Fara í efni
Íþróttir

Slagur KA og Víkings er stórleikur dagsins

Nökkvi Þeyr Þórisson hefur verið sjóðheitur í sumar og er markahæsti leikmaður Íslandsmótsins. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var frábær leikmaður á árum áður; stundum virtist honum álíka auðvelt að skora og að drekka vatn ... Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

KA tekur á móti Íslandsmeisturum Víkings í stórleik dagsins í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Flautað verður til leiks á heimavelli KA, Greifavellinum nýja, klukkan 16.00.

Staðan á toppi deildarinnar er afar spennandi:

  • Breiðablik 18 leikir – 42 stig
  • KA 18 leikir – 36 stig
  • Víkingur 17 leikir – 32 stig
  • Valur 18 leikir – 31 stig

Með sigri nær KA sjö stiga forskoti á Víking, en vinni Íslandsmeistararnir í dag verða þeir aðeins einu stigi á eftir KA-mönnum og eiga leik til góða; frestaða viðureign við Leikni. Breiðablik mætir Leikni í kvöld og verður sú viðureign áhugaverð því Leiknismenn eru næst neðstir og hvert stig þeim afar dýrmætt.

Eftir daginn á KA eftir þrjá leiki í deildinni, áður en einföld sex liða úrslitakeppni hefst. Leikirnir þrír eru þessir:

  • Fram – KA
  • KA – Breiðablik
  • Valur – KA

Að 22 umferðum loknum hefst „framlenging“ deildarinnar, annars vegar efstu sex liða, hins vegar sex neðstu liða. Lið halda vitaskuld þeim stigum sem þegar eru kominn í sarpinn og fyrirkomulagið er þannig að efri þrjú liðin í hvorum hópi fá þrjá heimaleiki þannig að miklu skiptir að vera eins ofarlega í töflunni og unnt er eftir leikina 22.

Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni.