Fara í efni
Íþróttir

Tobías bætti 10 ára gamalt Íslandsmet

Tobías Þórarinn Matharel úr Ungmennafélagi Akureyrar sló 10 ára gamalt Íslandsmet í þrístökki í flokki 14 ára pilta á Áramóti UFA sem fram fór á fimmtudaginn. Tobías stökk 13,22 m og stórbætti fyrra metið sem var 12,66 m.

Gamla metið átti Styrmir Dan Hansen Steinunnarson og var það frá árinu 2013. Með þessu stökki kemst Tobías inn í úrvalshóp Frjálsíþróttasambandsins, væntanlega sá fyrsti frá UFA sem kemst í úrvalshópinn í þrístökki í 10 ár, að því er segir á vef UFA.

„Tobías er fjölhæfur íþróttamaður, hann varð íslandsmeistari í níu greinum á árinu 2023 og bætti íslandsmetið í flokki 14 ára pilta í þrístökki utanhúss í sumar, stökk þar 12,67 m,“ segir á vef UFA. „Innanhúss varð hann íslandsmeistari í 60 m grindahlaupi, langstökki og þrístökki. Utanhúss varð hann íslandsmeistari í 80m grindahlaupi, 300m grindahlaupi, hástökki, langstökki, þrístökki og spjótkasti.“

Smellið hér til að sjá fleiri myndir