Íþróttir
Árnar þagna frumsýnd – rætt við frambjóðendur
06.11.2024 kl. 02:30
Ný heimildarmynd eftir Óskar Pál Sveinsson, Árnar þagna, verður frumsýnd í Sambíóunum á Akureyri í dag, miðvikudaginn 6. nóvember. Sýningin hefst kl. 17.30 og aðgangur er ókeypis á meðan húsrúm leyfir. Frambjóðendur í Alþingiskosningunum í lok mánaðarins verða á staðnum, einn frá hverjum flokki, og að lokinni sýningu verða umræður um efni myndarinnar á milli íbúa og frambjóðendanna, að því er segir í tilkynningu frá framleiðendum myndarinnar.
Myndin Árnar þagna fjallar um áhrif sjókvíaeldis á laxi á lífríki „og afkomu fjölskyldna í sveitum Íslands og Noregs sem hafa byggt lífsafkomu sína á hlunnindum af sjálfbærum stangveiðum í margar kynslóðir,“ segir í tilkynningu frá framleiðendum.
„Við sjáum nú hver verður framtíð íslenska villta laxastofnsins og samfélaga í sveitum landsins sem hafa notið laxveiðihlunninda kynslóð eftir kynslóð ef ekki verður brugðist við,“ segir Óskar Páll.
Óskar Páll Sveinsson kvikmyndagerðarmaður. Mynd: RAX
„Sú framtíð rann upp í Noregi í júní á þessu ári,“ segir Í tilkynningu framleiðenda myndarinnar, „þegar Umhverfisstofnun Noregs fyrirskipaði lokun 33 af þekktustu laxveiðiám landsins vegna skaðans sem sjókvíaeldi á laxi og loftslagsbreytingar hafa valdið á villtum laxastofnum í Noregi. Á einu augnabliki hvarf stór hluti lifibrauðs fjölda samfélaga sem hefur byggt afkomu sína á hlunnindum af stangveiði í marga ættliði Í myndinni er rætt við eigendur norskra laxáa, sem tekin voru nokkrum dögum eftir að fótunum var kippt undan tilveru þeirra í sumar, og fólk í sveitum Íslands um þá framtíð sem mögulega bíður þess og fjölskyldna þeirra.“
Handritið að myndinni er eftir Óskar Pál og Jón Kaldal, sem jafnframt er í hlutverki eins framleiðenda hennar. Ástæðan fyrir því að myndin er frumsýnd á Akureyri eru nýlegar hugmyndir um að setja sjókvíaeldi af iðnaðarskala í Eyjafjörð, eins og það er orðað í tilkynningunni.
Jón Kaldal er einn framleiðenda myndarinnar.
„Við höfum enga trú á því að þau áform verði að veruleika, en myndin undirstrikar þau verðmæti sem sjálfbær umgengni við villta laxinn færir fjölskyldum sem búa í dreifbýli landsins. Sleppifiskur úr opnum sjókvíum í Eyjafirði myndi margfalda þann skaða sem þegar er orðinn á villtum íslenskum laxi,“ útskýrir Jón. Hann bætir við að í Eyjafirði séu meginheimkynni íslenska bleikjustofnsins. „Í ánum við fjörðinn eru um 40 prósent af bleikjustofnum landsins. Dagar bleikjunnar eru taldir í Eyjafirði ef áform um 20.000 tonna sjókvíaeldi á laxi í firðinum verða að veruleika. Laxalúsin, sem verður til í gríðarlegu magni í sjókvíunum, eirir engum laxfiskum, hvorki laxinum sjálfum, bleikju né sjóbirtingi,“ segir Jón.
Viðburðurinn í Sambíóunum í dag er í samstarfi við Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN) og veiðifélög í Norðausturkjördæmi.
Árnar þagna verður sýnd í nóvember í öllum landshlutum í samvinnu við veiðifélög og náttúruverndarsamtök á hverjum stað og fer síðar í almenna sýningu í sjónvarpi. Sérstakar sýningar verða líka í Noregi í desember og á næsta ári.
Eftirtaldir frambjóðendur hafa boðað komu sína í dag:
- Ari Orrason, Sósíalistaflokki
- Logi Einarsson, Samfylkingu
- Lovísa Oktovía Eyvindsdóttir, Viðreisn
- Sigurjón Þórðarson, Flokki fólksins
- Sindri Geir Óskarsson, VG
- Þorgrímur Sigmundsson, Miðflokki
- Jón Þór Kristjánsson, Sjálfstæðisflokki
- Ingibjörg Ólöf Isaksen, Framsóknarflokki
Fulltrúi Pírata verður einnig á staðnum en beðið er svara frá Lýðræðisflokknum, segir í tilkynningunni.