Fara í efni
Mannlíf

Þyrlan TF-LIF komin að hlið „litlu systur“

SÖFNIN OKKAR – XLV

Frá Flugsafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Undanfarin misseri hefur koma björgunarþyrlunnar TF-LIF á Flugsafn Íslands fengið mikla og verðskuldaða athygli, enda ekki á hverjum degi sem svo stór og merkur safngripur bætist við safnkostinn. Því fer þó fjarri að hún sé eina björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar sem er varðveitt á safninu, því „litla systir“, björgunarþyrlan TF-SIF, hefur verið varðveitt þar frá árinu 2008.

TF-SIF kom ný til landsins árið 1985 og markaði tímamót uppbyggingar í þyrlurekstri Landhelgisgæslunnar eftir hið hörmulega slys þegar þyrlan TF-RAN fórst í Jökulfjörðum með allri áhöfn 1983.

Þyrlan, TF-LIF, er af gerðinni Aérospatiale SA 365 Dauphin 2 og reyndist Landhelgisgæslunni vel allt til ársins 2007, þegar hún missti afl við björgunaræfingu úti fyrir Straumsvík í júlí 2007. Loft lak úr flotholtum þyrlunnar sem héldu henni á réttum kili og henni hvolfdi, með þeim afleiðingum að stjórn- og tækjabúnaður skemmdist þannig að hún var dæmd ónýt.

Á þeim 22 árum sem hún var í notkun var hún á lofti í um 7000 klukkustundir og er áætlað að hún hafi bjargað um 250 mannslífum.

Arngrímur B. Jóhannsson flugstjóri keypti þyrluna af tryggingafélaginu sem þyrlan var tryggð hjá. Það var hans mat að þyrluna ætti að varðveita og hún ætti hvergi annars staðar heima en á Flugsafni Íslands.