Leyfa bílasýninguna í Boganum með fyrirvara
![](/static/news/lg/17-juni-24-10.jpg)
Fræðslu- og lýðheilsuráð hefur samþykkt erindi Einars Gunnlaugssonar, fyrir hönd Bílaklúbbs Akureyrar, um afnot af íþróttahúsinu Boganum til að halda árlega bílasýningu klúbbsins þann 17. júní í sumar. Ráðið gerir þó fyrirvara um framtíð sýningarinnar á þessum stað.
Í afgreiðslu fræðslu- og lýðheilsuráðs áréttar ráðið „að þegar gervigrasmottan og undirlagið í Boganum verður endurnýjað að þá er horft til þess að vera ekki með bílasýningar og þung tæki á nýju gervigrasi og nýju undirlagi.“
Ekki hafa allir verið á eitt sáttir um þessa notkun Bogans og til dæmis lagði fræðslu- og lýðheilsuráðs til við afgreiðslu sams konar erindis fyrir 17. júní 2022 að það yrði í síðasta sinn sem bílasýningin yrði haldin í Boganum, nema ásættanleg lausn fáist til að verja gervigrasið, eins og stendur í afgreiðslu ráðsins 25. apríl 2022. Ráðið samþykkti síðan sams konar umsókn um bílasýningu í Boganum árin 2023 og 2024 án frekari athugasemda.