Risaleikur KA-manna: Sigur eða sumarfrí!
KA-menn taka á móti FH-ingum í dag í átta liða úrslitum Olís deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í handbolta.
Þetta er önnur viðureign liðanna í þessari rimmu, þau mættust í Hafnarfirði á fimmtudaginn þar sem FH vann með tveggja marka mun, 30:28. Vinna þarf tvo leiki til að komast í undanúrslit þannig að nú er að duga eða drepast fyrir KA-strákana. Uppskrift dagsins er: Sigur eða sumarfrí!
„Ótrúlega svekktur,“ sagði Halldór Stefán Haraldsson þjálfari KA í viðtali á Instagram reikningi handboltadeildar félagsins eftir tapið í Hafnarfirði á fimmtudaginn. „Mér fannst við tapa á smáatriðum, munurinn á liðunum var lítill í dag. Ég er stoltur af mínum mönnum að koma til baka eftir að hafa lent undir í byrjun seinni hálfleiks. Þetta var spegilmynd af síðasta leik en í stað þess að brotna saman komum við aftur til baka.“
Leikurinn sem Halldór vísar til var viðureign KA og FH í lokaumferð deildarkeppninnar þar sem FH vann með 10 marka mun í Hafnarfirði, eftir að KA hafði eins marks forskot í hálfleik. Allt annað var upp á teningnum hjá KA-mönnum á fimmtudaginn og þeir ættu að koma bjartsýnir til leiks í dag.
KA-stákarnir eru oft erfiðir heim að sækja og spennandi að sjá hvort þeir vinni deildarmeistarana í dag og tryggi sér þar með oddaleik í Hafnarfirði. Ástæða er til að hvetja KA-menn til að fjölmenna á leikinn og hvetja sína menn því mikið er í húfi.
Leikurinn í KA-heimilinu hefst klukkan 14.00 í dag.