Fara í efni
Íþróttir

Stefanía Daney bætti sitt eigið Íslandsmet

Stefanía Daney Guðmundsdóttir stekkur á Meistaramóti Íslands í Laugardalshöll. Mynd: UFA
Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum fór fram um síðustu helgi í Laugardalshöll, en innan raða UFA eru 20 iðkendur sem höfðu náð lágmörkum til keppni. Af þeim tóku 13 iðkendur þátt. 
 
Fyrst ber að nefna Íslandsmet Stefaníu Daneyjar Guðmundsdóttur í langstökki í flokki fatlaðra T20. Stefanía keppti með ófötluðum og setti glæsilegt Íslandsmet og náði 6. sæti. Stefanía stökk 5,26 m og bætti eigið Íslandsmet um 8 cm frá því fyrir ári. Stefanía náði einnig lágmörkum í 60m hlaupi og 200 m hlaupi og náði sínum besta árangri á þessu tímabili. Á meistarmóti fatlaðra, sem fór fram samhliða í Laugardalshöllinni, varð Stefanía Íslandsmeistari í langstökki og 60 m hlaupi, einnig náði hún silfri í kúlu. Óhætt að segja að Stefanía hafi gert góða ferð suður um heiðar. 

Af fleiri úrslitum helgarinnar má nefna að Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir nældi í silfrið í 3000 m hlaupi, en hún hljóp á tímanum 10:19,48 mín. Egill Atlason Waagfjörð náði silfri í þrístökki með stökki upp á 12,66 m. Egill er uppalinn í Ungmennafélaginu Kötlu sem er staðsett í við Vík Í Mýrdal, en hann fluttist til Akureyrar um áramótin til að vera nær þjálfurum sínum. 
 

F.v. Sigþóra Brynja, hástökkskonurnar efnilegu, Aníta Lind og Guðrún Hanna og lengst til hægri er mynd af Tobiasi Þórarni. Myndir: UFA
Hinn 16 ára gamli og bráðefnilegi Tobias Þórarinn Matharel náði í brons í langstökki karla með árangurinn 6,56 m. Ari Jósavinsson, þjálfari hjá UFA segir að Tobias sé að nálgast sitt fyrra form eftir meiðsli sem hafa haldið aftur af honum frá því í haust. Af öðrum ungum og efnilegum unglingum þá náðu hástökkvararnir Guðrún Hanna Hjartardóttir og Anita Lind Sverresdóttir góðum árangri fyrir sunnan. Guðrún stökk 1,62m og náði 4. sæti og Anita stökk 1,57m og náði 6. sæti.

Ari segir að aðrir keppendur hafi staðið sig mjög vel á sterku móti og mætti til dæmis minnast á Sigurlaugu Önnu Sveinsdóttur sem bætti sig í þrístökki og náði 5. sæti með stökk upp á 10,17 m. Pétur Friðrik Jónsson og Róbert Mackay náðu báðir í úrslit í 60m hlaupi karla en urðu að láta sér lynda 7. og 8. sætið.
 
 
 
F.v. Sigurlaug Anna, Pétur Friðrik og Róbert MacKay. Myndir: UFA