Fara í efni
Íþróttir

LOKSINS! KA BIKARMEISTARI

Myndir: Skapti Hallgrímsson

KA varð í dag bikarmeistari í knattspyrnu karla í fyrsta sinn, eftir 2:0 sigur á Víkingum í skemmtilegum úrslitaleik á Laugardalsvelli.

Fyrirfram voru Víkingar taldir sigurstranglegri, enda hafa þeir unnið bikarinn síðustu fjögur skipti og voru mættir í bikarúrslit fimmta árið í röð. KA hafði hins vegar aldrei náð að landa bikarmeistaratitlinum og voru mættir í fimmta sinn í dag til að gera atlögu að þeim stóra. Leikmenn KA blésu á alla spádóma og tölfræði fyrri ára, þeir léku sérlega vel í dag og sigurinn var fyllilega verðskuldaður.

Fyrra mark KA kom á 37. mínútu eftir hornspyrnu og hvort sem það var fyrirliðinn Ívar Örn Árnason eða Rodri eða Viðar Örn Kjartansson eða Oliver Ekroth varnarmaður Víkings sem átti síðustu snertinguna þá endaði knötturinn í netinu!

KA-menn börðust eins og ljón allan leikinn og lokuðu vel á Víkingana. Það var síðan varamaðurinn Dagur Ingi Valsson sem gulltryggði sigurinn alveg í blálokin.

„Við þráðum þetta meira en þeir,“ sagði Hallgrímur Jónasson þjálfari KA í viðtali við RÚV eftir leikinn, þegar hann var spurður út í hvað hefði skilið liðin að í dag. Hallgrímur var alveg sallarólegur í viðtalinu og sagði að þeir hefðu komið vel undirbúnir í leikinn og verið andlega tilbúnir í þetta. „Þá er maður bara rólegur,“ sagði hann og bætti við: „Svo fara leikir bara eins og þeir fara. En mér fannst við verðskulda þennan titil. Þetta er æðisleg stund,“ sagði stoltur Hallgrímur þjálfari.

Hallgrímur Mar Steingrímsson var verulega hrærður í leikslok þegar RÚV ræddi við hann. „Ég get eiginlega ekki lýst því,“ sagði hann og átti bágt með að leyna tilfinningunum. „Ég er búinn að bíða í sjö ár núna að gera eitthvað með þessu liði. Það er ekki langt í að ferillinn verði búinn og mjög gott að klára þennan stóra titil. Ég er mjög stoltur af því að vera partur af þessu liði,“ sagði Hallgrímur.

NÁNAR Í KVÖLD