Fara í efni
Mannlíf

TF-KOT í Flugsafninu ber Húni Snædal gott vitni

SÖFNIN OKKAR – XXXIX

Frá Flugsafni Íslands á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Flugvélin TF-KOT sómir sér vel í Flugsafni Íslands og ber flugvélasmiðnum gott vitni. Hún er smíðuð af Húni Snædal, flugmanni og fyrrverandi flugumferðarstjóra, á árunum 1987 til 1990. Hún hóf sig fyrst á loft í ágúst 1990 og eftir það áttu Akureyringar oft eftir að sjá hana á flugi yfir bænum, þar sem Húnn flaug henni í listflugi. Skráningarstafina sótti hann til nafna dætra sinna, þeirra Kötu og Tótu.

Húnn hafði áður smíðað álíka flugvél sem bar sömu skráningarstafi, en hún skemmdist illa í lendingu á Melgerðismelum vorið 1987 og þótti ekki fýsilegt að gera við hana. Því réðst Húnn í smíði nýrrar flugvélar og svipar henni mjög til þeirrar fyrri en „nýja Kotið” gerði hann örlítið stærra og sterkbyggðara. Húnn teiknaði vélina sjálfur og smíðaði, en henni svipar til þýsku Jungmeister listflugvélanna.

Húnn Snædal á TF-KOT. Mynd: Pétur P. Johnson

Í viðtali við dagblaðið Dag þann 6. ágúst 1998 sagði Húnn frá því að listflug væri eins og skauta- eða balletdans; listflugið byggðist á ögun og æfingu, en jafnframt væri í því taktur sem gæfi því mýkt. Er óhætt að segja að hann hafi náð góðum tökum á listinni.

Húnn og eiginkona hans Guðrún Freysteinsdóttir færðu Flugsafninu TF-KOT að gjöf í ágúst 2020, ásamt gyrocopternum TF-EAA og flugvélinni TF-KEA, „Kaupfélaginu” sem Húnn smíðaði einnig.

Heimildir:

Dagur - Lífið í landinu - Blað 2 (06.08.1998), sótt af https://timarit.is/page/2420376?iabr=on

Morgunblaðið - 179. tölublað (11.08.1990), sótt af https://timarit.is/page/1727240?iabr=on

TF-KOT, TF-KEA og gyrocopterinn á Flugsafni Íslands á Akureyri.