Fara í efni
Mannlíf

10 bestu: viðtal við Nökkva Þey Þórisson

Nökkvi Þeyr Þórisson, Dalvíkingurinn sem slegið hefur í gegn með knattspyrnuliði KA í sumar og er lang markahæsti leikmaður efstu deildar Íslandsmótsins, er viðmælandi Ásgeirs Ólafssonar Lie í glænýjum þætti af 10 bestu, þeirri vinsælu hlaðvarpsþáttaröð.

„Nökkvi Þeyr er heitasta nafnið í íslenskum fótbolta í dag. Hann spilar með KA í Bestu deildinni og er markahæstur með 17 mörk þegar þetta er ritað og 3 leikir eru enn eftir,“ segir Ásgeir í kynningu á þættinum. „Það hefur engum tekist að skora 20 mörk i deildinni hingað til og fylgjast nú allir sem hafa áhuga á fótbolta með því hvort þessum unga leikmanni frá Dalvík takist það í fyrsta sinn. Hvernig er að spila með KA? Hvernig þjálfari er Arnar Grétarsson? Hvernig var að að spila í Þýskalandi? Eru einhver risafélög búin að hafa samband núna við leikmanninn? Hver er draumadeildin að spila í? Hvernig nærðu að skora svona mörg mörk? Hvað gerir þú til að virkja þig? Öllum þessum spurningum svarar þessi einstaklega vel gerði ungi maður sem virðist með báða fætur á jörðinni og segist hafa unnið í foreldralottóinu þegar hann dásamar foreldra sína, systkini og vini. Hann talar um Maríu sína og litla verðandi heimilisforingjann sem er að fæðast í nóvember,“ segir Ásgeir ennfremur.

„Hér er tilvalin leið til að kynnast heitasta leikmanni á Íslandi í dag betur. Hver er Nökkvi Þeyr Þórisson? Skylduáhlustun fyrir alla sem ætla sér alla leið,“ segir Ásgeir.

Smellið hér til að hlusta á þáttinn.