Fara í efni
Mannlíf

100 ár í dag frá komu „fyrstu flugunnar“

New Orleans, fyrsta flugvélin sem lenti á Íslandi, bundin við bauju eftir komuna til Hornafjarðar. Mynd af Facebook síðu Flugsafns Íslands.

Í dag eru liðin 100 ár frá því að fyrsta flugvélin kom fljúgandi til Íslands. Flugið var hluti af hnattflugi bandaríska flughersins, sem hófst 6. apríl 1924 en þá tóku fjórar flugvélar af gerðinni Douglas World Cruiser á loft frá Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna og flugu hringinn í kringum hnöttinn.

Greint er frá þessu á vef Flugsafns Íslands þar sem finna má ítarlega og stórfróðlega samtekt Þorkels Á. Jóhannssonar, formanns Arnarins - hollvinafélags Flugsafns Íslands. Samantektin birtist fyrst í fréttabréfi Arnarins í júní 2024.

Það var Erik Nelson sem lenti flugvél nr. 4, New Orleans, á Hornafirði kl. 18.37, laugardaginn 2. ágúst 1924 og tókst lendingin vel. Í Bæjarpóstinum á Seyðisfirði sagði þann 4. ágúst 1924:

„Lendingarstaðinn telja þeir fyrirtaks góðann, miklu betri en þeir höfðu búist við, og líklegur til framtíðar, og rúmgóður til uppflugs sitt hvoru megin út frá lendingarsvæðinu, sunnan við Mikley, austan og vestan, eftir vindstöðu; víðfaðma og skír fjallasýn og jöklar. Vesturhornið sá Nelson fyrst greinilega í mikilli fjarlægð.“

New Orleans, fyrsta flugvélin sem lenti á Íslandi - á Hornafirði - eftir komuna til Reykjavíkur 5. ágúst. Þar dvöldu flugkapparnir í nokkra daga á meðan ýmsar viðgerðir og viðhaldsvinna fór fram á flugvélunum meðan beðið var leiðis til áframhaldandi farar. 

Fyrirsögn fréttar í Alþýðublaðinu sama daga var: Koma fyrstu flugunnar. Þar segir, í einkaskeyti til Alþýðublaðsins í Reykjavík: „Flugvél nr. komin. Foringinn Nelson lætur mjög vel af ferðinni. Vélar í ágætu standi. Lendingin tókst ágætlega. Tvær vélarnar sneru aftur til Skotlands, koma væntanlega á morgun.“

Tímamótanna minnst

Í tilefni tímamótanna hefur Flugsafn Íslands á Akureyri fengið að láni frá Þjóðminjasafni Íslands loftskrúfu flugvélar Nelsons og mun hún vera til sýnis á safninu fram á næsta vor.

Í næstu viku verður þessara tímamóta minnst og verður viðburðurinn auglýstur nánar þegar nær dregur, segir á Facebook síðu Flugsafns Íslands.

Óhapp strax í byrjun

Eftir mikla undirbúningsvinnu lögðu flugvélarnar fjórar upp í hnattflugið 6. apríl 1924 frá Sand Beach á bökkum Washington vatns í Seattle. Þær voru númeraðar og báru nöfn bandarískra borga:

  • 1. Seattle: Flugmaður Major Frederick Martin, vélamaður SSgt Alva Harvey.
  • 2. Chicago: Flugmaður Lt Lowell H. Smith, vélamaður Lt. Leslie P. Arnold.
  • 3. Boston: Flugmaður Leigh P. Wade, vélamaður SSgt Henry H. Ogden.
  • 4. New Orleans: Flugmaður Lt Erik H. Nelson, vélamaður Lt Jack Harding.

Þorkell Á. Jóhannsson segir í samtantektinni sem áður var nefnd:

„Strax í byrjun ferðalagsins, meðan leiðin lá um Alaska, varð leiðangurinn fyrir sínu fyrsta óhappi er forystuvélin Seattle brotlenti í fjallendi eftir að hafa villst í þoku! Martin flugmanni tókst þó að beina flugvélinni þannig í fjallshlíðina að úr varð minna högg en annars stefndi í. Þarna varð lítill flughraði til bjargar! Flugvélin eyðilagðist en þeir Major Martin og Sergeant Harvey björguðust lítt meiddir og komust þó nokkuð hraktir, svangir, kaldir, örmagnaðir og með snjóblindu, til byggða einum tíu dögum síðar!“

Hinar þrjár vélarnar héldu þó ótrauðar áfram för þann 2. maí skv fyrirmælum flughersins, en með þeim var jafnframt kveðið á um að Lowell Smith á Chicago væri nú leiðangursstjóri.

Hvar er New Orleans?

Síðan segir Þorkell:

„Stóri dagurinn hvað okkur Íslendinga varðar rann upp laugardaginn 2. ágúst, en þá tóku vélarnar þrjár (Chicago, Boston og New Orleans) á loft frá Kirkwall, Orkneyjum, í fyrirhugað flug til Hafnar í Hornafirði. Fljótlega eftir flugtakið lentu þær í svartaþoku. Lt Lowell H. Smith, flugmaður Seattle og leiðangursstjóri, ákvað að freista þess að klifra upp úr þokunni eftir að hafa reynt um stund að fljúga undir henni við sjávarborðið og fylgdu félagar hans eftir eins og ætíð áður, en miklu skipti að þeir misstu aldrei sjónar af hver öðrum svo nærri má geta hversu þėtt samflugið varð að vera í þessum skilyrðum og má merkilegt heita að aldrei yrði óhapp vegna þess! Upp úrþokunni komust þeir fyrir rest, eftir langt klifur með þunglestaðar flugvélar af eldsneyti. En, þá kom í ljós að vélarnar voru aðeins tvær. New Orleans var hvergi sjáanleg! Og eftir að hafa hnitað hringi nokkra stund án þess að nokkuð sæist til félaga þeirra varð Smith að taka þá erfiðu ákvörðun að snúa við til Kirkwall til að láta vita um hvarf þeirra svo hefja mætti leit þá þegar.“

Þorkell heldur áfram:

„Hvað hafði gerst? Jú, þeir Nelson og Harding á New Orleans urðu fyrir því óhappi, er þeir klifruðu upp í gegn um þokuna á eftir annarri hvorri hinna vélanna, að lenda í skrúfuröstinni frá þeirri vél, með þeim afleiðingum að þeir misstu stjórn á sinni vél! Nærri má geta að þar hafi þeir upplifað nokkur spennuþrungin augnablik þar sem þeir töpuðu öllum áttum enda engin viðmið að hafa frá sjóndeildarhring eða nokkru í umhverfinu. Þarna kom sér vel að leiðangursmenn höfðu ekki verið valdir eftir áhuganum einum saman eða jafnvel fjársterku baklandi, heldur einungis eftir hæfni og reynslu! Það að Nelson skyldi ná aftur stjórn á flugvélinni við þessar aðstæður er með hreinum ólíkindum en honum auðnaðist samt að rétta vélina af áður en hú skall í sjóinn. En nú voru þeir félagar enn undir þokunni meðan vinir þeirra á Chicago og Boston voru að komast upp úr henni. Og eftir að hafa hringsólað nokkra stund og reynt að finna rof í þokunni og finna hinar vélarnar ákváðu þeir Nelson og Harding að halda áfram sinni för til Íslands. Þannig atvikaðist það að klukkan 18:37 þann 2. ágúst 1924, eftir um átta klst flug, lenti New Orleans í Mikleyjarál á Hornafirði og varð þannig fyrsta flugvélin til að lenda á Íslandi eftir flug erlendis frá. Það kom strax í ljós þegar þeir Nelson og Harding létu vita af sér að þeirra hafði orðið vart í Færeyjum er þeir flugu þar hjá, svo þá þegar var ljóst að ekki þyrfti að halda úti leit af þeim! En þeir á Chicago og Boston héldu, úr því sem komið var, kyrru fyrir í Kirkwall þá um nóttina.“

Togari hugðist draga eina flugvélina!

„Dagurinn eftir var ekki síður viðburðarríkur er þeir Smith og Arnold á Chicago, og Wade og Ogden á Boston, gerðu sína aðra tilraun til Íslandsferðar. Veðurguðirnir lofuðu bót og betrun frá deginum áður en þess í stað varð annars konar uppákoma er leið þeirra lá nærri Færeyjum, því þá hvarf allur olíuþrýstingur af mótornum í Boston. Það var því ekki um annað að ræða fyrir þá Wade og Ogden en að nauðlenda á sjónum! Lendingin tókst giftusamlega en framundan var þó nokkur bið eftir aðstoð. Þeir Smith og Arnold á Chicago fylgdu þeim eftir niður að sjávarborðinu til að sjá hvernig til tækist en að því loknu héldu þeir til móts við tundurspillinn Billingsby u.þ.b. 100 mílur í burtu, norðan Færeyja, til að láta vita hvernig komið væri. Til þess þurftu þeir félagar að skrifa skilaboð með staðsetningu Boston á miða, binda hann við einhvern þyngri bagga (m.a. björgunarvesti) og varpa svo niður á þilfar skipsins, sem þeim tókst að hitta í þriðju tilraun! Herskipið hélt þá þegar til móts við Boston þar sem mennirnir fengu að kúldrast á meðan í nokkru ölduróti þar sem vélin rak flöt fyrir. Í millitíðinni bar reyndar að þeim Grimsby-togarinn Rugby-Ramsey, með hjálpsömum skipverjum sem komu fljótlega taug á milli og hugðust þeir draga vélina að landi. En togarar þess tíma voru ekki burðugir þó vélknúnir væru svo á endanum gerðu þeir togaramenn ekki annað en að halda vélinni betur upp í ölduna, meðan beðið var komu herskipsins, en það gerði þó vistina um borð heldur skárri. Um síðir kom Billingsby og tók Boston í tog áleiðis til lands. En flugvélin þoldi illa að velkjast svo lengi í sjónum og áður en landi var náð reyndi beitiskipið Richmond sem þá var einnig komið til hjálpar, að hífa vélina sem þá var orðin ansi veikluleg, um borð en þá liðaðist hún alveg í sundur og hvarf í hafið, aðeins mílu frá landi. En Wade og Ogden voru þá þegar óhultir um borð í skipinu. Þeirra þáttöku í leiðangrinum var þó ekki lokið þar með, því þegar til austurstrandar Bandaríkjanna kom fóru þeir í land og tóku þar við frumgerð DWC-vélanna, þeirri sem þeir allir höfðu þjálfað sig á fyrir leiðangurinn, og hafði sú vél þá verið skírð Boston II. Fylgdust þessar þrjár vélar að upp frá því til enda leiðangursins.“