Fara í efni
Íþróttir

Jafntefli hjá KA/Þór gegn HK í gær

Tinna Valgerður Gísladóttir, sem gekk nýlega til liðs við KA/Þór, jafnaði skömmu fyrir leikslok og var langmarkahæst. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA/Þór gerði jafntefli við HK, 23-23, í 13. umferð Grill 66 deildar kvenna í handknattleik í gær. Hinn helsti keppinautur KA/Þórs í toppbaráttu deildarinnar, Afturelding, vann auðveldan sigur á Berserkjum. KA/Þór er með fimm stiga forystu á toppi deildarinnar þegar fimm umferðir eru eftir.

KA/Þór náði þriggja marka forystu eftir 20 mínútna leik, en HK náði að snúa því við fyrir leikhlé, breyttu stöðunni úr 6-9 í 13-11 á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiksins. HK hélt forystunni lengst af í seinni hálfleiknum, en KA/Þór náði að jafna í 16-16 og svo aftur í 19-19 þegar rúmar tíu mínútur lifðu leiks.

HK var áfram á undan að skora á lokakaflanum, en jafnt var bæði 21-21 og 22-22. HK komst í 23-22 þegar þrjár mínútur voru eftir, en Tinna Valgerður Gísladóttir, sem var langmarkahæst í liði KA/Þórs, jafnaði leikinn í 23-23 þegar rúmar 20 sekúndur voru eftir á klukkunni og þannig urðu lokatölur leiksins. Liðin skiptu með sér stigunum. 

KA/Þór
Mörk: Tinna Valgerður Gísladóttir 10, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 5, Aþena Sif Einvarðsdóttir 2, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Elsa Björg Guðmundsdóttir 1, Kristín A. Jóhannsdóttir 1, Unnur Ómarsdóttir 1, Ólöf Kristín Þorsteinsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 6, Sif Hallgrímsdóttir 1.
Refsimínútur: 6

Hjá HK skiptist markaskorunin jafnar niður. Aníta Eik Jónsdóttir skoraði fimm mörk og þær Leandra Náttsól Salvamoser, Amelía Laufey G. Miljevic og Jóhanna Lind Jónsdóttir fjögur mörk hver. Markverðir HK vörðu samtals 13 skot.

KA/Þór er með fimm stiga forystu á toppi deildarinnar að loknum 13 umferðum. Stelpurnar hafa unnið 11 leiki, gert tvö jafntefli og hafa ekki enn tapað leik í deildinni í vitur. Afturelding kemur næst með 19 stig og HK í 3. sæti með 18 stig.

Leikirnir sem toppliðin eiga eftir:

  • KA/Þór: Berserkir (h), FH (ú), Víkingur (h), Fjölnir (ú), Fram 2 (h)
  • Afturelding: FH (h), Víkingur (ú), Fjölnir (h), Fram 2 (ú), Haukar 2 (h)
  • HK: Valur 2 (ú), Berserkir (ú), FH (h), Víkingur (ú), Fjölnir (h)

Eins og sjá má er öllum innbyrðis viðureignum þriggja efstu liðanna nú lokið.