigi skal höggva, heldur lesa alla daga.
Þökkum Fjölsmiðjunni kærlega fyrir að opna dyrnar fyrir blaðamanni, og hvetjum fólk til þess að halda áfram að styrkja það góða starf sem þar fer fram. Í leiðinni viljum við minna á hina nytjamarkaðina í bænum, Hertex, markað Rauða krossins og Norðurhjálp. Endurnýtum og styrkjum gott málefni í leiðinni. Góða helgi!