Fara í efni
Íþróttir

Tap fyrir ÍR – Martha og Hulda tóku fram skóna

Lykilmenn í barneignafríi í vetur. Frá vinstri: Unnur Ómarsdóttir, Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Hulda Bryndís Tryggvadóttir fylgjast með leik KA/Þórs á dögunum. Hið unga lið hefur saknað þeirra sárt í vetur. Hulda lék með í gær og landsliðskonurnar Unnur og Rut verða vonandi komnar á fulla ferð í haust. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA/Þór tapaði 22:17 fyrir ÍR í Reykjavík gær í Olís deild kvenna, efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Liðið er því enn í neðsta sæti deildarinnar.

Rétt er að nefna strax að um næstu helgi fá Stelpurnar okkar lið Stjörnunnar í heimsókn í KA-heimilið þar sem mikið verður undir. Stjarnan er með stig 7 stig að loknum 17 leikjum, Afturelding 6 stig eftir 16 leiki og KA/Þór 5 stig, einnig eftir 16 leiki. Ástæða er til að hvetja alla sem vettlingi geta valdið til að mæta og styðja við bakið á KA/Þór í baráttunni um að halda sæti í deildinni.

Gærdagurinn var sögulegur að því leyti að Martha Hermannsdóttir hefur tekið skóna af hillunni góðu og lék gegn ÍR. Martha, fyrirliði liðsins þegar KA/Þór varð Íslands- og bikarmeistari fyrir nokkrum misserum, lét gott heita vorið 2022 eftir farsælan feril. Hulda Bryndís Tryggvadóttir sneri einnig aftur í gær, hún eignaðist sitt fyrsta barn fyrir 10 mánuðum og þetta var fyrsti leikur hennar síðan.

Mörk: Nathalia Soares Baliana 3, Anna Þyrí Halldórsdóttir 3, Martha Hermannsdóttir 3 (2 víti), Lydía Gunnþórsdóttir 2 (1 víti), Rafaele Nascimento Fraga 2, Telma Lísa Elmarsdóttir 1, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 1, Hildur Magnea Valgeirsdóttir 1, Isabella Fraga 1.

Varin skot: Matea Lonac 9 (30%).

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina

„Allar hendur á dekk“

„Það eru tíu dagar síðan ég ákvað að taka slaginn með á ný,“ sagði Martha Hermannsdóttir við handbolta.is eftir leikinn í gær, þar sem hún stóð í stórræðum í vörninni, auk þess að gera þrjú mörk. „Við þurfum allar hendur á dekk á endasprettinum,“ sagði Martha.

Nánar hér á handbolti.is

Martha Hermannsdóttir var heiðruð af KA/Þór eftir að hún lagði skóna á hilluna vorið 2022. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson