Fara í efni
Íþróttir

Ökutækjum fjölgar fjórfalt hraðar en íbúum

Undanfarin fimm ár hefur íbúum á Akureyri fjölgað að jafnaði um fimm á viku, en á sama tíma hefur bifreiðum og bifhjólum á skrá fjölgað um 19 í hverri viku að jafnaði. Þetta kemur fram í grein Guðmundar Hauks Sigurðarsonar, framkvæmdastjóra Vistorku, á vef fyrirtækisins. Greinina nefnir hann Bifreiðar og ferðavenjur á Akureyri. Hann segir mikilvægt að Akureyringar nýti sér þá reynslu og þær lausnir sem samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins býður upp á.

Umferð eykst stöðugt

Nokkrir áhugaverðir punktar úr grein Guðmundar Hauks.

  • Um 85% skráðra ökutækja eru í umferð. Það þýðir í raun miðað við tölurnar síðastliðin fimm ár að fyrir hvern íbúa sem bætist við á Akureyri fjölgar ökutækjum um tæplega fjögur. Guðmundur Haukur bendir einnig á að öll þau ökutæki sem eru á skrá en ekki í umferð standi óhreyfð í bæjarlandinu og beri hvort tveggja vott um offjárfestingu og vonda nýtingu á landi.
  • Á undanförnum fimm árum hefur skráðum bifreiðum á Akureyri fjölgað úr tæplega 24 þúsund í tæplega 29 þúsuns, eða um 21%, á sama tíma og íbúum hefur fjölgað um 7%.
  • Umferðartalningar bæjarins sýna að umferð um Glerárbrú/Borgarbraut hefur aukist um rúmlega 9% undanfarin fimm ár og sömu sögu er að segja af mælingum Vegagerðarinnar á þjóðvegum á Norðurlandi, þar sem mælst hefur 11% aukning á umferð á sama tímabili.

Mynd: Skapti Hallgrímsson 

  • Guðmundur Haukur bendir einnig innreið hlaupahjólaleigu á Akureyri og stöðugrar aukningar á notun þeirra. Ef þau hefðu ekki bæst við samgöngutækjaflotann hefði líklega orðið enn meiri aukning á umferð.
  • Nauðsynlegt að fara að huga að sömu nálgun fyrir Akureyri og með samgöngusáttmála milli ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu þar sem svipuð þróun virðist eiga sér stað hér, að ökutækjum fjölgi en meiginsamgönguvinnviðir standi að mestu í stað. Samgöngusáttmálinn leggi áherslu á breyttar ferðavenjur, bættar almenningssamgöngur, að draga úr umferðartöfum og bæta loftgæði. Þessar áherslur segir hann einnig mikilvægar fyrir Akureyri þar sem fjölgun íbúa og ökutækja auki álag á núverandi samgöngukerfi, með miklum kostnaði og dragi úr lífsgæðum og sjálfbærni svæðisins.
  • Þrátt fyrir frítt sé með strætisvögnum Akureyrar og yfirleitt ekki langt að fara hefur umferð ekki minnkað og loftgæði ekki batnað. Þróunin undanfarið sýnir mikilvægi þess að efla almenningssamgöngur enn frekar til að mæta þörfum íbúa og stuðla að sjálfbærari.
  • Þrátt fyrir að flestar hindranir virðist úr vegi varðandi orkuskipti fyrir fólksbíla (M1) og sendibíla (N1) og mikið úrval, gott verð og hagkvæmari rekstur, bendir Guðmundur á að aðeins lítill hluti af nýskráðum sendibílum á þessu ári séu rafbílar. Hlutfall rafbíla af nýskráðum fólksbílum er 21%, en aðeins 6% af nýskráðum sendibílum.

Mynd: Haraldur Ingólfsson

En hvaða lausnir sér Guðmundur Haukur?

  • Til að mæta auknu álagi á samgöngukerfið þarf Akureyrarbær að leggja meiri og hraðari áherslu á uppbyggingu hjóla- og göngustíga enda sé það í fullu samræmi við gildandi aðalskipulag og stefnu og markmið í loftslagsmálum.
  • Samstarf ríkis og sveitarfélaga er lykilatriði í samgöngusáttmálanum og segir Guðmundur Haukur það sama gilda fyrir Akureyri. Fjárfesting sé ekki aðeins nauðsynleg fyrir höfuðborgarsvæðið heldur einnig aðra landsluta, til að tryggja jafnvægi og samkeppnishæfni. Akureyrarbær ætti því að vinna að því að ná sams konar samkomulagi við ríkisvaldið og gert hefur verið á höfuðborgarsvæðinu.

Niðurstaða Guðmundar Hauks er að mikilvægt sé fyrir Akureyringa að nýta sér þá reynslu og þær lausnir sem samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins býður upp á. Með því að leggja áherslu á sjálfbærar samgöngur, öryggi og umhverfisvernd geti Akureyri tryggt betri lífsgæði fyrir íbúana og stuðlað að sjálfbærri framtíð.

3-4 milljarðar myndu sparast

Hann bendir á að með fullum orkuskiptum og breyttum ferðavenjum geti Akureyrarbær og Akureyringar sparað gríðarlega fjármuni. Orkuskiptin ein muni spara samfélaginu 3-4 milljarða króna í eldsneytiskaupum á hverju ári, bara á fólksbíla. Þar vísar hann meðal annars til umfjöllunar í annarri grein frá 2022  þar sem hann setur samgöngukostnað samfélagsins á Akureyri í samhengi við rekstur Akureyrarbæjar og fleira. Þá tölu megi örugglega tvöfalda þegar allt annað er talið með í orkuskiptum.

Hann segir það sama eiga við um kaup á ökutækjum. Ef miðað sé við að meðalverð þeirra rúmlega 6.000 ökutækja sem hafa bæst við flotann á Akureyri undanfarin fimm ár sé sjö milljónir króna hafi íbúar og stofnanir bæjarins varið um 42 milljörðun í þau kaup. Samgöngukerfi sem leggi alla áherslu á ökutæki sé ósjálfbært, bæði fjárhags- og umhverfislega.

Mynd: Skapti Hallgrímsson

  • ATH - fyrirsögninni hefur verið breytt frá upphaflegu útgáfu fréttinnar þar sem hún var ekki rétt.