Fara í efni
Íþróttir

Segir óhreinsað skólp úr klóaki renna í Brunnárgil

Mynd: Ingimundur Róbertsson

Elín Kjartansdóttir, sem ólst upp á Brunná við afleggjarann upp í Kjarnaskóg, segir óhreinsað skólp úr klóaki frá Hótel Kjarnalundi renna óáreitt út í brekku í Brunnárgili og í Brunnána. Þetta kemur fram í grein sem hún sendi Akureyri.net og birtist í dag.

Hún gagnrýnir hótelrekendur fyrir aðgerðarleysi því þeim hafi fyrst verið bent á það fyrir nokkrum árum að eitthvað hlyti að vera í ólagi eftir að „andstyggilegur daunn“ tók að berast niður brekkuna við ákveðin veðurskilyrði. „Þeirrar tegundar sem við köllum klóakfýlu. Ekki þurfti neitt mikið að brjóta heilann um orsökina, nokkur hundruð metrum ofar er 66 herbergja hótel, kennt við Kjarnalund,“ segir í greininni. 

Elín segir ábúanda á Brunná hafa ámálgað það nokkrum sinnum við hótelrekendur að gera eitthvað í málinu, „það hlyti að þurfa einhverjar lagfæringar á rotþrónni eða eitthvað.“

Í síðasta mánuði kom loks í ljós hvers kyns var, segir Elín í greininni, nokkuð sem engan óraði fyrir. Bróðir hennar gekk upp með Brunnánni „og fann þá furðulegt og heldur viðbjóðslegt fyrirbæri. Í stuttu máli rennur þarna úr lélegu röri rétt neðan við gilbarminn óhreinsað klóakskólpið frá téðu 66 herbergja hóteli! Í augum flestra sem til þekkja hlýtur þetta að flokkast sem mjög alvarleg náttúruspjöll, skólpið rennur um 20 metra leið að Brunná. Það breiðir úr sér svo það þekur líklega um hundrað fermetra og hafa myndast pyttir. Síðan rennur óhroðinn ofan í ána.“

Smellið hér til að lesa grein Elínar